Caprese kjúklingur


img_3587

Í þessu vorveðri sem ríkt hefur undanfarið höfum við fjölskyldan verið upptekin af því að hugleiða hvernig við viljum verja sumarfríinu. Það varð ofan á að prófa húsaskipti. Við höfum reyndar gert húsaskipti allavega sex sinnum áður en þá alltaf við vinafólk. Núna skráðum við okkur á alþjóðlega húsaskiptasíðu. Þegar við skoðuðum heimilin á síðunni, sem eru út um allan heim, þá leið okkur dálítið eins og að koma að hlaðborði sem svignar af kræsingum. Það var um svo ótal margt að velja, marga áfangastaði og margskonar hús. Ég lá yfir síðunni kvöld eftir kvöld, skoðaði og spekúleraði. Eftir að hafa spáð í flug og fleira fórum við að senda öðrum fjölskyldum boð um skipti. Eftir ýmisskonar samningaviðræður enduðum við á því að festa húsaskipti við indæla fjölskyldu í Montpellier í Suður-Frakkalandi. Við munum eyða þar rúmum tveimur vikum í fallegu húsi með sundlaug. Á leiðinni heim ætlum við að stoppa nokkra daga í París og erum búin að bóka Airbnb íbúð þar. Við erum ákaflega spennt fyrir væntanlegu ferðalagi og hlökkum mikið til! 🙂

En að uppskrift dagsins sem er ofsalega einfaldur og góður kjúklingaréttur. Caprese er þekktur ítalskur réttur, oftast forréttur, með ferskum mozzarellaosti, tómötum, basiliku, ólífuolíu, salti og pipar. Hér eru þessi hráefni notuð með kjúklingi og úr verður fljótgerður og gómsætur kjúklingaréttur.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • Pasta Rossa krydd frá Santa Maria (eða annað gott krydd)
  • salt & pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 4 hvítlauksrif (pressuð)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • 1 msk balsamedik
  • ca. 20-30 g fersk basilika, laufin söxuð gróft.
  • 240 g ferskur mozzarella ostur (2 kúlur), skorinn í fremur þunnar sneiðar

Kjúklingabringurnar kryddaðar með pastakryddinu, salti og pipar. Um það bil 1 msk af olíu er hituð á pönnunni og kjúklingurinn steiktur báðum megin þar til hann hefur fengið góða steikingarhúð og er hér um bil steiktur í gegn. Þá eru kjúklingabringurnar veiddar af pönnunni og settar til hliðar. Því næst er 1 msk af olíu bætt á pönnuna og tómatar og hvítlaukur látið malla í ca. 5 mínútur ásamt balsamediki. Nú er basiliku bætt á pönnuna auk þess sem kjúklingabringurnar eru settar aftur á pönnuna. Mozzarellasneiðunum er raðað ofan á kjúklingabringurnar. Lok er sett á pönnuna og öllu leyft að malla í nokkrar mínútur þar til að kjúklingurinn er fulleldaður og osturinn hefur bráðnað. Saltað og piprað við þörfum.

img_3572img_3583img_3591

 

Korma kjúklingur með eplum, tómötum og spínati


img_1095
Þegar kemur að indverskum réttum þá er ég alltaf sérstaklega hrifin af korma kjúklingi. Hérna setti ég saman einfaldan og ljúffengan korma kjúklingarétt með mörgum af mínum uppáhaldshráefnum, sætum kartöflum, eplum, tómötum og fleiru. Með honum bar ég fram raita jógúrtsósu, naan brauð, ferskt kóríander og svo banana með kókosi – frábærlega gott meðlæti með indverskum mat finnst mér.
Mér finnst alltaf svo gaman að búa til svona pottrétti, þeir eru yfirleitt fljótgerðir og svo er þægilegt að geta gengið frá í eldhúsinu í rólegheitum á meðan þeir malla í pottinum.  Annar stór kostur er að pottréttir eru oft enn betri daginn eftir og henta því ákaflega vel í matarboxið fyrir vinnuna eða skólann. Allt ofangreint á sannarlega við um þennan rétt, fljótlegur og gómsætur korma kjúklingur, ég mæli með að þið prófið! 🙂

 

Uppskrift:

