Súkkulaðiterta með bananakremi


Súkkulaðiterta með bananakremi

Ég get varla beðið eftir því að setja inn uppskriftina af þessari tertu hingað á síðuna! Ég held að flestar fjölskyldur eigi í handraðanum uppskrift að tertu eða köku sem hefur fylgt þeim lengi og er bökuð við hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni. Árið 1971 fékk mamma þessa uppskrift frá bekkjarsystur sinni í þáverandi Fósturskóla Íslands. Þessi terta hefur verið bökuð við ófáar skírnir, fermingar og afmæli í fjölskyldunni okkar í meira en 40 ár og er alltaf jafn vinsæl. Það er langt síðan ég hef bakað tertuna en ég hafði hana í afmælinu hennar Jóhönnu Ingu um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér hversu dásamlega góð mér þykir hún! Ég skreyti tertuna alltaf eins og mamma gerði ávallt – með rjóma úr rjómasprautu og niðursoðnum perum. Mér finnst það alveg ómissandi! 🙂 Þessa tertu verðið þið bara að prófa!

Súkkulaðiterta með bananakremi

Uppskrift, botnar:

  • 4 egg
  • 200 g. sykur
  • 1 dl hveiti
  • 2 msk kakó
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft

 Ofn hitaður í 180 gráður við blástur. Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum blandað varlega saman við með sleikju. Tvö smelluform (24 cm) smurð að innan. Deiginu er skipt á milli formanna tveggja og bakað við 180 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kantarnir á botnunum eru farnir að losna aðeins frá formunum. Botnarnir eru látnir kólna alveg áður en bananakremið er sett á milli botnanna.

 Bananakrem:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 70 g. flórsykur
  • 4 bananar, stappaðir

Smjör og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt. Þá er stöppuðum banönum bætt út í. Gott er að kæla kremið dálítið áður en það er sett á milli botnanna.

Súkkulaðikrem ofan á:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 100 g. flórsykur
  • 120 g. suðusúkkulaði
  • 1 egg
  • 1 tsk. vanillusykur

Til skreytingar:

  • þeyttur rjómi
  • niðursoðnar perur

 Smjöri, flórsykri og egg þeytt saman. Súkkulaðið er brætt og kælt aðeins áður en því er hellt saman við blönduna. Kreminu er smurt ofan á tertuna og á hliðarnar. Það er fallegt að skreyta tertuna með þeyttum rjóma og niðursoðnum perum.

IMG_7068

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi


Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremiAfmælisveisluþema: froskurinn Kermit!

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

Í dag héldum við upp á níu ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Við þau tímamót áttaði ég mig á því að það eru ekki svo mörg ár eftir hjá mér í barnaafmælisgeiranum sem er dálítið skrítin tilfinning eftir að hafa verið í 20 ár í þeim geira!

IMG_7014

Jóhanna Inga er afar hrifin af Prúðuleikurunum og langaði að hafa Kermit þema í afmælinu.

IMG_6946

Ég fann enga slíka afmælisdiska en það er líka miklu skemmtilegra að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn (*hóst* þ.e. gúggla!). Ég notaði einfalda græna plastdiska og skeiðar úr Partíbúðinni með litlum hvítum servíettum. Ég keypti líka glös í stíl en notaði þau sem poppílát fyrir hvern og einn gest. Glösin skreytti ég með grænum kreppappír sem var klipptur út eins og kraginn hjá Kermit – Elfar er svo góður með skærin að hann var settur í það verkefni.

IMG_6952

Þegar ég ætlaði að nota sama kreppappírinn til þess að klæða appelsínflöskurnar var Jóhanna ekki nógu sátt því hún taldi þetta alls ekki rétta litinn á Kermit. Mamma vinkonu Jóhönnu sem er kjólameistari og snillingur á saumavélina bjargaði okkur með því að sauma svona fínan strokk úr teygjuefni utan um flöskurnar í rétta græna litnum (samkvæmt Kermit-sérfræðingnum, afmælisbarninu!). Jóhanna Inga klippti svo út augu, teiknaði á þau og límdi á strokkinn. Heliumskorturinn var liðinn hjá og við keyptum nokkrar grænar og hvítar blöðrur með helíum í partíbúðinni.

