Kanilsnúðakladdkaka


kanilsnúðakaka4

Ég veit ekki hvað ég er með orðið margar uppskriftir hér á síðunni af „kladdkökum“ (klessukökum), en þær eru orðnar ansi margar. Ástæðan fyrir því er líklega sænsku áhrifin af langri búsetu minni í Svíþjóð og svo sú staðreynd að ég skoða reglulega sænsk matarblogg og þar ber mikið á kladdkökum – fyrir utan auðvitað hvað þær eru góðar og einfaldar að baka. Ég hef séð uppskrift að þessari köku í margskonar útgáfum á mörgum sænskum bloggum undanfarið og ákvað að prófa að baka hana í dag. Það leið innan við hálftími frá því að ég byrjaði að baka þar til kakan var komin á borðið sem er frábær byrjun. Hvern vantar ekki að eiga góða uppskrift að afar fljótlegri og góðri köku? Kakan sjálf fannst mér ákaflega góð og gestirnir mínir voru mér sammála. Hún minnti óneitanlega á heita og ljúffenga kanilsnúða þó svo að það sé eiginlega bara kanillinn sem er sameiginlegur þáttur með þessu tvennu. Ég er svo heppin að eiga sænskan perlusykur (sjá umfjöllun um hann hér) til að strá ofan á kökuna en það er vel hægt að sleppa honum. Það sem er líka svo frábært við þessa köku er að það þarf enga hrærivél og varla nokkur áhöld, bara einn pott, desilítramál og písk og hráefnin á maður öll yfirleitt til, algjör snilld! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 stór egg
  • 1 msk kanill
  • hnífsoddur salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 1/2 dl hveiti
  • perlusykur ofan á kökuna (má sleppa)

Ofn stilltur á 180 gráður við undir/yfirhita. 22-24 cm smelluform smurt að innan. Smjör sett í pott og brætt. Potturinn tekinn af hellunni og smjörið látið kólna dálítið. Þá er restinni af hráefnunum bætt út í pottinn og pískað saman. Deiginu helt í formið og perlusykri dreift yfir (má sleppa). Bakað við 180 gráður í ca. 15-20 mínútur. Athugið að kakan á að vera fremur klesst og blaut og því betra að baka hana styttra en of lengi. Borin fram volg eða köld (hún er ekki síðri daginn eftir) með þeyttum rjóma.

kanilsnúðakaka3 kanilsnúðakaka1

„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Blaut súkkulaðikaka með glóaldini


súkkulaðikaka með glóaldini

Í æsku þegar ég átti að velja átti appelsínu eða epli í „Fram, fram fylking“ þá valdi ég alltaf epli. Alla gagnfræðiskólagöngu mína, sem var fyrir tíð skólamötuneyta, þá borðaði ég langloku og drakk Svala með eplabragði í hádeginu. Enn þann dag í dag held ég upp allt með eplabragði, hvort sem það eru eplakökur, eplahlaup, epladrykkir, eplasorbet eða annað slíkt og forðast flest með appelsínubragði. Þess vegna hafði ég ekkert of miklar væntingar til þessarar appelsínusúkkulaðiköku. Hins vegar þá hljómar blaut súkkulaðikaka með eplabragði ekkert sérstaklega vel þannig að ég gaf appelsínukökunni séns! Ég sá ekki eftir því! Þessi kaka er algjört sælgæti, hún minnir á gömlu og góðu kattartungurnar. Algjört hnossgæti með þeyttum rjóma! Ég var ekki ein um að finnast þessi kaka góð. Ég smakkaði eina sneið og bauð svo Vilhjálmi og þremur vinum hans upp á köku. Ég hafði varla snúið mér við þegar þeir höfðu klárað alla kökuna og voru afar sælir og sáttir. 🙂

IMG_9596

IMG_9615

Ef ég vík að nafninu á kökunni þá var að finna lítið kver í bókasafni langömmu minnar sem ber heitið „Orð úr viðskiptamáli eftir orðanefnd verkfræðingafélagsins“ og er frá árinu 1927. Þar eru íslenskar kjarnyrtar þýðingar á nýmóðins orðum. Það er gaman að skoða þessa bók, margar þýðingar hafa náð að festast í sessi í málinu okkar, aðrar ekki. Í bókinni fengu ávextir einstaklega fallegar þýðingar sem því miður hafa ekki náð að skjóta rótum í tungumálinu. Dæmi um þetta eru:

  • appelsína: glóaldin
  • mandarína: gullaldin
  • ananas: granaldin
  • banani: bjúgaldin
  • melóna: tröllaepli
  • tómatur: rauðaldin

„Súkkulaðikaka með glóaldini“, er þetta ekki mikið fallegra en „súkkulaðikaka með appelsínu“? 🙂 Önnur orð sem ég er hrifin af úr bókinni eru: marmelaði: glómauk og servíetta: smádúkur eða mundlína. Mér finnst að við ættum að taka okkur saman og innleiða þessi fallegu orð í íslenskuna! 😉 En burtséð frá því þá verða allir súkkulaðiunnendur að prófa þessa dýrðlegu köku!

