Ég fékk uppskrift að dásamlega góðu hrökkkexi frá vinkonu minni sem er heimilisfræðikennari og snillingur í eldhúsinu. Mér finnst ofsalega gott að grípa í hrökkkex með góðum ostum eða öðru áleggi og þá er ekki slæmt að hafa svona góðan kost í kexi. Þetta kex er sykur- og hveitilaust og er stútfullt af hollum og bragðgóðum fræjum. Mér finnst kúmenið setja punktinn yfir i-ið í þessu kexi. Það þarf aðeins að prófa sig áfram með vatnið, magnið fer eftir því hvaða tegund af huski er notuð. Svo virðist eins og að grófara husk þurfi minna vatn en ef það er duftkennt þarf að nota allt að tvo desilítra af vatni.
Uppskrift:
- 2 dl eggjahvítur
- 2 msk chiafræ
- 1 ½ dl hörfræ
- 1 dl graskersfræ
- 2 dl sesamfræ
- 1 dl hörfræmjöl (Golden Flax Seed meal)
- ½ dl husk
- 1 tsk salt
- 3 msk kúmen
- ½ piparostur, rifinn
- 1-2 dl heitt vatn
Ofn hitaður í 120 gráður á blæstri. Þeytið eggjahvíturnar lauslega og bætið chiafræunum við, látið standa í ca 10 mínútur eða þangað til fræin hafa blásið út. Blandið síðan öllum þurrefnunum ásamt ostinum út í og hrærið. Vatninu er því næst bætt út þar til deigið er hæfilega blautt. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, leggið aðra pappírsörk yfir deigið og fletjið út með kökukefli, fjarlægið pappírinn. Bakið við 120°c og blástur í 35 mínútur, takið hrökkbrauðið út og hvolfið því. Skerið með pizzahníf og bakið áfram á hinni hliðinni í 35 mínútur.
Sæl, takk fyrir þessa uppskrift! Ég hlakka til að prufa. Mætti ég spurja þig hvað husk er? Ég hef aldrei heyrt um það áður. Veistu hvar það fæst og eins hörfræmjölið?
Sæl Silja. Husk er náttúrulega trefjar sem notaðar eru til þess að binda saman rétti sem eru til dæmis án hveitis sem annars virkar eins og nokkurs konar bindiefni. Husk fæst í lágkolvetnahillunni í Nettó, í Hagkaup, Fjarðakaupum, Lifandi markaði, í apótekum, heilsubúðum og á fleiri stöðum. Þetta er algeng tegund: http://lavkarbohverdag.com/butikk/produkt-kategori/fiberhusk-psylliumfroskall/ eða svona: http://www.iherb.com/Now-Foods-Healthy-Foods-Psyllium-Husk-Powder-24-oz-680-g/21133 Hörfræmjölið fæst í Nettó, Hagkaup, Fjarðarkaup, Kosti og í fleiri sérverslunum. Það er fremur dýrt en mjög drjúgt. Það getur verið í svona pakkningum: http://www.iherb.com/Now-Foods-Organic-Golden-Flax-Seed-Meal-22-oz-624-g/8464
Er osturinn settur í deigið og þá hvenær…? Er hörfræmjöl það sama og Husk ? ( sem fæst í grænum kössum í Apótekum, frekar dýrt, svo það væri ráð að fá smá hjá eh sem notar það). Hvaða hita í venjulegum ofni ? Takk, takk og hlakka til að prófa !
Sæl Hjördís. Osturinn fer út í með þurrefnunum, ég er búin að bæta því inn í uppskriftina. Hörfræmjöl er ekki það sama og husk, hvor tveggja er í uppskriftinni. Þú getur séð dæmi um slíkt mjöl í linknum í svari mínu hér að ofan til Silju. Huskið er hins vegar þetta sem þú talar um í hvítum og grænum kössum í apótekinu eða til dæmis gulum kössum í mörgum matvöruverslunum. Ef maður á ekkert af hráefnunum í þessa uppskrift þá er ansi dýrt að kaupa í hana. Hins vegar duga hráefnin mjög lengi og í margar uppskriftir að þessu hrökkkexi.