Ég get varla beðið eftir því að setja inn uppskriftina af þessari tertu hingað á síðuna! Ég held að flestar fjölskyldur eigi í handraðanum uppskrift að tertu eða köku sem hefur fylgt þeim lengi og er bökuð við hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni. Árið 1971 fékk mamma þessa uppskrift frá bekkjarsystur sinni í þáverandi Fósturskóla Íslands. Þessi terta hefur verið bökuð við ófáar skírnir, fermingar og afmæli í fjölskyldunni okkar í meira en 40 ár og er alltaf jafn vinsæl. Það er langt síðan ég hef bakað tertuna en ég hafði hana í afmælinu hennar Jóhönnu Ingu um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér hversu dásamlega góð mér þykir hún! Ég skreyti tertuna alltaf eins og mamma gerði ávallt – með rjóma úr rjómasprautu og niðursoðnum perum. Mér finnst það alveg ómissandi! 🙂 Þessa tertu verðið þið bara að prófa!
Uppskrift, botnar:
- 4 egg
- 200 g. sykur
- 1 dl hveiti
- 2 msk kakó
- 1 msk kartöflumjöl
- 1 tsk lyftiduft
Ofn hitaður í 180 gráður við blástur. Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum blandað varlega saman við með sleikju. Tvö smelluform (24 cm) smurð að innan. Deiginu er skipt á milli formanna tveggja og bakað við 180 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kantarnir á botnunum eru farnir að losna aðeins frá formunum. Botnarnir eru látnir kólna alveg áður en bananakremið er sett á milli botnanna.
Bananakrem:
- 100 g. smjör (mjúkt)
- 70 g. flórsykur
- 4 bananar, stappaðir
Smjör og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt. Þá er stöppuðum banönum bætt út í. Gott er að kæla kremið dálítið áður en það er sett á milli botnanna.
Súkkulaðikrem ofan á:
- 100 g. smjör (mjúkt)
- 100 g. flórsykur
- 120 g. suðusúkkulaði
- 1 egg
- 1 tsk. vanillusykur
Til skreytingar:
- þeyttur rjómi
- niðursoðnar perur
Smjöri, flórsykri og egg þeytt saman. Súkkulaðið er brætt og kælt aðeins áður en því er hellt saman við blönduna. Kreminu er smurt ofan á tertuna og á hliðarnar. Það er fallegt að skreyta tertuna með þeyttum rjóma og niðursoðnum perum.