Brie-bökuð ýsa með pistasíum


IMG_8698

Það er búið að vera svo annasamt hjá mér undanfarið að ég ákvað að panta Eldum rétt í síðustu viku. Í haust leyfði ég þeim að nota nokkrar uppskriftir frá mér en að því frátöldu hef ég engum hagsmunum að gæta og pantaði bara matinn frá þeim í síðustu viku eins og hver annar. Ég vildi bara taka þetta fram því ég ætla þvílíkt að hrósa þessari dásamlegu þjónustu og frábærlega góðum mat. 🙂 Réttirnir sem við fengum voru hver öðrum betri og ég  fékk leyfi frá þeim til að birta uppskriftirnar. Ég get ekki nógsamlega dásamað hversu þægilegt það er að fá tilbúin hráefni á þennan hátt. Að þurfa ekkert að hugsa fyrir innkaupum eða hvað eigi að hafa í matinn. Að þurfa einungis að taka fram úr ísskápnum vel merktan poka þar sem öll hráefni (brakandi fersk) eru tilbúin og það er því leikur einn, fljótlegt og hreinlegt að matreiða máltíðina. IMG_8695

Skemmtilegast er þó að prófa ný hráefni og uppskriftir sem manni hefði ekki dottið í hug að gera sjálfur. Kristín kokkur hjá Eldum rétt sannarlega rétt kona á réttum stað.  Þessi fiskréttur var sá fyrsti sem við prófuðum og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn hér á heimilinu. Steinseljurótarstappan var líka svo dásamlega góð með fisknum. Ég hef aðallega ofnbakað hana hingað til en ekki notað hana í stöppu – nú verður gerð bragarbót þar á. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér skrítið að Svíar borðuðu oft kartöflumús með fiski. Hins vegar er ég búin að komast að því að það er alls ekki svo galið, eiginlega er það ákaflega gott, sérstaklega að nota allskonar rótargrænmetastöppur með fiski. Hér er t.d. ein af mínum uppáhalds uppskriftum, það er einmitt fiskur og sætkartöflumús. En þar sem fiskurinn er mjúkur undir tönn líkt og kartöflustappan þá er gott að hafa eitthvað með sem gefur aðra áferð, í þessar uppskrift eru það pistasíu hnetur. Þetta er réttur sem ég ætla að elda fljótt aftur og hvet ykkur til þess að prófa – 5 stjörnu réttur!IMG_8697

Uppskrift f. 4:

  • 800 g ýsa (eða þorskur)
  • salt & pipar
  • 1 Bóndabrie (100 g)
  • 24 g pistasíur
  • 1 sítróna
  • 250 g steinseljurót
  • 300 g kartöflur
  • 100-140 g mjólk
  • ca. 70 g smjör
  • 170 grænar baunir
  • 100 g strengjabaunir
  • 2 tsk hungang
  • 2 tsk ólífuolía

Ofn hitaður í 190 gráður við blástur (eða 200 g við undir/yfirhita). Sjóðið 1 lítra vatni með saltklípu. Flysjið og skerið steinseljurót og kartöflur í litla bita. Sjóðið í vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til mjúkt. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót, saltaður og pipraður. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað yfir fiskinn. Pistasíur saxaðar og dreift yfir ásamt sítrónusafa úr 1/2 sítrónu. Smjörklípur settar hér og þar í formið. Bakað í ofni við 190 g blástur í um það bil 15 mínútur.

Vatninu hellt af rótargrænmetinu og það maukað saman með 100-140 ml af mjólki, smjöri og salti.  Strengjabaunir og baunir soðnar í ca. 2-3 mínútur. Hunang hrært saman við 2 tsk af olíu, smá salt og sítrónusafa. Baununum velt vel upp úr.

Berið fram með fisknum ásamt steinseljurótarmaukinu.

