Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332

 

Fylltir sveppir


Fylltir sveppirÉg held að fáar þjóðir séu jafn þakklátar fyrir smá sólarglætu og við Íslendingar. Þegar ég bjó í Svíþjóð hneykslaðist ég oft á vanþakklæti Svía þegar kom að veðrinu. Sumrin í Svíþjóð eru dásamleg, bæði löng og hlý. Samt eru Stokkhólmsbúar stöðugt að kvarta yfir því að sumrin þeirra séu stutt, köld og blaut og þeir grínast jafnvel með að það ætti eiginlega ekki að vera byggjanlegt í svona köldu landi. Meðalhitinn í júlí í Stokkhólmi er þó nálægt 22 stiga hita! Þegar talað er um sumarveðrið í Stokkhólmi þá draga Stokkhólmsbúar gjarnan fram þá fáu daga þegar veðrið var ekki gott. Hér á Íslandi bregst það ekki, sama hversu slæmt sumarið hefur verið, alltaf má heyra okkur Íslendingana segja: „Við fengum nú rosalega góða tvo daga þarna snemma í sumar!“ eða eitthvað álíka. Ég ætla nú rétt að vona að þessir tveir dásamlegu sólardagar um helgina verði ekki þessir „tveir góðu dagar“ sem við þurfum að vitna í eftir sumarið! Reyndar munum við fjölskyldan fá okkar skerf af sól og líklega gott betur þar sem að við gerum húsaskipti í heilan mánuð í sumar og dveljum þá í Michigan í Bandaríkjunum en meðalhiti þar í júlí er hvorki meira né minna en 29 gráður.

IMG_5747

Ég átti alltaf eftir að setja inn fleiri uppskriftir frá útskriftarveislunni hennar Óskar. Ég bauð þá upp á meðal annars fyllta sveppi sem voru afar ljúffengir. Þeir eru líka mjög hentugir á smáréttahlaðborð. Ég útbjó þá kvöldið áður og setti beint á ofnplötu með plastfilmu yfir og geymdi í ísskáp. Ég hitaði sveppina svo rétt áður en veislan hófst þannig að þeir voru enn volgir en það er vel hægt að bera þá fram kalda.

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

  • 500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)
  • 1.5 msk olía
  • 4 -5  hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt
  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 box (200 g) Philadelphia rjómaostur með hvítlauki og kryddjurtum, látið ná stofuhita
  • ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

IMG_5672

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

IMG_5674IMG_5745

Snittur með lambafille og sætkartöflumús


Snittur með sætkartöflumús og lambafilleUm síðustu helgi skrifaði ég um útskriftarveislu Óskar. Í veislunni prófaði ég nokkra nýja smárétti og þessi uppskrift af ljúffengum snittum með lambakjöti og sætkartöflumús var einn af þeim. Uppskriftin var í sama Gestgjafa blaði og uppskriftin af vorrúllunum og kemur frá Happi. Ég prófaði líka að setja grillaða kjúklingabringu á snittuna og það var ákaflega gott, það er því auðvelt að skipta út lambakjötinu fyrir kjúkling ef maður kýs það heldur. Ég breytti upphaflegu uppskriftinni dálítið og skrifa hana hér inn breytta.

IMG_5856

Uppskrift, ca. 20 snittur

  • 200 g lambafille
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cummin
  • chill explosion krydd
  • maldon salt
  • gófmalaður svartur pipar

Olía, cummin og chili-krydd hrært saman og lambakjötinu velt upp úr blöndunni. Kjötið grillað í nokkrar mínútur á útigrilli þar til það er steikt eftir smekk (mér finns best að hafa það vel rautt í miðjunni). Í lok eldunartímans er kryddað með salti og pipar. Kjötið er látið jafna sig eftir grillun í minnst 10 mínútur og því næst skorið í mjög þunnar sneiðar.

Sætkartöflumús:

  • 1 meðalstór sæt kartafla, skorin í fremur litla bita
  • 3 msk philadelphia rjómaostur
  • chili explosion krydd
  • ca. 1/2-1 tsk rósmarín
  • salt & pipar

Sæta kartaflan eru afhýdd og skorin í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við rjómaost og krydd í potti við lágan hita.

Hindberjasósa:

  • 2 dl frosin hindber
  • agave síróp, eftir smekk
  • maldon salt, eftir smekk

Hindberin afþýdd og sett í blandara, smakkað til með agave sírópi og örlítið af salti. Ef með þarf er hægt að þynna með vatni.

