Blaut súkkulaðikaka með glóaldini


súkkulaðikaka með glóaldini

Í æsku þegar ég átti að velja átti appelsínu eða epli í „Fram, fram fylking“ þá valdi ég alltaf epli. Alla gagnfræðiskólagöngu mína, sem var fyrir tíð skólamötuneyta, þá borðaði ég langloku og drakk Svala með eplabragði í hádeginu. Enn þann dag í dag held ég upp allt með eplabragði, hvort sem það eru eplakökur, eplahlaup, epladrykkir, eplasorbet eða annað slíkt og forðast flest með appelsínubragði. Þess vegna hafði ég ekkert of miklar væntingar til þessarar appelsínusúkkulaðiköku. Hins vegar þá hljómar blaut súkkulaðikaka með eplabragði ekkert sérstaklega vel þannig að ég gaf appelsínukökunni séns! Ég sá ekki eftir því! Þessi kaka er algjört sælgæti, hún minnir á gömlu og góðu kattartungurnar. Algjört hnossgæti með þeyttum rjóma! Ég var ekki ein um að finnast þessi kaka góð. Ég smakkaði eina sneið og bauð svo Vilhjálmi og þremur vinum hans upp á köku. Ég hafði varla snúið mér við þegar þeir höfðu klárað alla kökuna og voru afar sælir og sáttir. 🙂

IMG_9596

IMG_9615

Ef ég vík að nafninu á kökunni þá var að finna lítið kver í bókasafni langömmu minnar sem ber heitið „Orð úr viðskiptamáli eftir orðanefnd verkfræðingafélagsins“ og er frá árinu 1927. Þar eru íslenskar kjarnyrtar þýðingar á nýmóðins orðum. Það er gaman að skoða þessa bók, margar þýðingar hafa náð að festast í sessi í málinu okkar, aðrar ekki. Í bókinni fengu ávextir einstaklega fallegar þýðingar sem því miður hafa ekki náð að skjóta rótum í tungumálinu. Dæmi um þetta eru:

  • appelsína: glóaldin
  • mandarína: gullaldin
  • ananas: granaldin
  • banani: bjúgaldin
  • melóna: tröllaepli
  • tómatur: rauðaldin

„Súkkulaðikaka með glóaldini“, er þetta ekki mikið fallegra en „súkkulaðikaka með appelsínu“? 🙂 Önnur orð sem ég er hrifin af úr bókinni eru: marmelaði: glómauk og servíetta: smádúkur eða mundlína. Mér finnst að við ættum að taka okkur saman og innleiða þessi fallegu orð í íslenskuna! 😉 En burtséð frá því þá verða allir súkkulaðiunnendur að prófa þessa dýrðlegu köku!

IMG_9548

Uppskrift

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (bragðlaus)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • safi úr 1 appelsínu (ca. 1 dl)
  • fínrifið hýði af 1 appelsínu
  • 3 dl hveiti
  • 4 1/2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

IMG_9551

Ofn hitaður i 200 gráður við undir- og yfirhita. Sykur, egg, olía og brædda smjörið hrært vel saman. Því næst er appelsínusafa og appelsínuhýði bætt út í. Gætið þess að rífa hýðið grunnt, ekki taka með hvíta lagið af appelsínunni. Þá er hveiti, kakói og vanillusykri sigtað út í og blandað varlega saman við deigið. Smelluform smurt að innan (ca. 24 cm) og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 200 gráður við undir- og yfirhita í um það bil 18-22 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut í miðjunni. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_9608

IMG_9604

Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255

Heit súkkulaðikaka með mjúkri miðju


Í gær átti ,,litla barnið“ okkar afmæli, Jóhanna Inga varð átta ára gömul! Samkvæmt fjölskyldusið var hún vakin í morgunsárið með köku, söng og gjöfum. Jóhanna Inga hafði óskað sér ,,súkkulaðiköku með mjúkri miðju“ sem ég bakaði auðvitað með glöðu geði. Ég held að margir sælkerar muni eftir kökunni framan á Kökublaði Gestgjafans árið 2002! Ég man allavega vel eftir þeirri forsíðu, litla syndin ljúfa! Ég keypti mér það blað hér á Íslandi og bakaði þessa ljúfu synd ósjaldan í matarboðum í Stokkhólmi næstu árin. Snilldin við þessa köku er að uppskriftin er afskaplega einföld og það er hægt að útbúa deigið einum degi áður en kakan er bökuð. Svo er kakan afar falleg á diski svo ekki sé talað um hversu ljúffeng hún er! Það eina sem þarf að hafa fyrir er að finna út nákvæman bökunartíma. Ef kakan er of lítið bökuð þá heldur hún ekki forminu og lekur út um allt (en er samt góð!) en ef hún er ofbökuð þá lekur ekkert úr miðjunni (en hún er samt góð!). Þetta snýst allt um mínútur. Ég hef komist að því að fyrir ofninn minn þurfa kökurnar sem bakaðar eru ókældar 11 mínútur í ofni, fyrir deig sem geymt er í ísskáp og sett kalt í ókæld form þarf 14 mínútur, en fyrir deig sem er geymt í ísskáp í sjálfum bökunarformunum þarf 16 mínútna bökunartíma. En best finnst mér að baka eina til tvær auka kökur sem ég prófa tímann á. Tek þá eina köku út t.d. eftir rúmar 10 mínútur og sé hversu vel hún er bökuð, (ég lofa, prufukökurnar lenda ekki í ruslinu! 😉 ) þá er hægt að áætla hversu langan tíma hinar kökurnar sem enn eru í ofninum þurfa. Þegar maður er einu sinni búin að finna út tímann fyrir sinn bakarofn þá er afar einfalt að baka þessar kökur í framhaldinu.

Uppskrift f. 6

  • 140 gr smjör, meira til að smyrja formin
  • 140 gr 70% súkkulaði eða hefðbundið suðusúkkulaði
  • 2 egg
  • 3 eggjarauður
  • 140 gr flórsykur, sigtað
  • 60 gr hveiti, sigtað

Hitið ofninn í 220 gráður (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform mjög vel með smjöri. Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin (rúmlega 1 dl í hvert form) og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í ca. 11-12 mínútur. Takið þær út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa betur um þær og hvolfið þeim á diska. Það er gott að leggja disk yfir formið og hvolfa því síðan, þá er minni hætta á að kakan brotni í sundur en ef forminu er hvolft beint á diskinn. Sigtið flórsykur yfir og berið kökurnar fram t.d. með hindberjasósu, þeyttum rjóma og/eða vanilluís. Skreytið með hindberjum eða jarðaberjum.

Hindberjasósa

  • 200 g hindber, fersk eða fryst
  • 3 msk. sykur
  • 2-3 tsk vatn

Látið berin þiðna ef þau eru frosin. Setjið þau síðan í matvinnsluvél eða blandara ásamt sykri og vatni og maukið þau (líka hægt að mauka þau með gaffli). Smakkið sósuna, bragðbætið hana með meiri sykri ef þarf og berið hana síðan fram með kökunum.