IMG_8700

Fiskréttur með beikoni, eplum og brie


Fiskréttur með beikoni, eplum og brieÞað er vika liðin síðan ég setti inn uppskrift hér á bloggið en það er ekki þar með sagt að ég hafi verið í fríi frá eldhúsinu, síður en svo. Í dag er ég búin að vera að prófa mig áfram með ýmsa rétti fyrir fermingarveisluna hans Vilhjálms og afraksturinn mun birtast á prenti síðar í vikunni. Að vanda hefur verið nóg að gera þessa helgi sem og aðrar. Í gær fór ég á skemmtilega barna- og unglingabókaráðstefnu í Gerðubergi auk þess sem við fjölskyldan fórum á afmælistónleika í tónskóla barnanna. Í gærkvöldi gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni þannig að við hjónin notuðum tækifærið og skruppum í bíó og tókum Vilhjálm með okkur. Lunginn úr deginum í dag fór í matargerð en við mæðgur fórum líka í skemmtilega fimm ára afmælisveislu. Eins og hendi væri veifað er helginni að ljúka og mánudagur á morgun! Mér finnst tilvalið að snæða góðan fisk á mánudögum og mæli með að þið prófið þessa ljúffengu fiskuppskrift á morgun! 🙂

IMG_4204

Uppskrift:

  • 900 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorskhnakka)
  • 4 msk hveiti
  • salt & pipar
  • chili krydd (ég notaði chili explosion)
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 3 græn epli, afhýdd og skorin í bita
  • 1 græn paprika, skorin í bita
  • 1 rauðlaukur, skorin í bita
  • ca. 10 sneiðar beikon
  • 200 g brie ostur (t.d. brie-hringur)
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Salti, pipar og chili kryddi er bætt saman við hveitið og fisknum velt upp úr hveitiblöndunni. Fiskurinn er því næst steiktur á pönnu á báðum hliðum í örstutta stund og raðað í eldfast mót. Beikonið er skorið eða klippt í litla bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt. Þá er beikonið veitt af pönnunni. Eplin, laukurinn og paprikan er því næst steikt upp úr beikonfitunni, þegar það er farið að mýkjast þá er brie osturinn brytjaður út á pönnuna og leyft að bráðna svolítið, saltað og piprað eftir smekk.

IMG_4195Beikoninu er svo bætt út á pönnuna og allri blöndunni dreift yfir fiskinn.

IMG_4197Að lokum er rifnum osti stráð yfir réttinn og hann settur í ofn við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_4202Þeim sem þykir sósa nauðsynleg verða ekki sviknir af því að bera fram þessa sósu með réttinum:

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • salt, pipar og smá chilikrydd

Öllu blandað vel saman með gaffli.

Fiskur i satay- og kókossósu


IMG_3876

Undanfarna daga hefur sólin skinið á daginn og skyndilega tekur tekur maður eftir því hversu mikið fyrr er farið að birta en áður og hversu lengi það er bjart – dásamlegt! 🙂 Í fyrrakvöld fórum við bókasafnsfræði-vinkonurnar í leikhús og sáum Óskasteina. Þetta er annað árið sem við kaupum okkar ársmiða í leikhúsið. Það er svo ágæt leið til þess að hittast reglulega eftir að við hættum að umgangast daglega frá því að náminu lauk. Við stöllur erum frekar harðir leikhúsgagnrýnendur og erum eiginlega alltaf sammála í dómum okkar. Óskasteinar fékk nú bara fremur háa einkunn frá okkur öllum og við skemmtum okkur mjög vel á sýningunni – mælum með henni!

Ég mæli líka sannarlega með þessum fiskrétti sem ég gef uppskrift að í dag. Ég elda fisk einu sinni í viku sem er alltof sjaldan fyrir minn smekk. En ég tek tillit til barnanna sem fá fisk tvisvar í viku í skólanum og einnig til þeirrar staðreyndar að yngsta barnið er allt annað en fiskunnandi svo vægt sé til orða tekið! Það er kannski ekki hefðbundið að nota satay sósu (hnetusósu) með fiski en svo ákaflega gott. Mér finnst pönnusteikt grænmeti algjört sælgæti og það smellpassar í þennan rétt. Það er svo mikið grænmeti í réttinum að ég var hvorki með kartöflur né hrísgrjón, þess þarf ekkert. Punkturinn yfir i-ið er svo smjörsteikta spínatið með hvítlauki. Ef þið hafið ekki prófað slíkt þá er kominn tími til! Ég prófaði að smjörsteikja spínat í fyrsta sinn þegar ég gerði þessa uppáhalds laxauppskrift. Síðan þá hef ég smjörsteikt spínat með öllum þeim matréttum sem mér dettur í hug. Sérstaklega er það þó gott með fiski. Spínat verður fljótt fremur „þreytt“ og óspennandi að nota í ferskt salat. Þá er upplagt að skella því þá pönnuna með til dæmis öðru grænmeti eða einu og sér. Hafa þarf þó eitt í huga, það verður sáralítið úr spínatinu þegar það er steikt. Heill 2-300 gramma poki passar  í litla skál eftir steikingu.

