Ofnbökuð blálanga í chili-rjómaostasósu


Þegar ég var á aldur við yngstu dóttur mína sagði ég við mömmu að þegar ég yrði fullorðin ætlaði ég aldrei hafa fisk í matinn! Ég stóð ekki við það! Reyndar þá var frekar lítið um að ég eldaði fisk þessi 15 ár sem við bjuggum í Svíþjóð, það var þá einna helst íslensk ýsa sem hægt var að kaupa frysta og svo ferskur lax. Eftir að við fluttum til Íslands finnst mér frábært að komast í góðar fiskbúðir. Ég kaupi aðallega fisk frá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni, þeir eru með ljúffengan fisk og veita góða þjónustu. Ég kaupi aldrei ýsu lengur, það er svo mikið til af öðrum góðum fisk. Í þessari uppskrift átti að vera smálúða en hún var ekki til. Ég keypti því blálöngu í staðinn. Hún er vissulega mjög ólík smálúðu sem er flatfiskur en blálangan er þéttur og frekar feitur fiskur. Langan kom vel út í þessum rétti en ég er spennt að prófa smálúðuna næst, hún er með sterku auðkennandi bragði og kemur örugglega enn betur út.

Uppskrift f.4

  • 1200 gr. smálúða
  • 4 skarlottulaukar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 rauður chili
  • 1 dós hrein jógúrt eða 200 gr. grísk jógúrt
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1/2 – 1 askja rjómaostur með svörtum pipar
  • 2 tsk sykur
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Aðferð:

Álpappír lagður á ofnplötu sem er penslaður með ólífuolíu og salti og pipar stráð yfir. Smálúðuflök lögð þétt saman á álpappírinn (smálúðan tekur pláss þar sem hún er flatfiskur og þarf því heila ofnplötu, ég notaði hins vegar eldfast mót þar sem að langan er umfangsminni). Skarlottulaukar, hvítlauksrif og kjarnhreinsaðan rauður chilli skorin niður fremur smátt og steikt upp úr 1 msk af jómfrúarolíu við fremur lágan hita í nokkrar mínútur, þannig verður laukurinn og chilliinn sætur og góður. Jógúrti, sýrðum rjóma og  rjómaosti með svörtum pipar bætt út í. Saltað og piprað og 2 teskeiðum af sykri bætt út í. Látið sósuna malla í smástund og hellið svo yfir fiskinn. Bakað við 200 gráður í 12 mínútur (15-20 mínútur fyrir þykkari fisk). Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflum ásamt salati og góðu brauði. Ég notaði ljúffengt spínat og klettasalat úr garðinum og glænýja íslenska kokteiltómata.

Ég get auðveldlega sleppt rauðvíni með steikum en það er eitthvað við góðan fisk svo ekki sé talað um sushi sem bara kallar á hvítvínsglas! Við hjónin fengum okkur því Reisling vín með matnum. Ég kann ekkert á vín og nota „hversu flott er myndin á flöskunni“ trikkið til að velja vín. Það er í raun ótrúlegt að vínframleiðendur nýti sér ekki þessa markaðssetningu betur því ég er handviss um að ég er ekki ein um þessa skotheldu aðferð! 🙂 En það er spurning hvort maður þurfi ekki að fara hugleiða að breyta um aðferð þegar heim er komið með vín þar sem stendur utan á flöskunni að þrúgurnar hafi verið ræktaðar í ,,hlidunum vid Týsku árnar í Týskalandi“! 🙂