Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332

 

Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Ostakökudesert með Dumle Snacks


IMG_0618

Þar sem að við höfum verið mikið heima við í sumar höfum við haldið óvenju mörg matarboð upp á síðkastið. Um daginn hringdi Elfar í mig úr vinnunni, rétt fyrir kvöldmatinn, og spurði hvort að hann mætti taka með sér heim í mat fyrrum vinnufélaga sinn frá Stokkhólmi sem væri staddur hér á landi með fjölskyldu sinni. Ég er alveg hætt að æsa mig of mikið yfir matarboðum og bað hann endilega að gera það. Með aldrinum þá fer mann nefnilega að finnast einna mikilvægast njóta samverunnar við skemmtilegt fólk og ekki gera hlutina of flókna. Ég get þó ekki sagt að mér finnist maturinn farinn að skipta mig minna máli, hann skiptir mig alltaf miklu máli! 😉 En stundum er hið einfalda best. Ég skaust því út í fiskbúð og bjó til góðan fiskrétt. Mig langaði svo mikið að gera ostaköku í eftirrétt en hana þarf að gera með fyrirvara. Ég ákvað því að nota hráefni sem notuð eru í ostaköku og útbúa eitthvað fljótlegt úr þeim. Úr varð þessi stórgóði eftirréttur sem sló í gegn. Þennan desert tekur enga stund að gera en er afar ljúffengur, ég mæli með honum! 🙂

Uppskrift f. 6:

  • 2 dósir Philadelphia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 150 g Digestive kex
  • 300 g jarðarber (og/eða önnur ber)
  • 175 g Dumle snacks

Rjómaosti, grískri jógúrt og rjóma er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Dumle snacks er saxað smátt, jarðarberin skorin í bita. Því næst er öllum hráefnunum blandað í 6 skálar. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni því næst Dumle snacks og loks jarðarberjunum. Þetta er endurtekið einu sinni eða tvisvar eða þar til hráefnið klárast.

IMG_0623

Kladdkaka með mjúkum marengs


IMG_2787
IMG_2793Mikið er nú dásamlegt að snjórinn sé farin, farið sé að hlýna og að birtan sé loksins komin! Dagsbirtan er svo mikill vinur matarbloggara, það er ægilega leiðinlegt að taka matarmyndir í skammdeginu. Við fjölskyldan erum smátt og smátt að hreiðra um okkur í nýja húsinu. Ég er að vinna í blogginnleggi með myndum um nýja eldhúsið sem mun birtast innan skamms. Ég er ægilega ánægð með eldhúsið og finnst það hafa lukkast mjög vel, sem og allar endurbæturnar á húsinu.

Að þessu sinni ætla ég að skrá hér inni á síðuna enn eina kladdköku uppskrift, þær verða aldrei of margar. Í þessari uppskrift kemur saman sænska kladdkakan og rússneska mjúka marengs Pavlovan með ”dash” af súkkulaðihnetusmjöri, sem er skemmtileg og ljúffeng blanda.

Súkkulaðikaka:

  • 150 g smjör
  • 300 g suðusúkkulaði
  • 1.5 dl sykur
  • 3 egg
  • 2 dl hveiti
  • 2 msk kakó

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur
  • 1 tsk ljóst edik
  • 2 msk sterkja (t.d. majsenamjöl)
  • ca. 1 dl súkkulaðihnetusmjör

Bakarofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) er klætt bökunarpappír. Smjör og súkkulaði er brætt saman yfir vatnsbaði. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti og kakói bætt út í. Þá er súkkulaði-smjörblöndunni bætt út í smátt og smátt þar til allt hefur blandast saman. Deigið er sett í formið og bakað í ofni við 175 gráður í ca. 20 mínútur. Þá er kakan tekin út og ofninn hækkaður í 200 gráður. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt á meðan. Því næst er ediki og sterkju bætt út í. Súkkulaðihnetusmjörið er hitað í örbylgju ofni í ca. 20 sekúndur eða þar til það verður dálítið fljótandi en þó alls ekki of heitt. Þá er því bætt varlega út í marengsinn með sleikju en fallegt er að blanda því bara létt saman við marengsinn svo að hann verði fallega marmaramunstraður. Marengsinn er settur yfir kökuna og bakað í ca. 20-25 mín til viðbótar. Gott er að fylgjast vel með kökunni þvi marengsinn getur orðið dökkur og því þarf mögulega að setja álpappír yfir hana þegar um helmingur af bökunartímanum er liðinn. Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma. IMG_2800

Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum


IMG_0779Eins og ég hef sagt frá kom yfir mig ísgerðarlöngun nú í desember og ég bjó til nokkra mismunandi ísa fyrir hátíðarnar. Ég var dálítið ánægð með mig þegar ég var búin að þróa uppskriftina að þessum ís því mér fannst hann svo himneskt góður og smjörsteiktu kanileplin settu algjörlega punktinn yfir i-ið. Mér fannst ofboðslega gott að fá svona stökka núggat áferð á Dumle molana í ísnum og lítið mál að búa það til. Stórfjölskyldunni var boðið upp á þennan ís yfir hátíðarnar og gáfu honum öll toppeinkunn! 😉 Það er varla hægt að vera með hátíðlegri eftirrétt nú um áramótin og reyndar er þetta eftirréttur sem sómir sér vel allt árið um kring! 🙂 IMG_0761

Uppskrift f. 6

  • 2 pokar Dumle Orginal karamellur (samtals 240 g)
  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 2 vanillustangir, klofnar í tvennt og fræin skafin úr

Ofn er hitaður í 180 gráður við blástur. Dumle karamellunum er raðað á ofnplötur  klæddar bökunarpappír. Sett inn í ofn við 180 gráður í um það bil 5-7 mínútur eða þar til karamellurnar hafa bráðnað. Gæta þarf þess að þær brenni ekki. Þegar karamellurnar hafa kólnað eru þær saxaðar niður.IMG_0747IMG_0753IMG_0756

Rjómi þeyttur. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til blandan verður ljós og loftmikil. Þá er þeyttum rjóma, vanillufræjum og Dumle-núggati bætt varlega út í og blandað vel saman með sleikju. Sett í ísform eða 24 cm smelluform og fryst í minnst 5 tíma. Borið fram með heitum smjörsteiktum kanileplum.

Smjörsteikt kanilepli:

  • 4 rauð epli
  • 3/4 dl púðursykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 msk smjör.

Eplin eru afhýdd og skorin í fremur þunna báta. Púðursykri og kanil blandað saman og eplunum velt upp úr blöndunni. Smjör hitað á pönnu og eplin steikt í nokkrar mínútur á meðalhita þar til þau hafa mýkst vel. IMG_0765

Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum


IMG_0787 IMG_0797Eftir að hafa lukkast vel með útfærslu á Toblerone ísnum um daginn fór ég að hallast á þá skoðun að kannski væri ég meira fyrir ís en ég áður hafði haldið. Allavega er ég búin að búa til tvo ísa til viðbótar sem ég ætla að hafa í eftirrétt yfir jól og áramót sem mér fannst vera hnossgæti. Í þessum tilraunum mínum komst ég líka að því hvað það er óskaplega skemmtilegt að prófa sig áfram með hinar ýmsu útfærslur á ísum og sjaldnast hægt að mistakast þegar allskonar gúmmelaði er blandað saman við þeyttan rjóma! 🙂

IMG_0802

Uppskriftin sem ég ætla að færa inn á bloggið í dag er af ofboðslega fallegum ís með frísklegu hindberjabragði sem kemur skemmtilega út á móti bismark og myntusúkkulaðibragðinu. Ég notaði súkkulaðifylltan myntubrjóstsykur sem gefur bæði ljúffengt en jafnframt hátíðlegt bragð af ísnum.

marianne

Uppskrift:

  • 5 eggjarauður
  • 1 msk sykur
  • 5 dl rjómi
  • 1 kassi Fazermint myntufyllt súkkulaði (150 g)
  • 1 poki Marianne súkkulaðifylltur myntubrjóstsykur (120 g)
  • 300 g frosin hindber, afþýdd.

