Mikið er nú dásamlegt að snjórinn sé farin, farið sé að hlýna og að birtan sé loksins komin! Dagsbirtan er svo mikill vinur matarbloggara, það er ægilega leiðinlegt að taka matarmyndir í skammdeginu. Við fjölskyldan erum smátt og smátt að hreiðra um okkur í nýja húsinu. Ég er að vinna í blogginnleggi með myndum um nýja eldhúsið sem mun birtast innan skamms. Ég er ægilega ánægð með eldhúsið og finnst það hafa lukkast mjög vel, sem og allar endurbæturnar á húsinu.
Að þessu sinni ætla ég að skrá hér inni á síðuna enn eina kladdköku uppskrift, þær verða aldrei of margar. Í þessari uppskrift kemur saman sænska kladdkakan og rússneska mjúka marengs Pavlovan með ”dash” af súkkulaðihnetusmjöri, sem er skemmtileg og ljúffeng blanda.
Súkkulaðikaka:
- 150 g smjör
- 300 g suðusúkkulaði
- 1.5 dl sykur
- 3 egg
- 2 dl hveiti
- 2 msk kakó
Marengs:
- 4 eggjahvítur
- 1.5 dl sykur
- 1 tsk ljóst edik
- 2 msk sterkja (t.d. majsenamjöl)
- ca. 1 dl súkkulaðihnetusmjör
Bakarofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) er klætt bökunarpappír. Smjör og súkkulaði er brætt saman yfir vatnsbaði. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti og kakói bætt út í. Þá er súkkulaði-smjörblöndunni bætt út í smátt og smátt þar til allt hefur blandast saman. Deigið er sett í formið og bakað í ofni við 175 gráður í ca. 20 mínútur. Þá er kakan tekin út og ofninn hækkaður í 200 gráður. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt á meðan. Því næst er ediki og sterkju bætt út í. Súkkulaðihnetusmjörið er hitað í örbylgju ofni í ca. 20 sekúndur eða þar til það verður dálítið fljótandi en þó alls ekki of heitt. Þá er því bætt varlega út í marengsinn með sleikju en fallegt er að blanda því bara létt saman við marengsinn svo að hann verði fallega marmaramunstraður. Marengsinn er settur yfir kökuna og bakað í ca. 20-25 mín til viðbótar. Gott er að fylgjast vel með kökunni þvi marengsinn getur orðið dökkur og því þarf mögulega að setja álpappír yfir hana þegar um helmingur af bökunartímanum er liðinn. Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma.
Góðan dag. Mér sýnist vanta eggin í kökuuppskriftina. Hvað eiga þau að vera mörg? Kv Birna
Sent from my iPad
>