Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948

„Go nuts“ sælgætismolar


IMG_4896Í gærkvöldi var hér heima dásamlegt matarboð. Það dásamlega við það var þrennt, frábærlega skemmtilegt fólk, stórkostlega góður matur og sú staðreynd ég þurfti ekki að gera neitt! 🙂 Við erum í matarklúbbi með þremur öðrum hjónum og fyrirkomulagið er þannig að við skiptumst á halda matarboðið en karlmennirnir elda alltaf. Þeir eru með þrírétta máltíð, fordrykk og allt tilheyrandi og toppa sig í hverju matarboði. Ástæðan fyrir því að ég hef gaman að því að elda er einföld, mér finnst svo gaman og gott að borða! Ef einhver myndi elda fyrir mig ljúffengan mat á hverjum degi þá myndi ég satt best að segja ekkert gráta það að þurfa ekki að elda. Þess vegna finnst mér þessi matarboð hreinasta snilld. Að þessu sinni sá Elfar um eftirréttinn, hann gerði dásamlega góða útgáfu af Panna cotta. Ég mun klárlega skella uppskriftinni inn á bloggið við fyrsta tækifæri. Að þessu sinni ætla ég þó að setja hér inn uppskrift af hrikalega góðum sælgætismolum. Ég held að það verði langt þangað til að ég geri þá aftur! Því eins og svo oft áður, þegar eitthvað gúmmelaði leynist í ísskápnum, þá gat ég ekki hamið mig og linnti ekki látum fyrr en ég var búin að borða upp til agna alla molana á tveimur dögum! Ég legg því ekki í næsta skammt fyrr en ég er komin með aaaðeins meiri aga þegar kemur að súkkulaði – sem verður mögulega aldrei! Þessir molar eru sannarlega engir heilsumolar en ó svo svakalega góðir – þið verðið að prófa! IMG_4886   Uppskrift:

  • 1 poki Dumle go nuts (175 g) (hægt að nota hefðbundnar Dumle karamellur)
  • 150 g súkkulaðihjúpað lakkrískurl
  • 100 g Toms extra súkkulaði 70%
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 150 g pistasíur frá Ültje
  • 2 dl Rice Krispies

Dumle bitarnir, 70% súkkulaðið og suðusúkkulaðið er sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Því næst er pistasíum, Rice Krispies og súkkulaðihúðaða lakkrískurlinu bætt út og öllu blandað vel saman. Blöndunni hellt í form klætt bökunarpappír, um það bil 20 x 20 cm, og sett í ísskáp í minnst tvo klukkutíma. Skorið í hæfilega stóra bita. (Á þessum myndum stakk ég litlu súkkulaðipáskaegggi í hvern bita til skraut af því að það voru páskar!) IMG_4902

Snickersbitar


SnickersbitarVið fjölskyldan áttum afar notalega helgi sem okkur fannst meira að segja sérstaklega löng. Ástæðan var sú að við ákváðum með örstuttum fyrirvara að skella okkur í bústað yfir helgina. Elfar vinnur alla virka daga og margar helgar líka þannig að það gildir að nota tækifærið þá sjaldan hann fær fríhelgar. Við fórum í Brekkuskóg í bústað og eyddum þar tveimur ljúfum dögum, borðuðum góðan mat (að sjálfsögðu!), spiluðum, fórum í pottinn, lásum, fórum í göngutúra og horfðum á bíómyndir. Mikið var gott að skipta svona um umhverfi og slappa fullkomlega af, bara við fjölskyldan.

Ég var hins vegar búin að lofa á Facebook að setja inn uppskriftina að þessum dásamlega góðu snickersbitum. Þeir voru ótrúlega góðir en ekki nógu fallegir hjá mér. Ég þarf að æfa mig til að fá bitana fallegri, ég veit að fjölskyldan verður ekkert svekkt yfir slíkum æfingum! 🙂 Karamellan var aðeins of lin hjá mér eftir þessa fyrstu tilraun en það var af því að ég fór ekki eftir eigin leiðbeiningum varðandi karamelluna – aðeins of óþolinmóð. En fylgið bara leiðbeiningunum og þá ætti þetta allt að lukkast!

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 225 g sykur
  • 1 vanillustöng
  • 290 g Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Bakarofn hitaður i 190 ˚C. Vanillustöngin er klofin í tvennt og vanillufræin skafin innan úr henni. Þau eru sett í skál ásamt eggjum og sykri. Skálin er set yfir sjóðandi vatn í potti og pískað þar til að sykurinn hefur leyst upp. Þá er blöndunni hellt í hrærivélaskál og þeytt þar til blandan er orðin létt og ljós. Hveiti og lyftidufti er bætt varlega út í með sleikju.

Form (20 cm X 30 cm) er klætt að innan með bökunarpappír og deiginu er hellt í formið. Bakað við 190 gráður í 10 – 15 mínútur eða þar til kakan er orðin ljósbrún á litinn. Þá er hún tekin úr ofninum og leyft að kólna.

