Brie-bökuð ýsa með pistasíum


IMG_8698

Það er búið að vera svo annasamt hjá mér undanfarið að ég ákvað að panta Eldum rétt í síðustu viku. Í haust leyfði ég þeim að nota nokkrar uppskriftir frá mér en að því frátöldu hef ég engum hagsmunum að gæta og pantaði bara matinn frá þeim í síðustu viku eins og hver annar. Ég vildi bara taka þetta fram því ég ætla þvílíkt að hrósa þessari dásamlegu þjónustu og frábærlega góðum mat. 🙂 Réttirnir sem við fengum voru hver öðrum betri og ég  fékk leyfi frá þeim til að birta uppskriftirnar. Ég get ekki nógsamlega dásamað hversu þægilegt það er að fá tilbúin hráefni á þennan hátt. Að þurfa ekkert að hugsa fyrir innkaupum eða hvað eigi að hafa í matinn. Að þurfa einungis að taka fram úr ísskápnum vel merktan poka þar sem öll hráefni (brakandi fersk) eru tilbúin og það er því leikur einn, fljótlegt og hreinlegt að matreiða máltíðina. IMG_8695

Skemmtilegast er þó að prófa ný hráefni og uppskriftir sem manni hefði ekki dottið í hug að gera sjálfur. Kristín kokkur hjá Eldum rétt sannarlega rétt kona á réttum stað.  Þessi fiskréttur var sá fyrsti sem við prófuðum og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn hér á heimilinu. Steinseljurótarstappan var líka svo dásamlega góð með fisknum. Ég hef aðallega ofnbakað hana hingað til en ekki notað hana í stöppu – nú verður gerð bragarbót þar á. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér skrítið að Svíar borðuðu oft kartöflumús með fiski. Hins vegar er ég búin að komast að því að það er alls ekki svo galið, eiginlega er það ákaflega gott, sérstaklega að nota allskonar rótargrænmetastöppur með fiski. Hér er t.d. ein af mínum uppáhalds uppskriftum, það er einmitt fiskur og sætkartöflumús. En þar sem fiskurinn er mjúkur undir tönn líkt og kartöflustappan þá er gott að hafa eitthvað með sem gefur aðra áferð, í þessar uppskrift eru það pistasíu hnetur. Þetta er réttur sem ég ætla að elda fljótt aftur og hvet ykkur til þess að prófa – 5 stjörnu réttur!IMG_8697

Uppskrift f. 4:

  • 800 g ýsa (eða þorskur)
  • salt & pipar
  • 1 Bóndabrie (100 g)
  • 24 g pistasíur
  • 1 sítróna
  • 250 g steinseljurót
  • 300 g kartöflur
  • 100-140 g mjólk
  • ca. 70 g smjör
  • 170 grænar baunir
  • 100 g strengjabaunir
  • 2 tsk hungang
  • 2 tsk ólífuolía

Ofn hitaður í 190 gráður við blástur (eða 200 g við undir/yfirhita). Sjóðið 1 lítra vatni með saltklípu. Flysjið og skerið steinseljurót og kartöflur í litla bita. Sjóðið í vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til mjúkt. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót, saltaður og pipraður. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað yfir fiskinn. Pistasíur saxaðar og dreift yfir ásamt sítrónusafa úr 1/2 sítrónu. Smjörklípur settar hér og þar í formið. Bakað í ofni við 190 g blástur í um það bil 15 mínútur.

Vatninu hellt af rótargrænmetinu og það maukað saman með 100-140 ml af mjólki, smjöri og salti.  Strengjabaunir og baunir soðnar í ca. 2-3 mínútur. Hunang hrært saman við 2 tsk af olíu, smá salt og sítrónusafa. Baununum velt vel upp úr.

Berið fram með fisknum ásamt steinseljurótarmaukinu.

IMG_8700

Karrífiskur með kasjúhnetum og banönum


Karrífiskur með banönum og kasjúhnetumÍ gær kveiktum við á fyrsta kertinu, spádómskertinu, í aðventukransinum sem ég bjó til auk þess sem við kveiktum á dagatalskertinu. Þó ég sé mikið jólabarn þá slær yngsta  skottið (9 ára) mig út, hún er alveg að missa sig af jólaspenningi og hennar eina áhyggjuefni þessa dagana er að það verði ekki hvít jól. Ekki þarf hún að hafa áhyggjur af jólagjöfum, hún föndraði nefnilega jólagjafir fyrir alla stórfjölskylduna og pakkaði þeim inn í október!

IMG_1700

Ég ætla að færa inn fiskuppskrift hingað á síðuna í dag sem er svo framúrskarandi góður. Sumarið 1992 skráði ég í gömlu uppskriftabókina mína uppskrift að karrífisk sem ég fékk hjá samstarfsfélaga mínum í Íslandsbanka þar sem ég var í sumarvinnu. Í uppskriftinni er meðal annars fiskur, karrí, bananar og rjómi. Ljúffengur réttur sem Elfar hefur sérstaklega haldið upp á í gegnum tíðina. Í dag, 21 ári seinna, hef ég breytt uppskriftinni svo mikið að í raun og veru er þetta alls ekki sama uppskrift lengur en í grunninn er enn fiskur, karrí og bananar. IMG_1261

Holl og góð hráefni

Mér finnst þessi fiskréttur einkar góður. Það finnst ekki öllum gott að nota banana í heita rétti en mér finnst sérlega gott að fá sæta bananabragðið á móti karríbragðinu. Ég þreytist ekki á að dásama brakandi fersku og ljúffengu Ecospírurnar en þær eru fullkomnar sem meðlæti með svona góðum fiskrétti.

Uppskrift:

  • 1 kíló góður hvítur fiskur, hér notaði ég lönguhnakka
  • salt og pipar
  • 200 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsaður og saxaður smátt
  • 1-2 tsk karrí
  • 1 msk rifið ferskt engifer
  • 1/2 límóna (lime) – safinn
  • 4 msk mango chutney
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 1-2 bananar, skornir í sneiðar
  • 125 kasjúhnetur
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt, fiskurinn skorinn í hæfilega stóra bita, hann kryddaður með salti og pipar og raðað í mótið. Olía sett á pönnu og paprika, sveppir og chili steikt þar til það verður mjúkt og kryddað með karrí. Engifer, mango chutney, limesafi og kókosmjólk bætt við á pönnuna og látið malla í stutta stund, sósan smökkuð til og ef til vill bætt við meira af mango chutney, limesafa eða kryddum.IMG_1264

Bananasneiðum raðað ofan á fiskinn, fjöldinn fer eftir smekk hvers og eins. Karrísósunni hellt ofan á (varlega svo að bananarnir haldist ofan á fisknum). IMG_1263Að lokum er rifnum osti og kasjúhnetum dreift yfir.IMG_1271 Bakað í ofni í ca. 20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.IMG_1277Njótið!
IMG_1288