Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum


Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég kemst auðveldlega í gegnum daginn án þess að borða sætmeti. En svo kemur kvöldið og óvægin fígúra tekur líf mitt í sínar hendur! Í stuttu máli gengur þetta svona fyrir sig. Ég byrja daginn vel, mig langar bara í hollan og góðan mat og kaupi meðvitað ekkert sætmeti inn á heimilið. Þar sem ég í makindum mínum og blásakleysi lýk við kvöldmatinn og er reiðubúin að njóta kvöldsins án nokkurs sætmetis, ryðst sætindapúkinn óboðinn inn á mitt stofugólfið með heimtufrekju og læti! Ég segi það og skrifa, ég ræð ekkert við þessa ótemju! Ég hef lent í ófáum ævintýrum vegna púkans sem tekur yfir líf mitt þegar rökkva tekur. Fyrir alllöngu þegar ég bjó í Svíþjóð þá ruddist púkinn fyrirvaralaust heim til mín eitt kvöldið eins og svo oft áður (hann virðir engin landamæri!). Líkt og gísl með Stokkhólmsheilkennið æddi ég af stað út í hraðbanka á hjóli (ég var bíllaus) til þess að taka út pening. Eina sjoppan í nágrenni við mig tók nefnilega ekki kort og það sem meira var þá lokaði hún á afar ókristilegum tíma, klukkan 21. Auðvitað hafði púkinn, jafn ófyrirleitinn og hann er, ákveðið að derra sig þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í níu! Eitthvað tautaði ég áhyggjuorð yfir því að ég myndi ekki pin-númerið á debetkortinu mínu. Púkinn hló upp í opið geðið á mér að þessari fátæklegu afsökun og píndi mig til þess að reyna að rifja upp pin-númerið þrisvar í hraðbankanum – þar með átti ég ekkert debetkort lengur! Í fáti og örvæntingu rótaði ég í veskinu mínu og fann vísakortið sem ég notaði sjaldan. Púkinn hafði komið mér algjörlega úr jafnvægi, ég steingleymdi að nokkru áður taldi ég mig hafa týnt vísakortinu og lét bankann loka því. Hraðbankinn gleypti því vísakortið líka með bestu lyst við fyrstu tilraun. Þar sem ég stóð móð og másandi eftir hjólasprettinn við hraðbankann, korta- og peningalaus og mændi örvæntingafull yfir götuna á sjoppuna sem verið var að loka, tók ég ákvörðun! Ég ætlaði að rísa upp gegn púkanum, gefa honum táknrænan kinnhest og tilkynna að hann stjórnaði ekki lífi mínu lengur hringja í Elfar í vinnuna og biðja hann um að koma við í sjoppunni sem var opin allan sólarhringinn á leið sinni heim af kvöldvaktinni!

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Það eina góða við púkann er að það þarf lítið til að gleðja hann, skömmina þá arna! Mér nægir lítill moli til þess að reka hann heim til sín og þar með kem ég loksins að uppskrift dagsins! Ég var eitthvað að vandræðast með nafnið á henni. Mér datt í hug „hollustumolar“ en það getur vart talist annað en sjálfsblekking. Þessir molar eru ekki beint hollir, stútfullir af  kaloríum, en þeir eru kannski ekkert svo óhollir heldur. Í þeim er enginn viðbættur sykur, einungis hnetur, þurrkuð ber, kókosflögur, lífrænt hnetusmjör auk kókosolíu og 70% súkkulaðis. Þetta munngæti er sérlega fljótlegt að útbúa, dásamlega gott og allir púkar fara heim til sín eftir einn lítinn mola – svona bjarga ég kvöldunum (og kortunum!) mínum! 🙂

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Uppskrift:

  • 100 g 70% súkkulaði
  • ca. 120 g lífrænt hnetusmjör
  • 40 ml kókosolía
  • 100 g hnetur (ég notast við það sem ég á, hér notaði ég blöndu af heslihnetum, möndlum og kasjúhnetum.
  • 80 g þurrkuð ber (ég nota berjablöndu frá Líf sem í eru þurrkuð múlber, gojaber, bláber og blæjuber)
  • 80 g kókosflögur

Súkkulaði, kókosolía og hnetusmjör brætt saman í potti. Um leið allt er bráðnað saman er potturinn tekinn af hellunni og hnetum, berjum og kókosflögum bætt út í. Blandað vel saman. Hellt í form klætt bökunarpappír, særð formsins fer eftir því hversu þykka bita maður vill. Ég nota tvö brauðform en fylli bara annað til hálfs. Kælt í minnst klukkutíma. Þá stykkið skorið í bita.