IMG_7004

Veitingarnar voru auðvitað líka í stíl við Kermit. Ég bjó til afmælisköku með mynd af Kermit (kökuuppskriftin hér).

IMG_6969

Pabbinn á heimilinu útbjó ávaxtaspjót og bjó til Kermit úr epli. Hann notaði sykurpúða fyrir augu sem Jóhanna Inga teiknaði á með matarlitapenna úr Allt í köku í Ármúla og jarðaber fyrir munn.

IMG_6947

IMG_6955

Einnig bakaði ég muffins með grænu kremi. Ég notaði Mentos fyrir augu og Jóhanna Inga teiknaði á það augu matarlitarpennanum. Afar auðvelt í framkvæmd en gefur skemmtilegar muffins.

IMG_6948

IMG_7092

Að auki voru pizzasnúðar í boði og svo auðvitað eplakaka sem er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu fyrir utan hinar kökurnar og brauðréttina fyrir fullorðna fólkið.

IMG_6994

Ég veit varla hvaða uppskrift ég ætti að setja hér inn fyrst en ég byrja á muffins kökunum. Þær eru afskaplega einfaldar en mjög bragðgóðar. Þetta er góður muffinsgrunnur sem hægt er að nota einan og sér eða bæta við t.d. eplabitum sem velt hefur verið upp úr kanelsykri, bláberjum eða öðrum berjum, súkkulaðibitum eða hverju því sem hugurinn girnist. Kremið er afskaplega hentugt fyrir lituð krem og býsna gott, galdurinn við hvað það er bragðgott held ég að sé sírópið!

Uppskrift (gefur 20 muffins):

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 dl mjólk

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið er brætt og látið kólna, þá er mjólkinni bætt út í. Egg og sykur er þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, lyftidufti og vanillusykri blandað saman. Þessari þurrblöndu er blandað smátt og smátt út í eggjablöndunum á víxl við smjör/mjólkurbönduna. Deiginu er skipt á milli um það bil 20 muffins forma (fer eftir stærð) en formin eiga að vera fyllt til 2/3. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Smjörkrem með vanillu:

  • 150 g smjör (við stofuhita)
  • 200 g flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk síróp
  • matarlitur

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Ef kremið á að hafa lit er matarlitnum bætt út í að síðustu. Smyrjið kreminu á kaldar muffins. Ef útbúa á frosk líkt og á myndunum þá er, grænn matarlitur settur í kremið og hvítt Mentos notað fyrir augu. Það er teiknað á augum með svörtum matarlits penna úr Allt í köku, Ármúla.

