Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum


Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég kemst auðveldlega í gegnum daginn án þess að borða sætmeti. En svo kemur kvöldið og óvægin fígúra tekur líf mitt í sínar hendur! Í stuttu máli gengur þetta svona fyrir sig. Ég byrja daginn vel, mig langar bara í hollan og góðan mat og kaupi meðvitað ekkert sætmeti inn á heimilið. Þar sem ég í makindum mínum og blásakleysi lýk við kvöldmatinn og er reiðubúin að njóta kvöldsins án nokkurs sætmetis, ryðst sætindapúkinn óboðinn inn á mitt stofugólfið með heimtufrekju og læti! Ég segi það og skrifa, ég ræð ekkert við þessa ótemju! Ég hef lent í ófáum ævintýrum vegna púkans sem tekur yfir líf mitt þegar rökkva tekur. Fyrir alllöngu þegar ég bjó í Svíþjóð þá ruddist púkinn fyrirvaralaust heim til mín eitt kvöldið eins og svo oft áður (hann virðir engin landamæri!). Líkt og gísl með Stokkhólmsheilkennið æddi ég af stað út í hraðbanka á hjóli (ég var bíllaus) til þess að taka út pening. Eina sjoppan í nágrenni við mig tók nefnilega ekki kort og það sem meira var þá lokaði hún á afar ókristilegum tíma, klukkan 21. Auðvitað hafði púkinn, jafn ófyrirleitinn og hann er, ákveðið að derra sig þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í níu! Eitthvað tautaði ég áhyggjuorð yfir því að ég myndi ekki pin-númerið á debetkortinu mínu. Púkinn hló upp í opið geðið á mér að þessari fátæklegu afsökun og píndi mig til þess að reyna að rifja upp pin-númerið þrisvar í hraðbankanum – þar með átti ég ekkert debetkort lengur! Í fáti og örvæntingu rótaði ég í veskinu mínu og fann vísakortið sem ég notaði sjaldan. Púkinn hafði komið mér algjörlega úr jafnvægi, ég steingleymdi að nokkru áður taldi ég mig hafa týnt vísakortinu og lét bankann loka því. Hraðbankinn gleypti því vísakortið líka með bestu lyst við fyrstu tilraun. Þar sem ég stóð móð og másandi eftir hjólasprettinn við hraðbankann, korta- og peningalaus og mændi örvæntingafull yfir götuna á sjoppuna sem verið var að loka, tók ég ákvörðun! Ég ætlaði að rísa upp gegn púkanum, gefa honum táknrænan kinnhest og tilkynna að hann stjórnaði ekki lífi mínu lengur hringja í Elfar í vinnuna og biðja hann um að koma við í sjoppunni sem var opin allan sólarhringinn á leið sinni heim af kvöldvaktinni!

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Það eina góða við púkann er að það þarf lítið til að gleðja hann, skömmina þá arna! Mér nægir lítill moli til þess að reka hann heim til sín og þar með kem ég loksins að uppskrift dagsins! Ég var eitthvað að vandræðast með nafnið á henni. Mér datt í hug „hollustumolar“ en það getur vart talist annað en sjálfsblekking. Þessir molar eru ekki beint hollir, stútfullir af  kaloríum, en þeir eru kannski ekkert svo óhollir heldur. Í þeim er enginn viðbættur sykur, einungis hnetur, þurrkuð ber, kókosflögur, lífrænt hnetusmjör auk kókosolíu og 70% súkkulaðis. Þetta munngæti er sérlega fljótlegt að útbúa, dásamlega gott og allir púkar fara heim til sín eftir einn lítinn mola – svona bjarga ég kvöldunum (og kortunum!) mínum! 🙂

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Uppskrift:

 • 100 g 70% súkkulaði
 • ca. 120 g lífrænt hnetusmjör
 • 40 ml kókosolía
 • 100 g hnetur (ég notast við það sem ég á, hér notaði ég blöndu af heslihnetum, möndlum og kasjúhnetum.
 • 80 g þurrkuð ber (ég nota berjablöndu frá Líf sem í eru þurrkuð múlber, gojaber, bláber og blæjuber)
 • 80 g kókosflögur

Súkkulaði, kókosolía og hnetusmjör brætt saman í potti. Um leið allt er bráðnað saman er potturinn tekinn af hellunni og hnetum, berjum og kókosflögum bætt út í. Blandað vel saman. Hellt í form klætt bökunarpappír, særð formsins fer eftir því hversu þykka bita maður vill. Ég nota tvö brauðform en fylli bara annað til hálfs. Kælt í minnst klukkutíma. Þá stykkið skorið í bita.

IMG_6909

Geymist í ísskáp og nælt í einn bita á kvöldin til að halda sælgætispúkum frá! 🙂Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

12 hugrenningar um “Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

 1. Var að prófa þessa dásemd, fer með rest ef eitthvað verður eftir í kaffi hitting í fyrramálið. Takk fyrir frábærar uppskriftir.Bless í bili S.J.

 2. vá hvað ég sé þig fyrir mér hringjandi skjálfandi í Elfar!!!! 😉 hehehe

 3. Hörrö, ég fann þetta í kvöld, einmitt það sem ég og púkinn vildum, þétt súkkulaði með skörpu berjabragði inn á milli og mildar mjúkar hneturnar. Þetta er það sem maður vill finna á síðsumarkvöldum þegar róast og rökkrið stelur senunni. Frábært nammi, tildurslaust.

  • Ef möndlur eru í lagi ætti að vera hægt að nota möndlusmjör. Það kemst sennilega næst hnetusmjöri í bragði. Ef ekki þá má kannski skoða venjulegt smjör og e.t.v. líka einhver önnur eins og t.d. fræjasmjör af einhverju tagi.

 4. Gerði þessa uppskrift fyrir jólin og er alveg að fíla það í botn að eiga svona nammi til að borða beint úr frystinum 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.