IMG_6909

Geymist í ísskáp og nælt í einn bita á kvöldin til að halda sælgætispúkum frá! 🙂Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Hráfæðis brownies og leikur á Facebook


Hráfæðis brownies

Svo bregðast krosstré sem önnur tré … nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði … og svo framvegis! Ég fór sem sagt í eldhúsið og bakaði hráfæðisköku! Eitthvað sem hefur aldrei gerst áður og ég veit ekki hvort það gerist aftur. En ég verð þó að viðurkenna að það var auðvelt að búa til þessa köku (að „baka“ er ofsögum sagt því kakan er jú óbökuð), mjög fljótlegt og jú, hún var bara rosalega góð! Kakan kom á óvart, ég get ekki sagt annað.

Þessi uppskrift af góðri og hollri hráfæðisköku er í stíl við leikinn sem Eldhússögur hrindir úr vör í kvöld og stendur yfir fram til kl. 12 á hádegi á laugardag 4. maí. Einn heppinn lesandi Eldhússagna hlýtur gjafabréf upp á heilsumat (verðmæti 6.900 kr.) í líkamsræktarstöðinni Heilsuborg – bestu líkamsræktarstöðinni í bænum, ég get vottað það! 🙂

Hvað er heilsumat? Heilsumat er góð byrjun þegar einstaklingar hyggjast breyta um lífsstíl en vita ekki hvar eða hvernig er best að byrja. Viðkomandi fyllir út spurningarlista rétt fyrir tímann og í framhaldinu er veitt vönduð ráðgjöf hjúkrunar- eða næringarfræðings um heilsufar, hreyfingu og næringu. Innifalin er mæling í líkamsgreiningartæki, mældur er blóðþrýstingur sem og fleiri mælingar. Mælingar á þyngd og samsetningu líkamans eru gerðar með viðnámsmæli. Mælt er fitumagn og vöðvamagn líkamans sem og grunnorkuþörf hvers og eins. 

Reglur:

Það þarf ekki að deila einu né neinu til þess að taka þátt í leiknum (nema auðvitað að ykkur langi til að deila uppskriftinni, það má það alveg! 😉 ). Það eina sem þarf að gera til þess að taka þátt í leiknum er að fara á Facebook síðu Eldhússagna hér: Eldhússögur á Facebook og skrifa smá kveðju undir hráfæðis brownies færsluna sem er þar. Vinningshafi verður svo dregin út næstkomandi laugardag.

Uppskrift (12 litlir bitar eða 6 stærri)

  • 2 dl valhnetur
  • 2 dl ferskar döðlur (án steins)
  • 1/2 dl gott kakó
  • 1 msk möndlu- eða jarðhnetusmjör
  • hnífsoddur salt
  • 1-2 tsk vatn

Valhneturnar eru settar í matvinnsluvél og hneturnar maldar í mjöl. Þá er restinni af hráefnunum, fyrir utan vatnið, bætt út í og keyrt þar til allt loðir saman og myndar deig. Ef þarf er örlitlu vatni bætt út í til þess að binda degið saman. Kökuform (ég notaði brauðform 25cm x 11cm) er klætt með bökunarpappír og deiginu er þrýst vel ofan í formið. Það er svo sett inn í frysti á meðan kremið er útbúið.

Súkkulaðikrem

  • 1 vel þroskað avókadó
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • 3 msk agave síróp
  • 1 msk kókosolía
  • 3 msk gott kakó

Öllu blandað saman vel í matvinnsluvél þar til kremið er orðið kekkjalaust og silkimjúkt. Þá er kökuformið tekið úr frystinum og kreminu smurt ofan á kökuna. Sett aftur inn í frysti í ca. 20 mínútur. Þá er kakan losuð úr forminu og skorin í 12 litla bita eða sex stærri bita. Geymist vel í ísskáp eða í frysti.

IMG_9404

 

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

  • grænt gott salat
  • klettasalat
  • spinat
  • rauð paprika, skorin í litla bita
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 avókadó skorið í bita
  • 1 mangó, skorið í bita
  • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

  • 400 g risarækjur
  • ca 1 msk ólífuolía
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • ½ tsk chiliduft
  • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
  • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
  • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Hummus á hrökkbrauði með tómötum og avókadó


IMG_7515Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera.  Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.

IMG_7506Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.

Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!