  • 1 msk olía
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frá Rose Poultry), skornar í bita
  • 1 lítill laukur, saxaður smátt
  • 1/2 dós korma spice paste (150 g) frá Patak’s
  • 1/2 dl vatn
  • 1 rautt epli, skorið í bita
  • 2 tómatar, skornir í bita
  • 1 sæt kartafla (ca 250 g) skorin í bita
  • 200 ml kjúklingasoð
  • 2 dl matreiðslurjómi (hægt að skipta út fyrir kókosmjólk)
  • 100 g spínat
  • ferskt kóríander

    Laukur steiktur á pönnu í olíunni í nokkrar mínútur. Þá er korma maukinu bætt út í, steikt í 1-2 mínútur og svo er vatninu bætt út í. Því næst er epli, tómatar og sætar kartöflur sett út í og allt saman steikt. Fært yfir í stóran pott. Olíu bætt á pönnuna og kjúklingurinn steiktur þar til hann hefur náð steikingarhúð, honum er þá bætt út út í pottinn ásamt steikingarsafanum. Kjúklingasoði og rjóma bætt út í, látið malla undir loki í 20-30 mín eða þar til sætu kartöflurnar og eplin eru orðin mjúk. Í lokin er spínatinu bætt út í og borið fram með fersku kóríander ásamt bananasneiðum velt upp úr kókos, raita sósu, góðum hrísgrjónum og naan brauði.
Raita jógúrsósa:
 
  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

img_1096

Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

  • 300 g tagliatelle
  • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • 2 msk rautt pestó
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • 1 msk þurrkað oregano
  • salt og pipar
  • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Kjúklingur með ostasnakki, sætum kartöflufrönskum og kryddjurtasósu með hvítlauki


IMG_1316

Ég rakst á ostasnakk inni í skáp hjá mér sem er skrítið þar sem að ég held að enginn í fjölskyldunni borði þannig snakk. Ég reyni hins vegar alltaf að nýta allt og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki notað það í eitthvað. Ég ákvað að reyna að búa til rasp úr ostasnakkinu fyrir kjúkling og úr varð, að mér fannst allavega, sjúklega góður kjúklingur með sósu og sætum frönskum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ég notaði heilar bringur því mér finnst þær vera safaríkastar. Ég prófaði bæði að steikja kjúklinginn á pönnu og baka í ofni og hélt fyrirfram að sá steikti yrði líklega betri en mér fannst eiginlega ofnbakaði kjúklingurinn betri. Sósan er einföld en hrikalega góð en Herbes de Provence kryddið er einmitt svo gott í svona sósur. Þegar ég var síðast í Stokkhólmi kom ég við í búðinni hjá Leila Lindholm, sem er þekktur sjónvarpskokkur þar í landi, og keypti meðal annars þessar sniðugu skálar og svo pappír til að leggja í þær. Það er alveg óskaplega gaman að bera fram heimagerðan skyndibita á svona skemmtilegan máta.

IMG_1321

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 dós jógúrt án ávaxta (180 g)
  • 1 eggjahvíta     snakk
  • 1 msk dijon sinnep
  • 60 g ostasnakk
  • 50 g kornflex
  • 1/2 tsk cayanne pipar
  • 1/2 hvítlaukskrydd
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1/2 tsk oregano
  • 1/2 tsk basilika
  • salt & pipar
  • ólífuolía
  • 500 g sætar kartöflur.

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður með ólífuolíu. Sætu kartöflurnar er skornar í hæfilega stóra bita líkt og franskar kartöflur. Þeim er velt upp úr ólífuolíu, salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. ítölsku kryddi. Því næst er þeim dreift yfir annan helming bökunarplötunnar.

IMG_1301

Kornflex og ostasnakk er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, salt, hvítlaukskrydd, paprikukrydd, oregano og basiliku. Í annarri skál er jógúrti, eggjahvítu, dijon sinnepi og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr ostasnakks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur ásamt sætu kartöflunum eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer eftir stærðinni á bringunum. Borið fram með kryddjurtasósu með hvítlauki.

Kryddjurtasósa með hvítlauki

  • 1 dós sýrður rjómi (t.d. 10% eða 18%)
  • ca. 2 tsk Herbes de Provence frá Pottagöldrum
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_1319

IMG_1328

Hér er svo kjúklingur steiktur.