Rjóminn er þeyttur og lagður til hliðar. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Myntubrjóstsykur er mulinn fremur smátt í matvinnsluvél. Fazermint myntusúkkulaði er saxað niður. Hindber eru maukuð með gaffli. Þeytta rjómanum er blandað varlega saman við þeyttu eggjarauðurnar með sleikju og söxuðu súkkulaði, muldum brjóstsykri og maukuðum hindberjum blandað varlega saman við. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og fryst í að minnsta kosti 5 tíma.

IMG_0801

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum


IMG_0595

Mér finnst Pavlovu marengs ægilega góður og það er lítið mál að gera slíka marengstertu að rúllu. Hér prófaði ég mig áfram með að búa til krem úr hnetusmjöri og ég notaði líka hættulega góðu Dumle snacks molana í kremið. Þegar ég geri eitthvað úr hnetusmjöri þá get ég sjaldan staðist þá freistingu að smygla banönum með í uppskriftina og hér pössuðu þeir eins og hönd í hanska við kremið. Hnetusmjör, bananar og Dumle snacks með mjúkum Pavlovumarengs – þetta getur ekki klikkað! 🙂

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum.

 Marengs:

·      5 eggjahvítur

·      2,5 dl sykur

·      1 tsk edik

·      2 tsk kartöflumjöl eða maíssterkja

·      1 tsk vanillusykur

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til allt er stífþeytt. Í lokin er ediki, kartöflumjöli og vanillusykri bætt út í. Ofnplata er klædd með bökunarpappír og marengsinum smurt á bökunarpappírinn þannig að hann myndar ca. 35×30 cm ferning. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til marengsinn er gullinbrúnn. Þegar marengsinn hefur kólnað er honum hvolft á nýjan bökunarpappír og súkkulaði – og hnetusmjörskreminu smurt á.

Súkkulaði- og hnetusmjörskrem

·      50 g smjör við stofuhita

·      200 g flórsykur

·      200 g Nusica heslihnetu- og súkkulaðikrem

·      200 g Philadephia rjómaostur, við stofuhita

·      175 g Dumle snacks karamellur, skornar í litla bita

·      2 stórir bananar, skornir í sneiðar

Smjör og flórsykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaði- og hnetukreminu bætt út í og að lokum rjómaostinum. Þegar allt hefur blandast vel saman er niðursneiddum banönum og Dumle karamellum blandað varlega saman við kremið með sleikju. Kreminu er smurt yfir marengsinn og honum rúllað upp með hjálp bökunarpappírsins. Skreytt með Dumlekremi og Dumle karamellum.

Dumle krem

·      60 g Dumle orginal karamellur , skornar í bita

·      1-2 msk rjómi eða mjólk

·      nokkrar Dumle orginal karamellur til skreytingar

Karamellurnar bræddar í potti við vægan hita og mjólk eða rjóma bætt út í þar til hæfilegri þykkt er náð. Þá er kreminu dreift yfir marengsrúlluna og skreytt með nokkrum Dumle karamellum. IMG_0590

 

Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Risa smákaka með Toblerone og Dumle karamellum


IMG_0523 IMG_0543Nú er að renna upp vetrarfrí sem er afar ljúft, sérstaklega þar sem við öll fjölskyldan verðum aldrei þessu vant öll í fríi. Ég er nokkuð viss um að það munu einhverjar kökur renna úr ofninum á þessum komandi frídögum. Um daginn gerði ég þessa risasmáköku sem sló ekkert smávegis í gegn, hún er eiginlega hættulega góð! Syninum fannst þetta eins sú besta kaka sem hann hafði smakkað og ef hann fær að ráða verður þetta kaka vetrarfrísins í ár! 🙂 Ég mæli sannarlega með þessari, hún er afskaplega fljótleg í bakstri og hrikalega góð.

