Ég átti afgang af hráefninu frá því að ég bjó til guacamole auk þess að eiga þroskað mangó. Þar sem að mér finnst þetta afar ljúffeng hráefni, mangó og avókadó, langaði mig að gera eitthvað dásamlega gott í kvöldmatinn úr því. Ég leitaði að uppskriftum en fann ekkert spennandi nema auðvitað mangó/avókadó salsa eins og ég bjó til um daginn en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Að lokum ákvað ég að spinna bara eitthvað gott úr þessu ásamt því að grilla kjúkling. Úr þeirri tilraun spruttu þessar ljúffengu kjúklingavefjur.
Uppskrift:
Mangósalsa:
- 1 mangó, skorið í bita
- 1-2 rauð chili-aldin, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
- safi úr 1/2 lime
Öllu blandað saman í skál.
Avókadósósa:
- 1 stórt avókadó eða 2 lítil
- 3 dl. grísk jógúrt
- 1-2 hvítlauksrif
- safi úr 1/2 lime
Öllu maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Geymt í ísskáp í minnst 15 mínútur.
Annað hráefni í vefjurnar:
- tómatar, skornir smátt
- salatblöð
- klettasalat
- rauðlaukur, saxaður (má sleppa)
- steikt beikon
- grillaðar kjúklingabringur, kryddaðar með Kjúklingakryddi frá Pottagöldrum.
- tortillas pönnukökur
Avókadósósan og mangósalsa er undirbúið á meðan kjúklingurinn er grillaður. Auk þess sem beikonið er steikt á pönnu þar til það verður stökkt, lagt á eldhúspappír og umfram fita látin renna af því. Tómatar eru skornir smátt, salat rifið niður og tortilla pönnukökurnar hitaðar á pönnu. Þegar kjúklingabringurnar eru hér um bil alveg grillaðar í gegn eru þær settar á disk og vafðar þétt inn í álpappír með hröðum handtökum. Þá haldast þær áfram að eldast hægt í eigin hita (sem kemur í veg fyrir að þær verði ofgrillaðar og þurrar) og verða safaríkar og lungnamjúkar. Þegar bringurnar hafa fengið að jafna sig eru þær sneiddar niður.
Inn í tortillas pönnukökuna er svo settur kjúklingur, mangósalsa, avókadósósa, beikon og grænmeti, það er gott að setja mikið af avókadósósunni og mangósalsanu! Það var afgangur þannig að ég útbjó vefjur og geymdi í álpappír í ísskáp. Ég held svei mér þá að þær hafi verið jafnvel enn betri kaldar daginn eftir, allavega jafn góðar!
prófaði þetta í gær, algjör snilld! ekki alveg búin að læra á búðirnar og fann ekki gríska jógúrt en notaði sýrðan rjóma í staðinn sem var bara fínt – allir ánægðir, börn sem fullorðnir, takk fyrir mig!
En gaman að heyra, takk fyrir að láta vita! Og velkomin heim til Íslands! 🙂
Þessi vefjusamsetning er sérlega góð. Einróma álit allra á heimilinu. Ég setti chili-ið reyndar óvart saman við avókadósósuna en það kom ekki að sök. Allt blandast þetta þegar í munninn er komið.
Frábært að heyra Sveinn! 🙂 Allir hér á heimilinu eru afar hrifnir af þessum vefjum líka. Ég held að það geti nú bara verið góð hugmynd að setja chili í avókadósósuna, ég prófa það næst! 🙂
Vakti mikla lukku hjá heimilisfólkinu hér. Á örugglega eftir að gera þennan rétt aftur. Kveðja Rannveig
Skemmtilegt að heyra það Rannveig! 🙂 Vefjurnar eru líka í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Þetta var í kvöldmatinn í gær og var mjög ljúffengt!! 🙂 en nú er afgangur af avakado sósunni…dettur þér eitthvað annað í hug sem mætti nota hana í?
Gott að heyra það Klara! Notkunarmöguleikar sósunar eru óendanlegir! 🙂 Hún er örugglega góð með ofnbökuðum laxi, með kjúklingabringum, með grilluðum samlokum, út á salat eða til að dýfa nachos í! 🙂
var ad gera tennan var rosalega godur 🙂 allir anægdir a tessu heimili og meira segja pantad i nesti i fyrramalid 🙂
En hvað það var gaman að heyra, takk fyrir góða kveðju! 🙂