Uppskrift f. 4:

  • ca. 1100 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorsk), skorinn í hæfilega stóra bita
  • 200 g satay sósa
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 paprika, skorin í tenginga
  • 1 kúrbítur, skorinn í teninga
  • 3-4 stórar gulrætur, skornar í teninga
  • 1 rauðlaukur, skorinn í bita
  • lítill brokkolí haus, skorinn í bita
  • salt & pipar
  • 1 tsk grænmetiskraftur (má sleppa)
  • ólífuolía og/eða smjör til steikingar

IMG_3844

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænmetið er steikt á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu þar til það fer að mýkjast. Þá er satay sósunni og kókosmjólkinni bætt út á pönnuna og blandað saman við grænmetið. Öllu er svo hellt yfir í eldfast mót og meira smjör bætt út á pönnuna. Fiskurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á báðum hliðum í 1-2 mínútur. Því næst er fiskurinn lagður ofan á grænmetið í eldfasta mótinu. IMG_3846 Sett inn í ofn í 5-10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer mikið eftir þykkt fisksins). Borið fram með smjörsteiktu spínati með hvítlauki. IMG_3866

Smjörsteik spínat með hvítlauki:

  • 1 poki spínat (200 g)
  • 1 msk smjör
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð mjög smátt
  • salt & pipar

Spínatið og hvítlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

IMG_3848IMG_3852

Fiskur í satay- og kókossósuIMG_3855

Mexíkóskur fiskréttur


Mexíkóskur fiskréttur

Ég mun seint hætta að dásama íslenska fiskinn. Eftir langa dvöl erlendis þá lærir maður sérstaklega að meta þetta einstaka hráefni sem við höfum hér á landi. Ég er alltaf að reyna að matreiða fisk á þann hátt sem öllum í fjölskyldunni líkar þar sem að yngsta barnið hefur ekki enn „séð ljósið“ eins og við hinn þegar kemur að fiski. Mig langar samt ekki að búa til barnvænar uppskriftir sem fullorðna fólkinu líkar ekki þannig að ég er stöðugt að prófa mig áfram. Þessi útfærsla af fiskrétti er í sérstöku uppáhaldi því öllum í fjölskyldunni finnst hann ákaflega góður. Ekki finnst mér síðra hversu auðveldur hann er að útbúa. Það er vissulega hægt að nota allskonar fisktegundir en ég er sérstaklega hrifin af þorski um þessar mundir og lét Elfar koma við hjá fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni á leiðinni heim úr vinnunni. Þar klikkar fiskurinn aldrei og að þessu sinni kom Elfar heim með hnausþykkan og girnilegan þorskhnakka.

Uppskrift:

  • 1 kíló þorskur, ýsa eða annar góður fiskur
  • 1 stór rauð paprika, skorin í strimla
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 rauðlaukur, skorinn í strimla
  • 1 bréf Fajitas kryddmix
  • ca. 2/3 dl hveiti
  • ca. 150 g rjómaostur
  • ca 300 g salsa sósa
  • rifinn ostur (ég nota rifinn mozzarella ost)

Ofn hitaður í 200 gráður. Hér um bil öllu fajitas kryddinu er blandað saman við hveitið, ca. 1 tsk af kryddinu er geymt þar til síðar. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita og þeim velt mjög vel upp úr fajitas-hveitiblöndunni. Þá er fiskurinn steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu á öllum hliðum þar til fiskurinn hefur náð fallegri steikingarhúð. Þá er fiskurinn lagður í eldfast mót.

IMG_1136 Því næst er bætt við smjöri á pönnuna og sveppir, paprika og laukur sett á pönnuna, kryddað með restinni af fajitas kryddinu. Grænmetið er steikt í smá stund og því næst dreift yfir fiskinn.IMG_1139 Þá er rjómaostinum dreift yfir grænmetið.IMG_1141

Því næst er salsa sósunni dreift yfir.

