Í gær áttum við skemmtilegan dag með bæði leikhúsferð og bíóferð. Um daginn fórum við fjölskyldan saman í Þjóðleikhúsið og skemmtum okkur dátt yfir Dýrunum í Hálsaskógi. Um kvöldið fórum svo við hjónin ásamt Vilhjálmi í bíó á Life of Pi. Ég var búin að lesa bókina sem er frábær og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Mér fannst mikið afrek að geta gert svona frábæra bíómynd eftir þessari sögu sem er sannarlega ekki auðveld að kvikmynda. Í dag erum við að fara í jólaboð en fyrst ætla ég að setja inn eina uppskrift hingað á bloggið.
Ég hef áður talað um dálæti mitt á ostum og ég er stöðugt á höttunum eftir góðum uppskriftum með ostum í. Um daginn þegar við fórum á jólaball gerði ég einfaldan og góðan ostarétt til að setja á hlaðborðið. Þetta er innbakaður brie með sultu í smjördeigi. Einfalt og gott! Rétturinn er langbestur heitur en það er líka hægt að bera hann fram kaldan. Tvennt þarf að hafa í huga. Annars vegar að það er allt í lagi þó að það „blæði“ aðeins osti og sultu út um degið við baksturinn og hitt er að passa að setja nóg af osti og sultu. Þó svo að ostbitinn virðist stór í byrjun þá bráðnar hann við bökunina. Í þetta sinn notaði ég hindberjasultu og blandaða sultu en næst ætla ég að prófa að nota chilisultu sem mér finnst svo góð með ostum. Þessi smáréttur sómar sér vel með freyðivíninu á gamlárskvöld! Nú eða hafa til að maula í láréttri stöðu í sófanum á nýársdag yfir endursýndum annálum! 🙂
Uppskrift:
- 1-1½ brieostur eða annar góður ostur
- sulta, t.d. hindberjasulta, chilisulta eða önnur góð sulta sem passar við osta
- 1 pakki tilbúið frosið smjördeig
- 1 egg
- 1 msk mjólk
- hnífsoddur salt
Ofn hitaður í 190 gráður undir og yfirhita. Egg, mjólk og salt þeytt létt saman. Dreift úr smjördeigsplötunum og þær látnar þiðna (tekur ca. 15 mínútur). Þá eru plöturnar smurðar vel með eggjahrærunni (hún er „límið“ sem lokar bitunum) og síðan er hver plata skorin í 6-8 jafna ferninga. Osturinn skorin í stóra bita (næst ætla ég að hafa þá stærri en á myndinni hér að ofan því deigið er það mikið) og ostabiti lagður ofan á annan hvern ferning. Því næst er sett passlega mikil sulta ofan á ostbitana. Þá er hinn helmingurinn af smjördeginu lagður ofan á og samskeytin lokuð vel með gaffli allan hringinn. Bitunum er raðað á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver biti er svo smurður með eggjahrærunni og þeir síðan bakaðir í miðjum ofni við 190 gráður í 12-14 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir (það er allt í lagi þótt það leki svolítið úr þeim).