IMG_9548

Uppskrift

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (bragðlaus)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • safi úr 1 appelsínu (ca. 1 dl)
  • fínrifið hýði af 1 appelsínu
  • 3 dl hveiti
  • 4 1/2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

IMG_9551

Ofn hitaður i 200 gráður við undir- og yfirhita. Sykur, egg, olía og brædda smjörið hrært vel saman. Því næst er appelsínusafa og appelsínuhýði bætt út í. Gætið þess að rífa hýðið grunnt, ekki taka með hvíta lagið af appelsínunni. Þá er hveiti, kakói og vanillusykri sigtað út í og blandað varlega saman við deigið. Smelluform smurt að innan (ca. 24 cm) og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 200 gráður við undir- og yfirhita í um það bil 18-22 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut í miðjunni. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_9608

IMG_9604

Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255

Klessukaka með Daimrjóma


Klessukaka með daimrjómaÉg er loksins komin út úr ákveðinni matargerðarlægð sem ég hef verið í undanfarið. Ég hef prófað mig áfram með hina og þessa matrétti án þess að ég hafi verið nægilega sátt við útkomuna. Ég set ekkert hingað inn á bloggið nema það sem ég er mjög ánægð með og get hugsað mér að elda/baka aftur. Venjulega hef ég haft um margt að velja til að setja inn á bloggið en upp í síðkastið hef ég sem sagt verið að lenda í því að hafa bara ekkert fram að færa á blogginu. En sem betur fer þá held ég að þetta tímabil sé yfirstaðið og núna er ég með nokkrar spennandi uppskriftir sem bíða birtingar! 🙂

Sænsku klessukökurnar halda áfram að fara sigurför á heimilinu! Þessa bakaði ég um helgina og hún er auðvitað löngu búin! Grunndeigið er afskaplega gott. Í því er suðusúkkulaði en oftast nær er bara kakó í sænskum klessukökum (kladdköku). Fyrir þá sem vilja ekki daimrjómann er hægt að baka bara kökuna og skreyta hana með berjum eða sáldra bara yfir hana flórsykri og bera fram með hindberjasósu og vanilluís. Sjálf kakan er algjört gúmmelaði og Daimrjóminn er punkturinn yfir i-ið!IMG_8594

Uppskrift:

  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hveiti

Daimrjómi:

  • 3 dl rjómi
  • 1/2 – 1 msk kakó
  • 1 1/2 msk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 tvöfaldar pakkningar af Daim (56 g stk), samtals ca. 110 g

Ofn hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smelluform (ca 24 cm) smurt að innan. Smjörið og súkkulaðið brætt varlega saman í potti. Egg og sykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni bætt út í. Að lokum er hveitinu bætt út í. Deiginu hellt í kökuformið og kakan bökuð við 200 gráður í ca 18-20 mínútur.  Kakan er þá kæld og gott er að láta hana svo standa í kæli í nokkra tíma áður en rjóminn er settur á og kakan borin fram.IMG_8603

Daimrjómi: Rjóminn er þeyttur ásamt kakói, vanillusykri og flórsykri sem hefur verið sigtað út í. Þá er Daimsúkkulaðið saxað og bætt út í þeytta rjómann með sleikju (það er gott að skilja smá eftir til að skreyta með) og Daimrjómanum því næst dreift yfir kökuna.IMG_8619

Kladdkaka með karamellukremi


IMG_7460Ég hef sett inn áður uppskrift af sænskri klessuköku (kladdkaka), þessari hérna. Kladdkökurnar eru í ætt við brownies, blautar og bragðgóðar. Þessi kladdkaka fer í hæstu hæðir með einstaklega ljúffengu karamellukremi. Ég ætla ekki einu sinni að segja frá því hversu fljótt hún kláraðist hér heima! Þetta er afskaplega hentug kaka til að bjóða í eftirrétt og þá er ofsalega gott að bera fram með henni ís og/eða þeyttan rjóma auk ferskra berja og ávaxta. Þetta er ákaflega einföld kaka að baka og það er hægt að búa hana til með góðum fyrirvara. Það er heldur ekkert mál að frysta hana með karamellukreminu á. Þessi fær toppeinkunn frá öllum fjölskyldumeðlimunum, þið verðið að prófa! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • hnífsoddur salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til að deigið hefur blandast vel saman. Bakað í smurðu lausbotna formi (ca.22 – 24 cm) eða sílikonformi við 175 gráður í 20 mínútur. Kökunni leyft að kólna í ca 10 mínútur.

IMG_7423

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

IMG_7439

IMG_7434

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Ég lét kremið standa um stund til þess að það yrði aðeins þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Borin fram með þeyttum rjóma og/eða ís, og jafnvel góðri blöndu af berjum.

img_7456

Kladdkaka með banana og sykurpúðum


Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.

Uppskrift:
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
  • 1/4 tsk salt
  • 1,5 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 1 banani, maukaður
  • sykurpúðar eftir smekk

Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!