IMG_3642

Karamellusósa:

  • 500 g sykur
  • 130 ml vatn
  • 170 ml rjómi
  • 2 tsk vanilludropar
  • 140 g smjör (helst ósaltað)
  • 150 g salthnetur
  • 250 g suðusúkkulaði (eða hjúpsúkkulaði)

Vatn og sykur sett í pott og látið malla við meðalhita (ca 4-5 af 9) þar til sykurinn er uppleystur. Þá er hitinn hækkaður og látið sjóða þannig að blandan „bubbli“ þangað til að blandan er orðin gullinbrún. Athugið að á meðan þessu stendur á alls ekki að hræra neitt. Þetta getur tekið um það bil 10-15 mínútur. Potturinn er tekinn af hellunni og nú er rjómanum hrært út í. Því næst er vanilludropunum og smjörinu bætt út í og potturinn settur aftur á helluna. Karamellusósan er að lokum látin malla við mjög vægan hita í ca. 10 mínútur og hrært í reglulega þar til karamellan er orðin vel þykk. Karamellunni er hellt í skál og salthnetunum er bætt út í. Karamellunni með salthnetunum dreift jafnt yfir kalda kökuna og hún svo sett í kæli í minnst 5 tíma, helst yfir nóttu.

IMG_3655IMG_3673

Þegar kakan er komin úr kælinum er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Kakan er skorin niður í passlega bita og brædda súkkulaðinu hellt yfir hvern bita fyrir sig. IMG_3678Gott er að láta bitana liggja á gaffli, ausa brædda súkkulaðinu yfir þá með skeið og leggja svo á bökunarpappír.

Snickersbitar

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum


Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég kemst auðveldlega í gegnum daginn án þess að borða sætmeti. En svo kemur kvöldið og óvægin fígúra tekur líf mitt í sínar hendur! Í stuttu máli gengur þetta svona fyrir sig. Ég byrja daginn vel, mig langar bara í hollan og góðan mat og kaupi meðvitað ekkert sætmeti inn á heimilið. Þar sem ég í makindum mínum og blásakleysi lýk við kvöldmatinn og er reiðubúin að njóta kvöldsins án nokkurs sætmetis, ryðst sætindapúkinn óboðinn inn á mitt stofugólfið með heimtufrekju og læti! Ég segi það og skrifa, ég ræð ekkert við þessa ótemju! Ég hef lent í ófáum ævintýrum vegna púkans sem tekur yfir líf mitt þegar rökkva tekur. Fyrir alllöngu þegar ég bjó í Svíþjóð þá ruddist púkinn fyrirvaralaust heim til mín eitt kvöldið eins og svo oft áður (hann virðir engin landamæri!). Líkt og gísl með Stokkhólmsheilkennið æddi ég af stað út í hraðbanka á hjóli (ég var bíllaus) til þess að taka út pening. Eina sjoppan í nágrenni við mig tók nefnilega ekki kort og það sem meira var þá lokaði hún á afar ókristilegum tíma, klukkan 21. Auðvitað hafði púkinn, jafn ófyrirleitinn og hann er, ákveðið að derra sig þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í níu! Eitthvað tautaði ég áhyggjuorð yfir því að ég myndi ekki pin-númerið á debetkortinu mínu. Púkinn hló upp í opið geðið á mér að þessari fátæklegu afsökun og píndi mig til þess að reyna að rifja upp pin-númerið þrisvar í hraðbankanum – þar með átti ég ekkert debetkort lengur! Í fáti og örvæntingu rótaði ég í veskinu mínu og fann vísakortið sem ég notaði sjaldan. Púkinn hafði komið mér algjörlega úr jafnvægi, ég steingleymdi að nokkru áður taldi ég mig hafa týnt vísakortinu og lét bankann loka því. Hraðbankinn gleypti því vísakortið líka með bestu lyst við fyrstu tilraun. Þar sem ég stóð móð og másandi eftir hjólasprettinn við hraðbankann, korta- og peningalaus og mændi örvæntingafull yfir götuna á sjoppuna sem verið var að loka, tók ég ákvörðun! Ég ætlaði að rísa upp gegn púkanum, gefa honum táknrænan kinnhest og tilkynna að hann stjórnaði ekki lífi mínu lengur hringja í Elfar í vinnuna og biðja hann um að koma við í sjoppunni sem var opin allan sólarhringinn á leið sinni heim af kvöldvaktinni!

