Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332