Hrökkkex með kúmeni og piparosti


Hrökkbrauð með kúmeni og piparostiÉg fékk uppskrift að dásamlega góðu hrökkkexi frá vinkonu minni sem er heimilisfræðikennari og snillingur í eldhúsinu. Mér finnst ofsalega gott að grípa í hrökkkex með góðum ostum eða öðru áleggi og þá er ekki slæmt að hafa svona góðan kost í kexi. Þetta kex er sykur- og hveitilaust og er stútfullt af hollum og bragðgóðum fræjum. Mér finnst kúmenið setja punktinn yfir i-ið í þessu kexi. Það þarf aðeins að prófa sig áfram með vatnið,  magnið fer eftir því hvaða tegund af huski er notuð. Svo virðist eins og að grófara husk þurfi minna vatn en ef það er duftkennt þarf að nota allt að tvo desilítra af vatni.

Uppskrift: 

 • 2 dl eggjahvítur
 • 2 msk chiafræ
 • 1 ½ dl hörfræ
 • 1 dl graskersfræ
 • 2 dl sesamfræ
 • 1 dl hörfræmjöl (Golden Flax Seed meal)
 • ½ dl husk
 • 1 tsk salt
 • 3 msk kúmen
 • ½ piparostur, rifinn
 • 1-2 dl heitt vatn

IMG_3425Aðferð:

Ofn hitaður í 120 gráður á blæstri. Þeytið eggjahvíturnar lauslega og bætið chiafræunum við, látið standa í ca 10 mínútur eða þangað til fræin hafa blásið út. Blandið síðan öllum þurrefnunum ásamt ostinum út í og hrærið. Vatninu er því næst bætt út þar til deigið er hæfilega blautt. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, leggið aðra pappírsörk yfir deigið og fletjið út með kökukefli, fjarlægið pappírinn. Bakið við 120°c og blástur í 35 mínútur, takið hrökkbrauðið út og hvolfið því. Skerið með pizzahníf og bakið áfram á hinni hliðinni í 35 mínútur.

IMG_3430