Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948

„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi


IMG_1101

Nú erum við hjónin komin heim úr yndislegri Stokkhólmsferð, eini gallinn var hversu hratt helgin leið! Í gær borðuðum við á veitingastað sem heitir Nybrogatan 38 – sem er líka heimilisfangið – frumlegt! 🙂 Við mælum sannarlega með þeim stað. Við fengum frábærlega góða steik og ljúffengt vín fyrir afar gott verð. Það borgar sig greinilega fyrir mig að fylgjast með bloggum hinna ýmsu Svía!. Ég les alltaf bloggið hjá Pernillu Wahlgren sem er þekkt sænsk söngkona, hún borðar oft þarna og er afar hrifin af staðnum, þannig vissi ég af honum. Ef þið eruð í Stokkhólmi og ætlið að heimsækja þennan stað, eða einhvern annan veitingastað ef því er að skipta, um helgi þá þarf að bóka með dálitlum fyrirvara. Það þýðir lítið að ætla að detta inn á góðan veitingastað í Stokkhólmi um helgar.

StokkhólmurEldhússögur á Instagram – Stokkhólmur og Nybrogatan 38

Við byrjuðum daginn í gær á að ljúka dásamlegu brúðkaupsveislunni með brúðhjónunum og veislugestum heima hjá föður brúðarinnar í kampavínsmorgunverði. Frábær leið til þess að ljúka brúðkaupi. Það var svo gaman að geta hitt alla aftur daginn eftir veisluna. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var auðvitað frábært og því var hægt að eiga góða stund saman í garðinum.

kampavínsmorgunverður

Það var samt ósköp gott að koma heim til barnanna. Ég hlakkaði líka til að koma heim og baka þessa köku sem ég gef uppskrift að í dag. Ég er nefnilega búin að vera með Pipp með bananabragði á heilanum í dálítinn tíma! Ef þið hafið mögulega ekki tekið eftir því þá er sem sagt komið nýtt Pipp í verslanir, með bananabragði. Ég smakkaði einn bita um daginn og vissi strax að úr þessu súkkulaði yrði ég að gera köku! Ég er búin að hugsa um þetta í dálítinn tíma og í flugvélinni í gærkvöldi ákvað ég að gera þessa köku en með banana Pippinu. Ég breytti uppskriftinni þó nokkuð, til dæmis minnkaði ég sykurinn um helming og tók út kaffið. Þessi Pippkaka hefur verið afar vinsæl hér á blogginu, ekki síst fyrir það hversu fljótleg og einföld hún er en þó aðallega fyrir hvað hún er ofsalega góð. Ef það er hægt þá varð þessi kaka enn betri með banana Pippinu og breyttri uppskrift – þið verðið bara að prófa!

pipp-003

IMG_1088

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 150 gr smjör
  •  1 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

IMG_1096

Krem:

  •  25 g smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með bananabragði (selt í 100 gramma plötum)

IMG_1086

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Suðusúkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Sykri og eggjum bætt út í, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 40-50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún á að vera blaut í miðjunni.

IMG_1114

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. blæjuberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_1106

IMG_1111

IMG_1081

 

 

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 180 gr smjör
  •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
  •  2 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

  •  25 gr smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.