Ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur, til dæmis jógúrt, súrmjólk og slíkt. Þegar ég bjó í Stokkhólmi fann ég hins vegar afar góða hunangsmelónujógúrt og dásamlega gott sænskt múslí sem ég borðaði alltaf í morgunmat. Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt á Íslandi og fór þess vegna að prófa mig áfram með múslígerð. Núna er ég komin niður á múslí sem mér finnst dásamlega gott. Krakkarnir elska þetta múslí og segja það vera nammi! Eftir að ég fór að gera þetta múslí þarf alltaf að vera til AB mjólk í ísskápnum, eitthvað sem engin vildi borða áður, en múslíið gerir AB mjólkina að hátíðarmat! Það er afar einfalt að búa múslíið til. Það tekur bara nokkrar mínútur að mæla í blönduna. Eina sem þarf að gera er síðan að hræra reglulega í múslíinu þegar það er í ofninum til þess að það brenni ekki. Ég bý oft múslíið til á meðan ég er að elda kvöldmatinn ef ég þarf ekki að nota ofninn í annað. Gróflega reiknað kostar ca. 2 þúsund að kaupa allt hráefnið í blönduna. En ég get notað margt af því allt að 5-6 sinnum eða oftar. Eina sem þarf að fylla á oftar eru tröllahafrarnir og hneturnar, það dugir ca tvisvar til þrisvar sinnum. Þannig að hver skammtur af múslíinu er ekki dýr þó um sé að ræða gæðahráefni. Mér finnst bráðnauðsynlegt að setja svo dálítið af rúsínum út á múslíið og AB mjólkina eða skera niður eina eða tvær döðlur og setja út á, dásamlega gott!
- 5 dl haframjöl
- 2 dl sólblómafræ
- 1 dl hörfræ
- 1 dl kókosflögur
- hrásykur (ég nota ca. 1/2-1/3 dl)
- 1/2 poki saxaðar heslihnetur
- 2 dl vatn
- 4-5 msk matarolía
Ótrúlega gott morgunmatsmúslí eða bara sem millimál.
Einfalt og lekkert, tetta verdur prófad.
bjó í fyrsta sinn til musli í sumar eftir sænskri heimasíðu (tasteline held ég), var svo vont að ég varð að henda öllu, prófaði núna uppskriftina þína og er hrikalega ánægð! takk fyrir mig….aftur
Frábært Sunna, en hvað ég verð glöð að heyra þetta! Ég er ánægð með þig hvað þú ert dugleg að prófa uppskriftirnar og kommenta! 🙂
Bakvísun: Þorskhnakkar i miðjarðarhafssósu | Eldhússögur
Bakvísun: Þorskhnakkar í miðjarðarhafssósu | Uppskriftirnar mínar