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Það eina góða við púkann er að það þarf lítið til að gleðja hann, skömmina þá arna! Mér nægir lítill moli til þess að reka hann heim til sín og þar með kem ég loksins að uppskrift dagsins! Ég var eitthvað að vandræðast með nafnið á henni. Mér datt í hug „hollustumolar“ en það getur vart talist annað en sjálfsblekking. Þessir molar eru ekki beint hollir, stútfullir af  kaloríum, en þeir eru kannski ekkert svo óhollir heldur. Í þeim er enginn viðbættur sykur, einungis hnetur, þurrkuð ber, kókosflögur, lífrænt hnetusmjör auk kókosolíu og 70% súkkulaðis. Þetta munngæti er sérlega fljótlegt að útbúa, dásamlega gott og allir púkar fara heim til sín eftir einn lítinn mola – svona bjarga ég kvöldunum (og kortunum!) mínum! 🙂

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Uppskrift:

  • 100 g 70% súkkulaði
  • ca. 120 g lífrænt hnetusmjör
  • 40 ml kókosolía
  • 100 g hnetur (ég notast við það sem ég á, hér notaði ég blöndu af heslihnetum, möndlum og kasjúhnetum.
  • 80 g þurrkuð ber (ég nota berjablöndu frá Líf sem í eru þurrkuð múlber, gojaber, bláber og blæjuber)
  • 80 g kókosflögur

Súkkulaði, kókosolía og hnetusmjör brætt saman í potti. Um leið allt er bráðnað saman er potturinn tekinn af hellunni og hnetum, berjum og kókosflögum bætt út í. Blandað vel saman. Hellt í form klætt bökunarpappír, særð formsins fer eftir því hversu þykka bita maður vill. Ég nota tvö brauðform en fylli bara annað til hálfs. Kælt í minnst klukkutíma. Þá stykkið skorið í bita.

IMG_6909

Geymist í ísskáp og nælt í einn bita á kvöldin til að halda sælgætispúkum frá! 🙂Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Oreokúlur


OreokúlurÞetta gúmmelaði passar jafnt sem góðgæti fyrir jólin og allt árið um kring. Þetta er einföld uppskrift og afar fljótleg sem er mikill kostur fyrir uppteknar húsmæður og húsfeður á aðventunni. 🙂 Fyrir Oreokex aðdáendur þá er þetta bráðnauðsynleg uppskrift að prófa!

Uppskrift ca. 30 litlar kúlur

  • 150 gr rjómaostur, Philadelphia
  • 16 Oreo kexkökur (1 pakki)
  • 200 gr suðusúkkulaði (ég notaði Dökkan hjúp frá Nóa og Siríus, líka gott að nota 56% súkkulaði)
  • skraut ef vill, t.d. súkklaðikökuskraut, saxaðar hnetur, brætt hvítt súkkulaði

Oreokúlur

Oreokúlur

Setjið Oreokex og rjómaost saman í matvinnsluvél og keyrið þar til kexið hefur mulist niður og er vel blandað við rjómaostinn.
Það er gott að setja blönduna í ísskáp í ca. 30 mínútur áður en kúlurnar eru mótaðar, það verður svo mikið auðveldara. Þegar kúlurnar eru svo mótaðar í höndunum er gott að gera þær litlar, súkkulaðið gerir þær síðan stærri.
Kúlurnar eru lagðar á bökunarpappír og kældar í ísskáp í 4-5 tíma eða í frysti í 2-3 tíma. Þegar þær eru orðnar nægilega harðar þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði, kúlunum dýft ofan í og þær síðan lagðar á bökunarpappír. Gott er að dýfa kúlunum í súkkulaðið með tannstöngli. Ef maður vill er hægt að strá skrautinu yfir kúlurnar áður en súkkulaðið harðnar. Þessar kúlur bragðast langbest ef þær hafa fengið að vera í ísskáp í minnst sólarhring.

IMG_6696

Bounty kúlur


IMG_6203

Inga móðursystir mín átti afmæli um helgina. Það eru bara sex ár á milli okkar og hún er því meira eins og systirin sem ég eignaðist aldrei! 🙂 Inga les sömu sænsku matarbloggin og ég og hún prófaði þessar Bounty kúlur af einu þeirra fyrir afmælið sitt. Þessar kúlur eru algjört nammi fyrir þá sem eru hrifnir af kókosi og ekki spillir fyrir að það er fremur einfalt að búa þær til. Inga frænka er því gestabloggari dagsins með himneskar Bounty kúlur!

Uppskrift (ca. 45 kúlur, fer eftir stærð)

Fylling:

  • 50 gr smjör
  • 1/2 dl síróp
  • 1/2 dl flórsykur
  • 2 dl rjómi
  • örlítið salt
  • 200 gr kókos

Súkkulaðihjúpur:

200 gr suðusúkkulaði. (hér er notaður „Ljós hjúpur“, hjúpdropar frá Nóa og Siríus)

Aðferð:

Öllu hráefni, fyrir utan kókosmjöl, er blandað saman í pott og látið malla í 5-8 mínútur eða þar til blandan fer að stífna dálítið. Þá er kókosmjöli bætt við. Blandan er svo látin kólna dálítið og því næst eru mótaðar litlar kúlur sem eru lagðar á bökunarpappír eða bretti. Kúlurnar eru að lokum settar í frysti í ca. 30 mínútur.

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kúlunum er svo dýft ofan í brædda súkkulaðið og þær lagðar á bökunarpappír þar til þær harðna. Best er að geyma Bounty kúlurnar í kæli.

IMG_6194