Í gær átti ,,litla barnið“ okkar afmæli, Jóhanna Inga varð átta ára gömul! Samkvæmt fjölskyldusið var hún vakin í morgunsárið með köku, söng og gjöfum. Jóhanna Inga hafði óskað sér ,,súkkulaðiköku með mjúkri miðju“ sem ég bakaði auðvitað með glöðu geði. Ég held að margir sælkerar muni eftir kökunni framan á Kökublaði Gestgjafans árið 2002! Ég man allavega vel eftir þeirri forsíðu, litla syndin ljúfa! Ég keypti mér það blað hér á Íslandi og bakaði þessa ljúfu synd ósjaldan í matarboðum í Stokkhólmi næstu árin. Snilldin við þessa köku er að uppskriftin er afskaplega einföld og það er hægt að útbúa deigið einum degi áður en kakan er bökuð. Svo er kakan afar falleg á diski svo ekki sé talað um hversu ljúffeng hún er! Það eina sem þarf að hafa fyrir er að finna út nákvæman bökunartíma. Ef kakan er of lítið bökuð þá heldur hún ekki forminu og lekur út um allt (en er samt góð!) en ef hún er ofbökuð þá lekur ekkert úr miðjunni (en hún er samt góð!). Þetta snýst allt um mínútur. Ég hef komist að því að fyrir ofninn minn þurfa kökurnar sem bakaðar eru ókældar 11 mínútur í ofni, fyrir deig sem geymt er í ísskáp og sett kalt í ókæld form þarf 14 mínútur, en fyrir deig sem er geymt í ísskáp í sjálfum bökunarformunum þarf 16 mínútna bökunartíma. En best finnst mér að baka eina til tvær auka kökur sem ég prófa tímann á. Tek þá eina köku út t.d. eftir rúmar 10 mínútur og sé hversu vel hún er bökuð, (ég lofa, prufukökurnar lenda ekki í ruslinu! 😉 ) þá er hægt að áætla hversu langan tíma hinar kökurnar sem enn eru í ofninum þurfa. Þegar maður er einu sinni búin að finna út tímann fyrir sinn bakarofn þá er afar einfalt að baka þessar kökur í framhaldinu.
Uppskrift f. 6
- 140 gr smjör, meira til að smyrja formin
- 140 gr 70% súkkulaði eða hefðbundið suðusúkkulaði
- 2 egg
- 3 eggjarauður
- 140 gr flórsykur, sigtað
- 60 gr hveiti, sigtað
Hitið ofninn í 220 gráður (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform mjög vel með smjöri. Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin (rúmlega 1 dl í hvert form) og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í ca. 11-12 mínútur. Takið þær út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa betur um þær og hvolfið þeim á diska. Það er gott að leggja disk yfir formið og hvolfa því síðan, þá er minni hætta á að kakan brotni í sundur en ef forminu er hvolft beint á diskinn. Sigtið flórsykur yfir og berið kökurnar fram t.d. með hindberjasósu, þeyttum rjóma og/eða vanilluís. Skreytið með hindberjum eða jarðaberjum.
Hindberjasósa
- 200 g hindber, fersk eða fryst
- 3 msk. sykur
- 2-3 tsk vatn
Látið berin þiðna ef þau eru frosin. Setjið þau síðan í matvinnsluvél eða blandara ásamt sykri og vatni og maukið þau (líka hægt að mauka þau með gaffli). Smakkið sósuna, bragðbætið hana með meiri sykri ef þarf og berið hana síðan fram með kökunum.
MMMMM…
Takk fyrir frábæra síðu og vertu áfram svona hrikalega dugleg að henda inn færslum! Kíki hingað oft á dag;)
En annars, er hægt að nota eitthvað annað en þessi form fyrir þessa köku?
Takk fyrir það, gaman að heyra! Ég stefni á að vera dugleg áfram að setja inn færslur 🙂 Það er líka verið að nota kaffibolla fyrir þessar kökur. Hins vegar er erfitt að vita fyrirfram hvaða bollar þola þennan hita og ég myndi sjálf ekki þora að taka áhættuna nema vera alveg viss um að bollarnir þoli bakarofn.
Bakvísun: Frönsk hvít súkkulaðikaka | Eldhússögur
Bakvísun: Pítsan hans tengdapabba | gullagylfa
Bakvísun: Klessukaka með Daimrjóma | Eldhússögur
Er ekki möguleiki að baka þetta í einu litlu eldföstu móti? Snilldar síða hjá þér 🙂
Takk Karítas! 🙂 Ertu að meina að baka alla uppskriftina í einu eldföstu móti? Það er í raun hægt en þá ertu eiginlega komin með franska súkkulaðiköku. Þá er líka flóknara að ná mjúku miðjunni. Stór hluti af kökunni yrði bökuð í gegn og þá næðu ekki allir að fá sér af mjúku miðjunni. Ég veit ekki hver bökunartíminn yrði, þú yrðir að prófa þig áfram með það.
Er hægt að gera deigið fyrirfram og geyma t.d. í ísskáp þangað til maður bakar það?
Já, það er vel hægt. Ég lýsi því einmitt í innganginum að uppskriftinni þar sem ég er að tala um bökunartímann: „Ég hef komist að því að fyrir ofninn minn þurfa kökurnar sem bakaðar eru ókældar 11 mínútur í ofni, fyrir deig sem geymt er í ísskáp og sett kalt í ókæld form þarf 14 mínútur, en fyrir deig sem er geymt í ísskáp í sjálfum bökunarformunum þarf 16 mínútna bökunartíma.“ Það er sem sagt bæði hægt að hafa deigið tilbúið í sjálfum bökunarformunum og geyma í ísskáp eða geyma það allt í ísskáp og setja svo í formin þegar á að baka kökurnar. Gangi þér vel!
Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur
Ótrúlega góðar 🙂
Sæl, er hægt að gera þessar kökur með kakói í staðinn fyrir súkkulaði? 🙂
Páskaeftirétturinn í ár var þessi sjúklega góða kaka.
Á ekki lítil form þannig tvöfaldaði uppskriftina og það spellpassaði í formin mín 8. Vorum 7 að borða þannig ein prufukaka 😉
Við gerðum deigið og settum í formin og geymdum inn í kæli ( elska svona sem maður getur gert fyrirfram svo mikil snilld)
Prufukakan var tekin út eftir 10mín og ákváðum við að hafa hinar inn í 15 mín.
Þær voru geggjaðar vorum svo glöð að miðjan lak en ætlum að hafa þær næst bara í 12 mín langar að prófa að hafa hana aðeins blautari 😊
Frábært að heyra, þegar þessi er fullkomlega bökuð þá er hún nefnilega algjörlega himnesk! 🙂
var að gera þessar súkkulaðikökur – nákvæmlega sama uppskrift, upp á gramm birtist í bókinni Íslensk Jólaveisla sem Nóatún gaf út 1997. Breytir svo sem engu því kakan stendur jafnt fyirr sínu! k
Í innganginum á færslunni skrifa ég að þetta sé uppskrift sem birtist í Gestgjafanum árið 2002. Ég man það ekki alveg en ég held að Nanna Rögnvaldar hafi birt hana þar. Ég væri ekki hissa á því að hún hafi líka séð um uppskriftirnar þessari bók sem Nóatún gaf út og þetta sé þá sama uppskrift.