Hrökkkex með kúmeni og piparosti


Hrökkbrauð með kúmeni og piparostiÉg fékk uppskrift að dásamlega góðu hrökkkexi frá vinkonu minni sem er heimilisfræðikennari og snillingur í eldhúsinu. Mér finnst ofsalega gott að grípa í hrökkkex með góðum ostum eða öðru áleggi og þá er ekki slæmt að hafa svona góðan kost í kexi. Þetta kex er sykur- og hveitilaust og er stútfullt af hollum og bragðgóðum fræjum. Mér finnst kúmenið setja punktinn yfir i-ið í þessu kexi. Það þarf aðeins að prófa sig áfram með vatnið,  magnið fer eftir því hvaða tegund af huski er notuð. Svo virðist eins og að grófara husk þurfi minna vatn en ef það er duftkennt þarf að nota allt að tvo desilítra af vatni.

Uppskrift: 

 • 2 dl eggjahvítur
 • 2 msk chiafræ
 • 1 ½ dl hörfræ
 • 1 dl graskersfræ
 • 2 dl sesamfræ
 • 1 dl hörfræmjöl (Golden Flax Seed meal)
 • ½ dl husk
 • 1 tsk salt
 • 3 msk kúmen
 • ½ piparostur, rifinn
 • 1-2 dl heitt vatn

IMG_3425Aðferð:

Ofn hitaður í 120 gráður á blæstri. Þeytið eggjahvíturnar lauslega og bætið chiafræunum við, látið standa í ca 10 mínútur eða þangað til fræin hafa blásið út. Blandið síðan öllum þurrefnunum ásamt ostinum út í og hrærið. Vatninu er því næst bætt út þar til deigið er hæfilega blautt. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, leggið aðra pappírsörk yfir deigið og fletjið út með kökukefli, fjarlægið pappírinn. Bakið við 120°c og blástur í 35 mínútur, takið hrökkbrauðið út og hvolfið því. Skerið með pizzahníf og bakið áfram á hinni hliðinni í 35 mínútur.

IMG_3430

Heimatilbúið múslí


Ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur, til dæmis jógúrt, súrmjólk og slíkt. Þegar ég bjó í Stokkhólmi fann ég hins vegar afar góða hunangsmelónujógúrt og dásamlega gott sænskt múslí sem ég borðaði alltaf í morgunmat. Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt á Íslandi og fór þess vegna að prófa mig áfram með múslígerð. Núna er ég komin niður á múslí sem mér finnst dásamlega gott. Krakkarnir elska þetta múslí og segja það vera nammi! Eftir að ég fór að gera þetta múslí þarf alltaf að vera til AB mjólk í ísskápnum, eitthvað sem engin vildi borða áður, en múslíið gerir AB mjólkina að hátíðarmat! Það er afar einfalt að búa múslíið til. Það tekur bara nokkrar mínútur að mæla í blönduna. Eina sem þarf að gera er síðan að hræra reglulega í múslíinu þegar það er í ofninum til þess að það brenni ekki. Ég bý oft múslíið til á meðan ég er að elda kvöldmatinn ef ég þarf ekki að nota ofninn í annað. Gróflega reiknað kostar ca. 2 þúsund að kaupa allt hráefnið í blönduna. En ég get notað margt af því allt að 5-6 sinnum eða oftar. Eina sem þarf að fylla á oftar eru tröllahafrarnir og hneturnar, það dugir ca tvisvar til þrisvar sinnum. Þannig að hver skammtur af múslíinu er ekki dýr þó um sé að ræða gæðahráefni. Mér finnst bráðnauðsynlegt að setja svo dálítið af rúsínum út á múslíið og AB mjólkina eða skera niður eina eða tvær döðlur og setja út á, dásamlega gott!

Uppskrift:

 • 5 dl haframjöl
 • 2 dl sólblómafræ
 • 1 dl hörfræ
 • 1 dl kókosflögur
 • hrásykur (ég nota ca. 1/2-1/3 dl)
 • 1/2 poki saxaðar heslihnetur
 • 2 dl vatn
 • 4-5 msk matarolía
Öllu hráefninu, fyrir utan vatn og matarolíu, blandað saman. Vatni og matarolíu blandað saman og blandað við múslí blönduna. Ristað í ofni við 200 gráður í ca 30-35 mínútur. Hrært oft í blöndunni svo hún brenni ekki við. Það er á mörkunum að kókosflögurnar ráði við þennan tíma þannig að oft set ég þær ekki út í blönduna strax heldur bæti þeim þegar ca. 10-15 mínútur af bökunartímanum er liðinn. Á þessari mynd voru þær reyndar með allan bökunartímann (30 mínútur).