IMG_7098

IMG_7075

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum


Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég kemst auðveldlega í gegnum daginn án þess að borða sætmeti. En svo kemur kvöldið og óvægin fígúra tekur líf mitt í sínar hendur! Í stuttu máli gengur þetta svona fyrir sig. Ég byrja daginn vel, mig langar bara í hollan og góðan mat og kaupi meðvitað ekkert sætmeti inn á heimilið. Þar sem ég í makindum mínum og blásakleysi lýk við kvöldmatinn og er reiðubúin að njóta kvöldsins án nokkurs sætmetis, ryðst sætindapúkinn óboðinn inn á mitt stofugólfið með heimtufrekju og læti! Ég segi það og skrifa, ég ræð ekkert við þessa ótemju! Ég hef lent í ófáum ævintýrum vegna púkans sem tekur yfir líf mitt þegar rökkva tekur. Fyrir alllöngu þegar ég bjó í Svíþjóð þá ruddist púkinn fyrirvaralaust heim til mín eitt kvöldið eins og svo oft áður (hann virðir engin landamæri!). Líkt og gísl með Stokkhólmsheilkennið æddi ég af stað út í hraðbanka á hjóli (ég var bíllaus) til þess að taka út pening. Eina sjoppan í nágrenni við mig tók nefnilega ekki kort og það sem meira var þá lokaði hún á afar ókristilegum tíma, klukkan 21. Auðvitað hafði púkinn, jafn ófyrirleitinn og hann er, ákveðið að derra sig þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í níu! Eitthvað tautaði ég áhyggjuorð yfir því að ég myndi ekki pin-númerið á debetkortinu mínu. Púkinn hló upp í opið geðið á mér að þessari fátæklegu afsökun og píndi mig til þess að reyna að rifja upp pin-númerið þrisvar í hraðbankanum – þar með átti ég ekkert debetkort lengur! Í fáti og örvæntingu rótaði ég í veskinu mínu og fann vísakortið sem ég notaði sjaldan. Púkinn hafði komið mér algjörlega úr jafnvægi, ég steingleymdi að nokkru áður taldi ég mig hafa týnt vísakortinu og lét bankann loka því. Hraðbankinn gleypti því vísakortið líka með bestu lyst við fyrstu tilraun. Þar sem ég stóð móð og másandi eftir hjólasprettinn við hraðbankann, korta- og peningalaus og mændi örvæntingafull yfir götuna á sjoppuna sem verið var að loka, tók ég ákvörðun! Ég ætlaði að rísa upp gegn púkanum, gefa honum táknrænan kinnhest og tilkynna að hann stjórnaði ekki lífi mínu lengur hringja í Elfar í vinnuna og biðja hann um að koma við í sjoppunni sem var opin allan sólarhringinn á leið sinni heim af kvöldvaktinni!

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Það eina góða við púkann er að það þarf lítið til að gleðja hann, skömmina þá arna! Mér nægir lítill moli til þess að reka hann heim til sín og þar með kem ég loksins að uppskrift dagsins! Ég var eitthvað að vandræðast með nafnið á henni. Mér datt í hug „hollustumolar“ en það getur vart talist annað en sjálfsblekking. Þessir molar eru ekki beint hollir, stútfullir af  kaloríum, en þeir eru kannski ekkert svo óhollir heldur. Í þeim er enginn viðbættur sykur, einungis hnetur, þurrkuð ber, kókosflögur, lífrænt hnetusmjör auk kókosolíu og 70% súkkulaðis. Þetta munngæti er sérlega fljótlegt að útbúa, dásamlega gott og allir púkar fara heim til sín eftir einn lítinn mola – svona bjarga ég kvöldunum (og kortunum!) mínum! 🙂

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Uppskrift:

  • 100 g 70% súkkulaði
  • ca. 120 g lífrænt hnetusmjör
  • 40 ml kókosolía
  • 100 g hnetur (ég notast við það sem ég á, hér notaði ég blöndu af heslihnetum, möndlum og kasjúhnetum.
  • 80 g þurrkuð ber (ég nota berjablöndu frá Líf sem í eru þurrkuð múlber, gojaber, bláber og blæjuber)
  • 80 g kókosflögur

Súkkulaði, kókosolía og hnetusmjör brætt saman í potti. Um leið allt er bráðnað saman er potturinn tekinn af hellunni og hnetum, berjum og kókosflögum bætt út í. Blandað vel saman. Hellt í form klætt bökunarpappír, særð formsins fer eftir því hversu þykka bita maður vill. Ég nota tvö brauðform en fylli bara annað til hálfs. Kælt í minnst klukkutíma. Þá stykkið skorið í bita.

