Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂
Uppskrift:
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
- ólífuolía til steikingar
- 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
- 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
- 3-4 msk dijon sinnep
- 2 dl rjómi
- 1 dós sýrður rjómi (180 g)
- 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
- flögusalt og grófmalaður svartur pipar
- rifinn ostur
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.
Stórkostlegur réttur, basilikan kemur ótrúlega vel út með sinnepinu. Allir eins og venjulega skópla þessu í sig, plús amman og eru alsælir 🙂
Já, þetta er einmitt svo einfaldur en bragðgóður réttur! Takk fyrir kveðjuna! 🙂