IMG_0547

Uppskrift:

  • 180 g smjör, við stofuhita
  • 1 ½ dl púðursykur
  • 1 ½ dl sykur
  • 1 egg
  • 1 dl haframjöl
  •  3 ½  dl hveiti
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • 2 tsk vanillusykur
  • örlítið salt
  • 200 g Toblerone, saxað meðalgróft
  • 120 g Dumle karamellur, skornar í litla bita
  • 1 dl pekan- eða valhnetur, grófsaxaðar

Ofan á:

  • nokkrir molar hvítt súkkulaði, brætt
  • nokkrir molar dökkt súkkulaði, brætt

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman. Þá er eggi bætt út í. Því næst er þurrefnunum hrært saman við og að lokum er Toblerone súkkulaði, Dumle karamellum og hnetum bætt út í. 22-24 cm bökunarform er klætt að innan með bökunarpappír og degið sett í formið, því þrýst jafnt út í alla kanta. Bakað neðarlega í ofni í 30-35 mínútur eða þar til kakan hefur tekið fallegan lit. Bræddu hvítu og dökku súkkulaði er dreift yfir kökuna eftir að hún kemur úr ofninum. Gott er að bera fram kökuna volga með vanilluís en hún er ekki síðri köld. 

IMG_0540IMG_0541

Kanilsnúðakladdkaka


kanilsnúðakaka4

Ég veit ekki hvað ég er með orðið margar uppskriftir hér á síðunni af „kladdkökum“ (klessukökum), en þær eru orðnar ansi margar. Ástæðan fyrir því er líklega sænsku áhrifin af langri búsetu minni í Svíþjóð og svo sú staðreynd að ég skoða reglulega sænsk matarblogg og þar ber mikið á kladdkökum – fyrir utan auðvitað hvað þær eru góðar og einfaldar að baka. Ég hef séð uppskrift að þessari köku í margskonar útgáfum á mörgum sænskum bloggum undanfarið og ákvað að prófa að baka hana í dag. Það leið innan við hálftími frá því að ég byrjaði að baka þar til kakan var komin á borðið sem er frábær byrjun. Hvern vantar ekki að eiga góða uppskrift að afar fljótlegri og góðri köku? Kakan sjálf fannst mér ákaflega góð og gestirnir mínir voru mér sammála. Hún minnti óneitanlega á heita og ljúffenga kanilsnúða þó svo að það sé eiginlega bara kanillinn sem er sameiginlegur þáttur með þessu tvennu. Ég er svo heppin að eiga sænskan perlusykur (sjá umfjöllun um hann hér) til að strá ofan á kökuna en það er vel hægt að sleppa honum. Það sem er líka svo frábært við þessa köku er að það þarf enga hrærivél og varla nokkur áhöld, bara einn pott, desilítramál og písk og hráefnin á maður öll yfirleitt til, algjör snilld! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 stór egg
  • 1 msk kanill
  • hnífsoddur salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 1/2 dl hveiti
  • perlusykur ofan á kökuna (má sleppa)

Ofn stilltur á 180 gráður við undir/yfirhita. 22-24 cm smelluform smurt að innan. Smjör sett í pott og brætt. Potturinn tekinn af hellunni og smjörið látið kólna dálítið. Þá er restinni af hráefnunum bætt út í pottinn og pískað saman. Deiginu helt í formið og perlusykri dreift yfir (má sleppa). Bakað við 180 gráður í ca. 15-20 mínútur. Athugið að kakan á að vera fremur klesst og blaut og því betra að baka hana styttra en of lengi. Borin fram volg eða köld (hún er ekki síðri daginn eftir) með þeyttum rjóma.

kanilsnúðakaka3 kanilsnúðakaka1