IMG_6909

Geymist í ísskáp og nælt í einn bita á kvöldin til að halda sælgætispúkum frá! 🙂Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL


Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Fyrr í sumar, á einum af þeim alltof fáu sólardögum sem við fengum, var ég með matarboð úti á palli fyrir vini sem eru á LKL matarræðinu. LKL þýðir lágkolvetnis lífstíl og gengur út á að lágmarka kolvetni verulega mikið í matarræðinu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Mér finnst lítið mál að finna matrétti sem henta LKL. Þar sem fæðið á að vera fituríkt þá er hægt að gera svo margt gott sem byggir á fitu og próteini. Hins vegar er aðeins flóknara að búa til eftirrétti fyrir LKL. Sykurinn er útilokaður í þessum lífsstíl en hann er jú að finna í flestum hefðbundnum eftirréttum. Hins vegar má nota rjóma og ákveðnar tegundir af berjum og 70% súkkulaði (í hófi). Ég bjó til LKL eftirrétt um daginn sem var ákaflega góður og einfaldur, súkkulaðifrauð, uppskriftin er hér. Að þessu sinni bjó ég til pannacotta sem er eftirréttur upprunninn frá Ítalíu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Pannacotta  er vanillubúðingur en nafnið þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó, súkkulaði eða kardimommu. Kjúklingarétturinn sem ég gerði fyrir matarboðið var samrunni nokkurra kjúklingarétta héðan af síðunni sem heppnaðist býsna vel.

Hindberjapannacotta f. 4-6

  • 5 dl rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 2  blöð matarlím
  • ½ dl sukrin sætuefni (fæst í Krónunni m.a)

Hindberjasósa:

  • 200 g hindber (ég notaði frosin)
  • 1 msk vatn
  • 3 tsk sukrin
  • örlítill sítrónusafi (ein sprauta úr gulu sítrónubrúsunum) – má sleppa

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í 5 mínútur. Vanillustöngin er klofin og fræin sett í pott ásamt stönginni og rjómanum. Blandan er soðin í 1-2 mínútur án þess að rjóminn brenni við. Þá er potturinn tekinn af hellunni. Mesta bleytan er kreist úr matarlíminu og því bætt út í pottinn ásamt sukrini. Hrært þar til hvor tveggja er uppleyst, þá er vanillustönginn veidd upp úr og blöndunni er hellt í 4-6 skálar. Látið kólna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hindberasósan er sett á.

Hindberjasósan: Hindberin (afþýdd) eru sett í pott ásamt sukrin og vatni, blandan látin ná suðu, hrært vel á meðan. Sítrónusafa bætt út í. Það er hægt að gera sósuna sléttari með því að nota töfrasprota. Ef maður vill þá er hægt að sigta sósuna til þess að losna við hindberjafræin. Sósan er látin kólna dálítið og henni er því næst hellt yfir pannacotta búðinginn og sett í ísskáp í dálitla stund áður en rétturinn er borinn fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og myntublöðum.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Beikonvafinn kjúklingur í bergmyntusósu LKL

  • ca. 900 g kjúklingabringur eða úrbeinuð kjúklingalæri
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 1 bréf beikon
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 4 dl rjómi
  • 2 tsk kjúklingakraftur
  • 30 g fersk bergmynta (oregano), blöðin söxuð smátt
  • 1 msk. balsamic edik
  • salt og pipar
  • Best á allt frá Pottagöldrum
  • oregano krydd

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, Best á allt og oregano. Því næst er hann vafinn með beikoni og steiktur á pönnu þar til beikonið hefur náð ágætum lit. Því næst er kjúklingurinn færður í eldfast mót. Ólífuolíu og/eða smjöri er bætt á pönnuna. Þá er sveppum og lauk bætt á pönnuna og steikt í smástund, hvítlauk bætt við. Því næst er rjóma bætt út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, balsamic edik og bergmyntunni. Leyft að malla í 1-2 mínútur og smakkað til með kryddunum. Að lokum er sósunni hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu og hitað við 200 gráður í ca. 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ég bar kjúklinginn fram með blómkáls- og brokkolígratíni, uppskriftin er hér.