IMG_7536

  • 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
  • 1-2 msk vökvi frá baununum
  • 2 límónur (lime)
  • 1 msk Tahini
  • 2 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
  • 4-6 msk ólífuolía
Vökvanum er hellt af kjúklingabaununum og honum haldið til haga. Hýðið rifið af annarri límónunni. Kjúklingabaunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hýðinu af límónunni, safanum úr báðum límónunum, hvítlauk, steinselju, tahini og ólífuolíu. Öllu blandað saman þar til orðið að mauki. Þá er vökvanum frá kjúklingabaununum bætt út í þannig að maukið verði passlega þykkt.
IMG_7510

Heimatilbúið múslí


Ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur, til dæmis jógúrt, súrmjólk og slíkt. Þegar ég bjó í Stokkhólmi fann ég hins vegar afar góða hunangsmelónujógúrt og dásamlega gott sænskt múslí sem ég borðaði alltaf í morgunmat. Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt á Íslandi og fór þess vegna að prófa mig áfram með múslígerð. Núna er ég komin niður á múslí sem mér finnst dásamlega gott. Krakkarnir elska þetta múslí og segja það vera nammi! Eftir að ég fór að gera þetta múslí þarf alltaf að vera til AB mjólk í ísskápnum, eitthvað sem engin vildi borða áður, en múslíið gerir AB mjólkina að hátíðarmat! Það er afar einfalt að búa múslíið til. Það tekur bara nokkrar mínútur að mæla í blönduna. Eina sem þarf að gera er síðan að hræra reglulega í múslíinu þegar það er í ofninum til þess að það brenni ekki. Ég bý oft múslíið til á meðan ég er að elda kvöldmatinn ef ég þarf ekki að nota ofninn í annað. Gróflega reiknað kostar ca. 2 þúsund að kaupa allt hráefnið í blönduna. En ég get notað margt af því allt að 5-6 sinnum eða oftar. Eina sem þarf að fylla á oftar eru tröllahafrarnir og hneturnar, það dugir ca tvisvar til þrisvar sinnum. Þannig að hver skammtur af múslíinu er ekki dýr þó um sé að ræða gæðahráefni. Mér finnst bráðnauðsynlegt að setja svo dálítið af rúsínum út á múslíið og AB mjólkina eða skera niður eina eða tvær döðlur og setja út á, dásamlega gott!

Uppskrift:

  • 5 dl haframjöl
  • 2 dl sólblómafræ
  • 1 dl hörfræ
  • 1 dl kókosflögur
  • hrásykur (ég nota ca. 1/2-1/3 dl)
  • 1/2 poki saxaðar heslihnetur
  • 2 dl vatn
  • 4-5 msk matarolía
Öllu hráefninu, fyrir utan vatn og matarolíu, blandað saman. Vatni og matarolíu blandað saman og blandað við múslí blönduna. Ristað í ofni við 200 gráður í ca 30-35 mínútur. Hrært oft í blöndunni svo hún brenni ekki við. Það er á mörkunum að kókosflögurnar ráði við þennan tíma þannig að oft set ég þær ekki út í blönduna strax heldur bæti þeim þegar ca. 10-15 mínútur af bökunartímanum er liðinn. Á þessari mynd voru þær reyndar með allan bökunartímann (30 mínútur).

Ofnbakaður hafragrautur með rabbabara


Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið fyrir hafragraut, eiginlega borða ég hann ekki en öfunda alla þá sem borða hafragraut því hann er svo hollur og staðgóður! Flestum í fjölskyldunni finnst hann góður, þær systur fá sér oft hafragraut á morgnana. En svo sá ég á netinu hugmynd af ofnbökuðum hafragraut sem kveikti áhuga minn á að gera einhverjar skemmtilegar útfærslur af grautnum. Það lítur kannski út fyrir að vera tímafrekt að útbúa grautinn í ofni en svo er alls ekki, ég tók tímann! Ég var 2 mínútur að útbúa grautinn (með forskornum rabbabara úr frysti, aðeins lengur ef epli eru skorin niður), svo er honum bara hent inn í ofn og á meðan er hægt að vekja börnin og hafa alla til á meðan grauturinn bakast í ofninum í ca. 15 -20 mínútur. Það er líka hægt að búa hann til kvöldinu áður og geyma í ísskáp yfir nóttu, setja bara álpappír eða plastfilmu yfir hann. Krökkunum fannst ofnbakaði hafragrauturinn algjört sælgæti! Ósk sagði að grauturinn bragðaðist ekki eins og hafragrautur, meira eins og nammi! Meira að segja Vilhjálmi, sem hefur hingað til ekki verið mjög hrifinn af hafragraut, fannst hann æðislegur. Ég prófaði nokkrar útfærslur af grautnum. Í eitt skiptið notaði ég frosin bláber í botninn, en betra fannst okkur að nota rabbabara eða epli. Við eigum líka eftir að prófa t.d. frosin hindber, það er örugglega ljúffengt! Það er hægt að leika sér enn meira með þennan graut, td. bæta út í hann smá kókosmjöli, döðlum, hnetum eða hunangi. Eins er hægt að bera hann fram og borða með kotasælu, jógúrt eða AB-mjólk. Ef það er afgangur af grautnum þá er hægt að geyma hann í ísskáp og borða seinna um daginn, kaldan eða upphitaðan. Uppskriftin hér að neðan passar fyrir eina svanga sál!

