Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Innbakaður brie með sultu í smjördeigi


BrieÍ gær áttum við skemmtilegan dag með bæði leikhúsferð og bíóferð. Um daginn fórum við fjölskyldan saman í Þjóðleikhúsið og skemmtum okkur dátt yfir Dýrunum í Hálsaskógi. Um kvöldið fórum svo við hjónin ásamt Vilhjálmi í bíó á Life of Pi. Ég var búin að lesa bókina sem er frábær og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Mér fannst mikið afrek að geta gert svona frábæra bíómynd eftir þessari sögu sem er sannarlega ekki auðveld að kvikmynda. Í dag erum við að fara í jólaboð en fyrst ætla ég að setja inn eina uppskrift hingað á bloggið.

Brie

Ég hef áður talað um dálæti mitt á ostum og ég er stöðugt á höttunum eftir góðum uppskriftum með ostum í. Um daginn þegar við fórum á jólaball gerði ég einfaldan og góðan ostarétt til að setja á hlaðborðið. Þetta er innbakaður brie með sultu í smjördeigi. Einfalt og gott! Rétturinn er langbestur heitur en það er líka hægt að bera hann fram kaldan. Tvennt þarf að hafa í huga. Annars vegar að það er allt í lagi þó að það „blæði“ aðeins osti og sultu út um degið við baksturinn og hitt er að passa að setja nóg af osti og sultu. Þó svo að ostbitinn virðist stór í byrjun þá bráðnar hann við bökunina. Í þetta sinn notaði ég hindberjasultu og blandaða sultu en næst ætla ég að prófa að nota chilisultu sem mér finnst svo góð með ostum. Þessi smáréttur sómar sér vel með freyðivíninu á gamlárskvöld! Nú eða hafa til að maula í láréttri stöðu í sófanum á nýársdag yfir endursýndum annálum! 🙂

Uppskrift:

  • 1-1½ brieostur eða annar góður ostur
  • sulta, t.d. hindberjasulta, chilisulta eða önnur góð sulta sem passar við osta
  • 1 pakki tilbúið frosið smjördeig
  • 1 egg
  • 1 msk mjólk
  • hnífsoddur salt

IMG_6326IMG_6328Ofn hitaður í 190 gráður undir og yfirhita. Egg, mjólk og salt þeytt létt saman. Dreift úr smjördeigsplötunum og þær látnar þiðna (tekur ca. 15 mínútur). Þá eru plöturnar smurðar vel með eggjahrærunni (hún er „límið“ sem lokar bitunum) og síðan er hver plata skorin í 6-8 jafna ferninga. Osturinn skorin í stóra bita (næst ætla ég að hafa þá stærri en á myndinni hér að ofan því deigið er það mikið) og ostabiti lagður ofan á annan hvern ferning. Því næst er sett passlega mikil sulta ofan á ostbitana. Þá er hinn helmingurinn af smjördeginu lagður ofan á og samskeytin lokuð vel með gaffli allan hringinn. Bitunum er raðað á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver biti er svo smurður með eggjahrærunni og þeir síðan bakaðir í miðjum ofni við 190 gráður í 12-14 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir (það er allt í lagi þótt það leki svolítið úr þeim).

IMG_6330

Baka með sætum kartöflum


Sætar kartöflur eru í raun alls óskyldar venjulegum kartöflum. Þær eru upprunnar frá Suður Ameríku og hafa verið ræktaðar í nokkur þúsund ár. Þær eru stútfullar af C- og E-vítamíni auk beta-karótíns og eru þar með ríkar af andoxunarefnum. Að auki hafa sætar kartöflur lágan blóðsykurstuðul. En síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar og það er hægt að matreiða þær á margvíslegan hátt. Þessi ljúffenga sætukartöflubaka er það matarmikil að hana er hægt að flokka sem grænmetisrétt og hún passar afar vel sem aðalréttur með góðu salati. En við fyrsta bita þá hugsaði ég samt strax um kalkún! Auðvitað fara sætar karöflur og kalkúnn saman eins og hönd í hanska og þó svo að rétturinn sé á mörkunum að vera of matarmikill til að hægt sé að flokka hann sem meðlæti þá ætla ég samt að prófa hann með kalkún við fyrsta tækifæri. Það tækifæri kemur reyndar fyrr en varir þar sem Elfar og kollegar ásamt mökum halda kalkúnaboð árlega og í ár verður boðið hjá okkur. Þó enn séu rúmir tveir mánuðir í boðið er ég strax farin að skipuleggja í huganum forrétt, meðlæti og eftirétti! 🙂

Uppskrift:

  • 2-3 sætar kartöflur
  • 1 pakki smjördeig, afþýtt
  • 200 gr sýrður rjómi
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • 1/2 tsk salt
  • 1 krukka fetaostur
  • 2-3 msk salatblanda (hnetu- og fræblanda)
  • nýmalaður pipar
  • 4 msk parmesanostur, rifinn
  • 2 msk olía

Hitið ofninn í 200 gráður. Pakkið sætu kartöflunum í álpappír og bakið þær í 40 mínútur eða þar til þær eru næstum bakaðar í gegn. Þar sem ég er óþolinmóð og alltaf í tímaþröng þá skar ég hverja kartöflu í ca. þrjá bita og bakaði þær þannig, þá gat ég stytt bökunartímann. Ef þið notið Findus smjördeig, 5 plötur, þá eru þær afþýddar, lagðar á hveitstráð borð og samskeytin lögð ofan á hvert annað. Deigið er svo flatt út dálítið þannig að það passi í eldfast mót. Fóðrið botn og hliðar á eldfasta mótinu (20×30 cm) með smjördeiginu, látið 3 cm deigkant vera allan hringinn. Blandið sýrðum rjóma, eggi, eggjarauðu og salti saman. Smyrjið blönduna yfir deigið. Afhýðið kartöflurnar, skerið í bita og setjið ofan á blönduna. Sigtið olíuna frá fetaostinum og dreifið honum yfir kartöflurnar. Sáldrið salatblöndu, nýmöldum pipar og parmesanosti ofan á. Penslið deigkantana með olíu. Bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið. Berið fram með góðu salati.