IMG_9308

Auk þess smjörsteikti ég spínat, sú uppskrift er hér.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKLNjótið! 🙂

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Brownie-terta með ástaraldinfrauði


Brownie-terta með ástaraldinfrauði

Þegar bróðir minn kvæntist fyrir 10 árum buðu nýgiftu hjónin upp á dásamlega góða brúðartertu (frá Sandholt bakaríi að mig minnir) í brúðkaupsveislunni sinni. Mér hefur oft verið hugsað til þessarar köku síðan þá. Já, ég veit, það er smá klikkun en svona er ég með mat og kökur stöðugt á heilanum! 🙂 Ég var veislustjóri í veislunni þeirra og hafði lítinn tíma til að spá í tertuna en í henni var einhverskonar ástaraldinfrauð, súkkulaðibotn og fleira. Mér finnst ástaraldin ákaflega góð og nýti þau gjarnan í tertur og ýmisskonar eftirrétti. Ég man ekki eftir að hafa séð þau í Krónunni né í Bónus en yfirleitt eru þau til í Hagkaup og Nettó meðal annars. Þegar velja á ástaraldin þá á að velja þau aldin sem eru orðin dálítið krumpuð og dökkfjólublá. Ef ástaraldinið er slétt og ljóst þá er það ekki nægilega þroskað enn. 

ÁstaraldinÞegar ég sá uppskriftina af þessari tertu þá minnti hún mig á brúðartertuna forðum og ég bara varð að prófa. Botninn er browniekaka, því næst kemur frauð sem minnir mikið á ostaköku. Efsta lagið er ljúffengt hlaup gert úr ástaraldini. Þessi samsetning er gómsæt og ekki skemmir fyrir hvað tertan er litrík og falleg. Næst ætla ég að prófa að setja líka ferskt ástaraldin í sjálft frauðið, ég held að það sé afar gott.

IMG_1669

Brownie botn:

  • 110 g smjör
  • 2 1/4 dl sykur
  • 1 msk síróp
  • 2 egg
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1 dl kakó

Frauð:

  • 6 matarlímsblöð
  • 1 1/4 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 eggjarauður
  • 250 g mascarpone ostur
  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 1 stórt eða 2 lítil ástaraldin

Ástaraldinhlaup:

  • 3 stór eða 4 lítil ástaraldin
  • 2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 3 matarlím

IMG_1679

Botn:

Ofn hitaður í 175 gráður. Smjör, sykur og síróp er þeytt þar til það verður létt og ljóst. Eggjum bætt við einu í einu. Þá er hveiti, salti, vanillusykri og kakó bætt út og blandað vel saman við deigið. Smelluform (ca. 24 cm) er smurt að innan og deiginu helt í formið. Bakað í 20 mínútur og kakan látin kólna.

Frauð:

Sex matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan er rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er eggjarauðum, sykri og vanillusykri þeytt saman og svo er mascarpone ostinum bætt út og öllu vel blandað saman. Ávaxtasafinn er hitaður á vægum hita í potti. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er vökvanum bætt út í eggjablönduna. Að lokum er aldininu innan úr ástaraldininu ásamt rjómanum bætt út í og öllu hrært saman. Blöndunni er því næst dreift yfir kaldan brownie botninn. Mikilvægt er að ná yfirborðinu jöfnu með spaða. Kakan er sett í kæli þar til frauðið hefur stífnað.

Ástaraldinhlaup:

Þrjú matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. 1/2 dl af safanum er settur í pott og hitaður við vægan hita. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er afgangnum af safanum hellt út í pottinn. Ástaraldin ávextirnir eru skornir í tvennt, aldinið skafið innan úr með skeið og sett í skál. Vökvanum úr pottinum er því næst hellt í skálina og hrært saman. Hlaupið er látið kólna (tekur ca. 20-30 mínútur) áður en því er hellt yfir stífnað frauðið. Tertan er geymd í kæli í minnst fjóra tíma áður en hún er borin fram.