Brauð:

  • 1 snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Skraut og samsetning:

  • ristaðar furuhnetur
  • ferskt spínat, saxað gróft
  • fersk bláber

IMG_5665

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Þegar brauðin eru orðin köld er sett vel af sætkartöflumús á hverja sneið. Því næst er grófsaxað spínat sett ofan á karöflumúsina, þá lambakjötssneið og að lokum er hindberjasósunni dreypt yfir. Skreytt með ristuðum furuhnetum og ferskum bláberjum. Athugið að hægt er að setja saman snittuna með smá fyrirvara en best er að setja hindberjasósuna á rétt áður en snitturnar eru bornar fram. IMG_5853 IMG_5857

 

 

Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

  • 100 g laxaflak
  • 1 stk. hvítlauksgeiri
  • 2msk Maldon sjávarsalt
  • hluti úr ferskum ananas
  • 2-3 msk. sýrður rjómi
  • 1stk skarlottulaukur
  • ferskur pipar úr millu
  • 2 msk. ólífuolía
  • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku


IMG_8860

Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂

Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!

Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.

IMG_8939

Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning

IMG_8927

Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.

IMG_8933

Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.

IMG_8898IMG_8913

Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂

IMG_8907

Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.

IMG_8917IMG_8919

Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.

Uppskrift:

  • 1 snittubrauð
  • 2 hvítlauksrif
  • ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
  •  fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
  • 1 kúla Mozzarella ostur
  • salt og pipar
  • ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn

Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.

Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

IMG_8855

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

  • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

  • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
  • tómatar, skornir í sneiðar
  • basilikublöð
  • salt og svartur grófmalaður pipar
  • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
  • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

  • parmaskinka
  • brie ostur eða annar góður mygluostur,
  • chilisulta
  • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

  • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
  • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
  • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
  • klettasalat
  • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371

Innbakaður brie með sultu í smjördeigi


BrieÍ gær áttum við skemmtilegan dag með bæði leikhúsferð og bíóferð. Um daginn fórum við fjölskyldan saman í Þjóðleikhúsið og skemmtum okkur dátt yfir Dýrunum í Hálsaskógi. Um kvöldið fórum svo við hjónin ásamt Vilhjálmi í bíó á Life of Pi. Ég var búin að lesa bókina sem er frábær og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Mér fannst mikið afrek að geta gert svona frábæra bíómynd eftir þessari sögu sem er sannarlega ekki auðveld að kvikmynda. Í dag erum við að fara í jólaboð en fyrst ætla ég að setja inn eina uppskrift hingað á bloggið.

Brie

Ég hef áður talað um dálæti mitt á ostum og ég er stöðugt á höttunum eftir góðum uppskriftum með ostum í. Um daginn þegar við fórum á jólaball gerði ég einfaldan og góðan ostarétt til að setja á hlaðborðið. Þetta er innbakaður brie með sultu í smjördeigi. Einfalt og gott! Rétturinn er langbestur heitur en það er líka hægt að bera hann fram kaldan. Tvennt þarf að hafa í huga. Annars vegar að það er allt í lagi þó að það „blæði“ aðeins osti og sultu út um degið við baksturinn og hitt er að passa að setja nóg af osti og sultu. Þó svo að ostbitinn virðist stór í byrjun þá bráðnar hann við bökunina. Í þetta sinn notaði ég hindberjasultu og blandaða sultu en næst ætla ég að prófa að nota chilisultu sem mér finnst svo góð með ostum. Þessi smáréttur sómar sér vel með freyðivíninu á gamlárskvöld! Nú eða hafa til að maula í láréttri stöðu í sófanum á nýársdag yfir endursýndum annálum! 🙂

Uppskrift:

  • 1-1½ brieostur eða annar góður ostur
  • sulta, t.d. hindberjasulta, chilisulta eða önnur góð sulta sem passar við osta
  • 1 pakki tilbúið frosið smjördeig
  • 1 egg
  • 1 msk mjólk
  • hnífsoddur salt

IMG_6326IMG_6328Ofn hitaður í 190 gráður undir og yfirhita. Egg, mjólk og salt þeytt létt saman. Dreift úr smjördeigsplötunum og þær látnar þiðna (tekur ca. 15 mínútur). Þá eru plöturnar smurðar vel með eggjahrærunni (hún er „límið“ sem lokar bitunum) og síðan er hver plata skorin í 6-8 jafna ferninga. Osturinn skorin í stóra bita (næst ætla ég að hafa þá stærri en á myndinni hér að ofan því deigið er það mikið) og ostabiti lagður ofan á annan hvern ferning. Því næst er sett passlega mikil sulta ofan á ostbitana. Þá er hinn helmingurinn af smjördeginu lagður ofan á og samskeytin lokuð vel með gaffli allan hringinn. Bitunum er raðað á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver biti er svo smurður með eggjahrærunni og þeir síðan bakaðir í miðjum ofni við 190 gráður í 12-14 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir (það er allt í lagi þótt það leki svolítið úr þeim).

IMG_6330

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

  • 1 stór dós kotasæla
  • 8 tómatar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1/2 lime
  • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
  • 1 rautt chili, saxað smátt
  • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

  • 2 rauð chili
  • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 100 gr fetaostur
  • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
  • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
  • 8 hveititortillur
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