IMG_1142Að lokum er rifna ostinum dreift yfir.IMG_1143 Sett inn í ofn og bakað við 200 gráður í ca 20 mínútur eða þar til osturinn hefur náð góðum lit og fiskurinn er eldaður í gegn. (Ég var með mjög þykka þorskhnakka sem þurftu langan tíma í ofninum en það þarf að miða bökunartímann út frá þykkt fisksins hverju sinni).IMG_1157Mexíkóskur fiskréttur, hrísgrjón og gómsætar baunaspírurnar frá Ecospiru á yndislega fallegum matardisk frá Green gate.

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Ofnbökuð blálanga í chili-rjómaostasósu


Þegar ég var á aldur við yngstu dóttur mína sagði ég við mömmu að þegar ég yrði fullorðin ætlaði ég aldrei hafa fisk í matinn! Ég stóð ekki við það! Reyndar þá var frekar lítið um að ég eldaði fisk þessi 15 ár sem við bjuggum í Svíþjóð, það var þá einna helst íslensk ýsa sem hægt var að kaupa frysta og svo ferskur lax. Eftir að við fluttum til Íslands finnst mér frábært að komast í góðar fiskbúðir. Ég kaupi aðallega fisk frá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni, þeir eru með ljúffengan fisk og veita góða þjónustu. Ég kaupi aldrei ýsu lengur, það er svo mikið til af öðrum góðum fisk. Í þessari uppskrift átti að vera smálúða en hún var ekki til. Ég keypti því blálöngu í staðinn. Hún er vissulega mjög ólík smálúðu sem er flatfiskur en blálangan er þéttur og frekar feitur fiskur. Langan kom vel út í þessum rétti en ég er spennt að prófa smálúðuna næst, hún er með sterku auðkennandi bragði og kemur örugglega enn betur út.

Uppskrift f.4

  • 1200 gr. smálúða
  • 4 skarlottulaukar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 rauður chili
  • 1 dós hrein jógúrt eða 200 gr. grísk jógúrt
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1/2 – 1 askja rjómaostur með svörtum pipar
  • 2 tsk sykur
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Aðferð:

Álpappír lagður á ofnplötu sem er penslaður með ólífuolíu og salti og pipar stráð yfir. Smálúðuflök lögð þétt saman á álpappírinn (smálúðan tekur pláss þar sem hún er flatfiskur og þarf því heila ofnplötu, ég notaði hins vegar eldfast mót þar sem að langan er umfangsminni). Skarlottulaukar, hvítlauksrif og kjarnhreinsaðan rauður chilli skorin niður fremur smátt og steikt upp úr 1 msk af jómfrúarolíu við fremur lágan hita í nokkrar mínútur, þannig verður laukurinn og chilliinn sætur og góður. Jógúrti, sýrðum rjóma og  rjómaosti með svörtum pipar bætt út í. Saltað og piprað og 2 teskeiðum af sykri bætt út í. Látið sósuna malla í smástund og hellið svo yfir fiskinn. Bakað við 200 gráður í 12 mínútur (15-20 mínútur fyrir þykkari fisk). Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflum ásamt salati og góðu brauði. Ég notaði ljúffengt spínat og klettasalat úr garðinum og glænýja íslenska kokteiltómata.

Ég get auðveldlega sleppt rauðvíni með steikum en það er eitthvað við góðan fisk svo ekki sé talað um sushi sem bara kallar á hvítvínsglas! Við hjónin fengum okkur því Reisling vín með matnum. Ég kann ekkert á vín og nota „hversu flott er myndin á flöskunni“ trikkið til að velja vín. Það er í raun ótrúlegt að vínframleiðendur nýti sér ekki þessa markaðssetningu betur því ég er handviss um að ég er ekki ein um þessa skotheldu aðferð! 🙂 En það er spurning hvort maður þurfi ekki að fara hugleiða að breyta um aðferð þegar heim er komið með vín þar sem stendur utan á flöskunni að þrúgurnar hafi verið ræktaðar í ,,hlidunum vid Týsku árnar í Týskalandi“! 🙂