IMG_1671Njótið! 🙂

IMG_1684

Rósmarínkjúklingur með parmaskinku


Rósmarínkjúklingur með parmaskinku

Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.

IMG_1733

Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.

Uppskrift: 

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
  • 1 bréf parmaskinka
  • ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
  • 1 knippi ferskt rósmarín
  • 1 knippi fersk salvía
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl balsamedik
  • flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
  • grófmalaður svartpipar

IMG_1709

 Ofn hitaður í 180 gráður. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti og pipar. Ein lítil grein af salvíu og ein lítil grein af rósmarín er lögð inn í hvert læri og lærið hálfvafið utan um kyddjurtirnar. Því næst er parmaskinku vafið utan um kjúklinginn. Kjúklingurinn eru lagður í eldfast mót. Þá er ólífuolíunni og balsamedik blandað saman. Ég notaði dálítið af olíunni sem hvítlaukurinn lá í á móti ólífuolíunni. Blöndunni er dreift yfir kjúklinginn og því næst er hvítlauknum dreift yfir. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
IMG_1734
Athugið að þegar kjúklingsins er neytt þá eru kryddjurtirnar teknar frá.

Pizzasnúðakaka með piparosti og pepperóní


Pizzasnúðakaka með piparosti og pepperóní

Í dag ætla ég að gefa ykkur uppskrift (ef uppskrift skyldi kalla) að afskaplega einfaldri útgáfu af gómsætri pizzu sem ekkert þarf að hafa fyrir. Þetta byrjaði á því að ég sá mynd á Pinterest fyrir allnokkru af pizzamöffins sem voru bakaðir í möffinsformi. Einn daginn langaði mig til þess að bjóða krökkunum upp á eitthvað extra gott og ákvað að prófa mig áfram með svona pizzamöffins. Ég átti eina rúllu af tilbúnu pizzadeigi … já, þetta gerðist! 🙂 Halló, ég heiti Dröfn og er matarbloggari – ég keypti tilbúið pizzadeig! 😉 Ég hef oft skrifað hér á bloggið að gerdeig sé ákaflega fljótlegt og einfalt. Það er líka dagsatt! Hins vegar er ekki fljótlegt að bíða eftir hefingunni, gerdeigsbakstur þarf að skipuleggja. Þess vegna getur verið gott að grípa í tilbúið gerdeig ef naumur tími er til stefnu. Þegar til kastanna kom þá hvarf ég frá möffins hugmyndinni og þetta endaði allt saman í pizzasnúðaköku, nokkuð sem mér datt í hug þegar ég var að rúlla upp deiginu. Dásamlega djúsí og góð, krakkarnir geta ekki beðið eftir því að ég geri hana aftur!

IMG_6578

Uppskrift:

  • 1 rúlla tilbúið pizzadeig
  • 1 box rifinn piparostur
  • 150 g rifinn mozzarella ostur eða pizza ostur
  • pepperóní (ég notaði pepperóní pylsur sem ég skar niður)
  • pizzasósa
  • heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum

IMG_6559

Ofn hitaður í 200 gráður. Pizzasósunni er dreift yfir pizzudeigið. Því næst er pepperóní pylsunum dreift yfir ásamt ostinum. Kryddað með heitu pizzakryddi. Deiginu er rúllað upp frá langhliðinni. Deigrúllan er því næst skorin niður í jafnar sneiðar.

IMG_6564

Ofnplata er klædd bökunarpappír og einn snúður settur í miðjuna og þeim næstu raðað þétt í kringum hann. Fyrir þá sem vilja er hægt að dreifa extra osti yfir pizzasnúðakökuna áður en hún fer inn í ofninn.

IMG_6568

Bökuð í um það bil 20-25 mínútur eða þar til hún hefur tekið passlegan lit. Berið fram rjúkandi heita og njótið! 🙂

IMG_6571

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585