IMG_1303

Kjúklingabringur fylltar með döðlum, beikoni og fetaosti


IMG_1246

Ég tók í mig fyrir nokkru að mig langaði svo mikið í einhverskonar kjúklingarétt með döðlum og beikoni. Síðan þá hef ég prófað mig áfram með nokkrar útgáfur. Til dæmis pófaði ég að vefja slíkri fyllingu upp í úrbeinuðum kjúklingalærum ásamt fleiri tilraunum. Það var ekki fyrr en að mér datt í hug að bæta við fetaosti og lauki við blönduna og setja hana inn í vasa á kjúklingabringu að mér fannst rétturinn smella saman. Satt best að segja finnst mér þetta einn besti kjúklingaréttur sem ég hef fengið lengi og vona að ég sé ekki ein um það! 🙂 Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa sætkartöflumúsina og fetaosta- og hvítlaukssósuna með réttinum, það setur punktinn yfir i-ið.

IMG_1254

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði Rose Poultry)
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 200 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Djúpur vasi er skorinn í kjúklingabringurnar og þess gætt að þær séu ekki gataðar. Bringurnar eru svo kryddaðar með salti, pipar og chiliflögum. Fyrir þá sem vilja er hægt að snöggsteikja bringurnar, ca. 1 mínútu á hvorri hlið á þessum tímapunkti, til þess að þær fái steikingarhúð.

Beikon er steikt á pönnu og þegar það nálgast að verða stökkt er lauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3-4 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Helmingurinn af blöndunni er tekinn af pönnunni, skipt á milli kjúklingabringanna og vasarnir á þeim fylltir. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki og paprikukryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni hellt í botninn á eldföstu móti og kjúklingabringunum raðað ofan á. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með sætkartöflumús og fetaosta- og hvítlaukssósu.

Fetaosta- og hvítlaukssósa:

  • 70 g fetaosturinn (restin af fetaostakubbinum)
  • 1 dós sýrður rjómi 18% (180 g)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllum hráefnunum er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkað til með salti og pipar.

IMG_1252IMG_1258

Hægeldaður kjúklingur


IMG_1024Það er með ólíkindum hversu mjúkt og safaríkt kjöt verður þegar það er hægeldað. Um helgar finnst mér fátt betra en að hægelda lambalæri eða lambahrygg. Ef ég elda nautakjöt þá elda ég það „sous vide“. Reyndar þá á ég ekki sérstakar græjur til þess en ég hef notað skothelda aðferð frá Lækninum í eldhúsinu, ég vef nautalundinni inn í plastfilmu og hægelda í ofni við 60 gráður í nokkra tíma og steiki það svo snöggt á öllum hliðum, þannig verður kjötið lungamjúkt og dásamlega gott.

Um síðastliðna helgi var ég með heilan kjúkling í matinn og fór að hugleiða hvort ég gæti ekki hægeldað hann. Ég keypti heilan frosin kjúkling frá Rose (fékk hann í Fjarðarkaup – hef líka séð hann í Hagkaup), mér hann svo mjúkur og góður en ekki síst er frábært hversu stór hann er, 1600 gr, þá þarf ég ekki að elda tvo heila kjúklinga. Ég tók kjúklinginn úr frystinum á laugardegi og setti hann inn í ísskáp. Á sunnudeginum hægeldaði ég kjúklinginn og mikið óskaplega varð hann ljúffengur! Það var dálítið fyndið að fylgjast með viðbrögðum fjölskyldunnar sem settust öll við borðið á mismunandi tíma. Þau brugðust öll nákvæmlega eins við, „ummmm“ heyrðist í þeim eftir fyrsta bita og svo spurðu þau hissa, „hvernig kjúklingur er þetta?!“ Ég mæli því óhikað með þessari eldunaraðferð ef þið viljið fá dásamlega safaríkan kjúkling. Með honum hafði ég allskonar grænmeti, meðal annars fenniku sem mér finnst svo góð með sínum milda anískeimi en það er hægt að notað hvaða rótargrænmeti sem er í þessa uppskrift.