Uppskrift:

  • 1 dl haframjöl
  • 3/4 dl mjólk
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 egg
  • 1/2 tsk kanill
  • 1/2 banani
  • rabbabari eða epli eða hindber eða bláber eða ……

Ofninn er hitaður í 220 gráður. Í botninn á litlu eldföstu móti eða skál er lagður smátt skorinn rabbabari (nú eða smátt skorin epli, líka hægt að skera þau í skífur). Haframjöli, mjólk, eggi, lyftidufti, kanil og banana blandað saman í skál með gaffli (banani stappaður í leiðinni) og helt yfir rabbabarann. Bakað í ofni við 220 gráður í 15-20 mínútur (fer dálítið eftir hvernig formið er og þá hversu þykkt lag af graut er ofan á ávöxtunum, fer líka eftir hversu stökkt yfirborð maður vill)

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

  • 1 stór dós kotasæla
  • 8 tómatar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1/2 lime
  • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
  • 1 rautt chili, saxað smátt
  • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

  • 2 rauð chili
  • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 100 gr fetaostur
  • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
  • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
  • 8 hveititortillur
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂

Kotasæluklattar


Í dag er fyrsti skóladagurinn hjá yngstu börnunum. Ég er eiginlega ekki tilbúin, mér finnst sumrinu vera lokið þegar skólarnir byrja og ég er enn að sætta mig við hvað sumrin hér á Íslandi eru stutt! Þegar við bjuggum í  Svíþjóð fannst mér vera þar sumar frá apríl og alveg fram í lok september. En það er nú reyndar ekki hægt að kvarta yfir þessu dásamlega sumri sem við fengum á Íslandi í ár, það mætti bara vera lengra! 🙂

En eftir allar matarveislur sumarsins er kannski tími til komin að huga að hollustu! Mér finnst reyndar voðalega leiðinlegt að pæla allt of mikið í svoleiðis hlutum og reyni að forðast öfga í mataræðinu. Ég elda mat úr ferskum og fjölbreyttum hráefnum, nota mikið grænmeti, forðast unna matvöru og finnst það vera heilbrigð hollusta. Ég er ekki hlynnt algjörlega kolvetnislausu fæði en ég finn samt að það gerir mér gott að sneiða hjá miklum kolvetnum. Ég byrjaði því núna síðsumars að minnka brauðát. Það getur verið snúið að finna eitthvað í stað brauðsins. Ég fæ mér oft eggjaköku í hádeginu og borða með henni ávexti og grænmeti, finnst það  afskaplega gott. En fyrir nokkru síðan sá ég uppskrift af kotasæluklöttum sem eru meira og minna kolvetnislausir. Það sem stoppaði mig í að prófa uppskriftina var að í henni er ,,fiberhusk“. Ég vissi að þetta var einhverskonar trefjaviðbætir til að halda saman deiginu, sem er án hveitis, en fann það ekki í hefðbundnum búðum. Ég komst svo að því að þetta trefja husk fæst til dæmis í Heilsuhúsinu, í apótekum og í mörgum heilsuhornum frá Now meðal annars. Þá var ekkert því til fyrirstöðu að prófa klattana. Mér fannst dálítið erfitt að steikja klattana fyrst um sinn, deigið virtist afar linnt og það var eins og klattarnir næðu ekki að steikjast almennilega. Ég þurfti að ,,sópa“ þeim svolítið saman með steikarspaðanum til að þeir héldu forminu. En eftir smátíma og eftir að ég hækkaði aðeins hitann á pönnunni gekk þetta betur og ég fékk þessa fínu kotasæluklatta.

Uppskrift (2 klattar):

  • 125 gr. kotasæla
  • 3/4 msk trefjahusk  (mér skilst að hægt sé að nota 1.5 msk af muldu haframjöli í staðinn – hef ekki prófað það sjálf).
  • 1 egg
  • örlítið salt
  • 1 msk olía til steikingar, gott að nota kókosolíu

Maukið allt hráefnið saman með töfrasprota og látið standa í mínútu eða tvær. Setjið feiti á pönnuna, best er að nota teflonpönnu. Hitið olíuna á fremur háum hita á pönnunni, ausið svo deiginu á pönnuna í tvær ,,hrúgur“. Lækkið hitann niður í meðalhita (ég steikti á 5 af 9). Steikið í nokkrar mínútur og ýtið klöttunum saman með steikarspaðanum öðru hvoru ef þeir renna mikið til. Steikið þar til klattarnir eru orðnir nægilega stökkir þannig að hægt sé að snúa þeim við. Ég snéri þeim síðan við nokkrum sinnum, setti svo á milli þeirra mozzarella og skinku og leyfi því aðeins að bráðna saman við klattana á pönnunni. Ekki er verra að bæta líka við ferskri basiliku og tómötum og grilla svo klattasamlokuna í samlokugrilli!