Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

  • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 stór paprika skornar í bita
  • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
  • 1 msk ólífuolía
  • 1,5 l vatn
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • 2 msk tómatpúrra
  • salt & pipar
  • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
  • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
  • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720

Brie-bökuð ýsa með pistasíum


IMG_8698

Það er búið að vera svo annasamt hjá mér undanfarið að ég ákvað að panta Eldum rétt í síðustu viku. Í haust leyfði ég þeim að nota nokkrar uppskriftir frá mér en að því frátöldu hef ég engum hagsmunum að gæta og pantaði bara matinn frá þeim í síðustu viku eins og hver annar. Ég vildi bara taka þetta fram því ég ætla þvílíkt að hrósa þessari dásamlegu þjónustu og frábærlega góðum mat. 🙂 Réttirnir sem við fengum voru hver öðrum betri og ég  fékk leyfi frá þeim til að birta uppskriftirnar. Ég get ekki nógsamlega dásamað hversu þægilegt það er að fá tilbúin hráefni á þennan hátt. Að þurfa ekkert að hugsa fyrir innkaupum eða hvað eigi að hafa í matinn. Að þurfa einungis að taka fram úr ísskápnum vel merktan poka þar sem öll hráefni (brakandi fersk) eru tilbúin og það er því leikur einn, fljótlegt og hreinlegt að matreiða máltíðina. IMG_8695

Skemmtilegast er þó að prófa ný hráefni og uppskriftir sem manni hefði ekki dottið í hug að gera sjálfur. Kristín kokkur hjá Eldum rétt sannarlega rétt kona á réttum stað.  Þessi fiskréttur var sá fyrsti sem við prófuðum og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn hér á heimilinu. Steinseljurótarstappan var líka svo dásamlega góð með fisknum. Ég hef aðallega ofnbakað hana hingað til en ekki notað hana í stöppu – nú verður gerð bragarbót þar á. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér skrítið að Svíar borðuðu oft kartöflumús með fiski. Hins vegar er ég búin að komast að því að það er alls ekki svo galið, eiginlega er það ákaflega gott, sérstaklega að nota allskonar rótargrænmetastöppur með fiski. Hér er t.d. ein af mínum uppáhalds uppskriftum, það er einmitt fiskur og sætkartöflumús. En þar sem fiskurinn er mjúkur undir tönn líkt og kartöflustappan þá er gott að hafa eitthvað með sem gefur aðra áferð, í þessar uppskrift eru það pistasíu hnetur. Þetta er réttur sem ég ætla að elda fljótt aftur og hvet ykkur til þess að prófa – 5 stjörnu réttur!IMG_8697

Uppskrift f. 4:

  • 800 g ýsa (eða þorskur)
  • salt & pipar
  • 1 Bóndabrie (100 g)
  • 24 g pistasíur
  • 1 sítróna
  • 250 g steinseljurót
  • 300 g kartöflur
  • 100-140 g mjólk
  • ca. 70 g smjör
  • 170 grænar baunir
  • 100 g strengjabaunir
  • 2 tsk hungang
  • 2 tsk ólífuolía

Ofn hitaður í 190 gráður við blástur (eða 200 g við undir/yfirhita). Sjóðið 1 lítra vatni með saltklípu. Flysjið og skerið steinseljurót og kartöflur í litla bita. Sjóðið í vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til mjúkt. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót, saltaður og pipraður. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað yfir fiskinn. Pistasíur saxaðar og dreift yfir ásamt sítrónusafa úr 1/2 sítrónu. Smjörklípur settar hér og þar í formið. Bakað í ofni við 190 g blástur í um það bil 15 mínútur.

Vatninu hellt af rótargrænmetinu og það maukað saman með 100-140 ml af mjólki, smjöri og salti.  Strengjabaunir og baunir soðnar í ca. 2-3 mínútur. Hunang hrært saman við 2 tsk af olíu, smá salt og sítrónusafa. Baununum velt vel upp úr.

Berið fram með fisknum ásamt steinseljurótarmaukinu.

IMG_8700