Uppskrift:

  • 1 heill kjúklingur, ca. 1600 g (ég notaði frá Rose)
  • Kalkúnakrydd
  • 50 g smjör
  • 1/2 dl sojasósa
  • 1 appelsína, skorin í báta
  • 1 heill hvítlaukur, afhýddur
  • 1 sæt kartafla, skorin í bita
  • 8 meðalstórar kartöflur
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 1 lítil sellerírót, skorin í bita
  • ca. 2 msk hveiti
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • rifsberjahlaup
  • salt og pipar

IMG_1016

Bakarofn hitaður í 110 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingur er afþýddur, skolaður og þerraður. Þá er hann fylltur með appelsínubátum og hvítlauksrifum. Kjúklingurinn er settur í ofnpott. Smjör og sojasósa er brætt saman í potti og hellt yfir kjúklinginn og hann nuddaður vel á öllum hliðum upp úr smjörbráðinni og því næst kryddaður vel. Þá er grænmeti raðað þétt í kringum kjúklinginn. Lokið er sett yfir ofnpottinn og hann settur inn í ofn við 110 gráður í um það bil 3 klukkustundir, +/- hálftíma, fer eftir stærð kjúklingsins. Gott er að nota kjöthitamæli og stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast. Þegar hitinn er kominn í ca. 70 gráður er lokið tekið af pottinum og hitinn hækkaður í 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur tekið fallegan lit. Þá er ofnpotturinn tekinn úr ofninum og kjúklingurin færður á disk undir álpappír. Grænmetið er veitt upp úr pottinum og vökvanum hellt í pott í gegnum sigti. Vökvinn er látinn standa í pottinum um stund þar til fitan flýtur upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti þar til blandan verður þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og hveitibollan pískuð saman við á meðan. Þá er rjómanum bætt út í og sósan látin malla þar til hún hefur þykknað passlega (við þörfum er hægt að nota sósujafnara og sósulit). Gott er að smakka sósuna til með rifsberjahlaupi og salti & pipar.

diablo

Sævar Már vínþjónn mælir með því að njóta kjúklingsins með silkimjúka hvítvíninu Casillero del Diablo Chardonnay. Það er ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, hunangsmelóna,eik.

IMG_1023IMG_1033IMG_1042

Kjúklingalasagna með rjómaosti og brokkolí


IMG_0486Upp á síðkastið hefur bloggið lent aftarlega á forgangslistanum þar sem að líður senn að því að við fáum afhent húsið sem við keyptum síðastliðið sumar. Við erum að skipuleggja miklar breytingar á húsinu og ég er að dunda mér á kvöldin við að teikna upp eldhús, baðherbergi, innréttingar og fleira. Ég er sérstaklega spennt fyrir eldhúsinu en þetta er í annað sinn á ævinni sem ég fæ tækifæri til að skipuleggja eldhús eftir eigin höfði og að þessu sinni tel ég mig algjörlega vera búin að komast að að því hvernig ég vil hafa eldhúsið mitt. Ég mun örugglega deila hér með mér fyrir og eftir myndum því mér finnst sjálfri svo gaman að skoða svoleiðis myndir. 🙂

Um síðastliðna helgi eldaði ég fyrir stórfjölskylduna og gerði einfalt en gott kjúklingalasagna sem er svo gott og þægilegt að gera fyrir marga. Ég mæli með því fyrir næsta matarboð eða bara til að hafa í matinn á morgun!

Uppskrift: 

  • ca. 800g kjúklingabringur eða lundir, skorin í bita
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, saxaður smátt
  • 1 brokkolíhaus (ca. 300 g), skorin í bita
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 2 bréf taco krydd (40 g pokinn)
  • 2/3 dl vatn
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18% – 180g)
  • 200 g rjómaostur
  • smá mjólk við þörfum
  • lasagna plötur
  • 200 g rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur steiktur í stutta stund á pönnu upp úr olíu og/eða smjöri. Kjúklingi bætt út á pönnuna ásamt brokkolí og papriku og steikt í nokkrar mínútur. Þá er tacokryddi bætt út í og síðan vatninu. Því næst er rjómaosti og sýrðum rjóma bætt út í og leyft að malla í smá stund. Ef með þarf er smá mjólk bætt út í. Þá er hluta af kjúklingablöndunni sett í eldfast mót, lasagnaplötum raðað yfir. Endurtekið tvisvar og endað á að dreifa rifnum osti yfir. Bakað í ofni í um það bil 25-30 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

IMG_0498

Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

  • 800 g tómatar
  • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • ca. 2/3 dl ólífuolía
  • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
  • grófmalaður svartur pipar
  • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
  • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
  • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • 2-3 dl rjómi
  • 700 g kjúklingalundir
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
  • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

  • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 stór paprika skornar í bita
  • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
  • 1 msk ólífuolía
  • 1,5 l vatn
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • 2 msk tómatpúrra
  • salt & pipar
  • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
  • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
  • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720