Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

 • 1 msk smjör til steikingar
 • 1 lítill laukur, saxaður fínt
 • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
 • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
 • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
 • 3 gulrætur, rifnar gróft
 • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
 • 3 tsk karrí
 • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
 • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
 • 900 gr kjúklingabringur
 • hvítur pipar
 • salt
 • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.

63 hugrenningar um “Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer

 1. mmmmmm……ég elska súpur og þessi er mjög girnileg ! Prófa hana við fyrsta tækifri 🙂

 2. Þessi súpa hljómar jafn dásamlega og allt annað hjá þér Dröfn. Ég get ekki beðið eftir að prófa 🙂
  Kram, Svava.

 3. Vá hvað þetta verður í matinn heima hjá mér í kvöld … og líka Vigdísi og Haddý … Uppskriftin gengur hér á milli okkar 🙂

   • uuhh var full sterk. Það var ekki til chili í Krónunni, keypti þurrkað og var svo með niðursoðna tómata m/chili og það var full mikið af því góða – rauk alveg úr börnun en bragðið var ljúffengt. Var aftur borðuð í hádeginu en þarf að fylgja betur uppskriftinn næst 😉

 4. Dröfn, ég prófaði súpuna í gærkveldi og var að enda við að klára afganginn núna og ég elska þessa súpu.. nammi nammi….
  Ég passaði mig reyndar að hafa aðeins hálft lítið chilli og hreina niðursoðna tómata en síðan bragðbætti ég hana bara aðeins til með meira salti, svörtum pipar og svona hvítlaukspúrru og tómatpúrru úr túpu. Hún varð allavega ekkert of sterk en börnin þurftu að drekka aðeins meira með en vanalega 🙂 Já, og ég minnkaði rjómann um helming og setti smá vatn í staðinn…. sorrý 🙂
  En þvílík dásemdar súpa og skemmir ekkert fyrir að hún er holl og kraftmikil.

  • Dásamlegt að heyra Sjöfn! 🙂 Gaman að heyra þína útfærslu á súpunni, ég reyni að jafna mig á þessu með rjómann! 😉

 5. Ég hugsa að ég bjóði fjölskyldunni upp á þessa á afmælisdaginn hans Frosta á mánudaginn 🙂

 6. hvað er þetta fyrir marga, þarf að gefa 10 manns að borða… hljómar æðislega þessi súpa

  • Við náðum þessari í ca. 6-7 skálar minnir mig. Ég myndi tvöfalda þessa uppskrift fyrir 10, ég vil alltaf hafa nóg af mat! 🙂 En þó það sé afgangur þá er þessi súpa jafnvel enn betri daginn eftir þannig að það kæmi ekki að sök!

 7. Bakvísun: Brauðbollur með gulrótum og kotasælu og Eldhússögur í Mogganum | Eldhússögur

 8. Hæhæ, þessi súpa hljómar rosa ljúffeng, hlakka til að prófa. Ein aulaspurning frá mér, ég hef aldrei sett bringur í súpu, hversu lengi þurfa bringurnar að vera til að sjóði í gegn? Hef reyndar heldur aldrei gert súpu frá grunni, svo það verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst.

  • Sæl Halla Björk! Engin spurning er aulaspurning! 🙂 Kjúklingabitarnir eru fljótir að eldast í gegn, þurfa ekki að malla meira en 10 mínútur. Veiddu þá einn bita upp úr og skerðu í tvennt. Ef hann er hvítur að innan (ekki bleikur) þá er kjúklingurinn tilbúinn. Gangi þér vel! 🙂

 9. Bakvísun: Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos | Eldhússögur

 10. Besta supa sem eg hef buid til.var soldid sterk hja mer ,en var med syrdan rjoma med,,,gedveikt,tessi verdur sko i næsta saumó:)

 11. fékk þessa í afmæli í vikunni, hrikalega góð! svo er ég búin að heyra af henni í amk 2 saumaklúbbum, held þú sért kortér í heimsfrægð með bloggið þitt, til hamingju!

 12. fékk þessa súpu í boði um daginn og fannst hún dásamlega góð. Er með stórfjölsk. í mat og ætla pottþétt að bjóða uppá þessa ljúffengu súpu frá þér Dröfn 🙂

 13. Bakvísun: Naan brauð Auðar | gullagylfa

 14. Sæl Dröfn,

  mig langaði til að þakka þér fyrir að deila með okkur uppskriftunum af þessari karríkjúklingasúpu og gulrótarbollunum, þetta er frábær matur og passar vel saman.
  Ég fylgist alltaf vel með hérna á blogginu þínu og dáist að hvað þú ert dugleg að setja inn uppskriftir og myndir þó þú sért einnig að sinna krefjandi námi og fjölskyldunni auðvitað.
  Hlakka til að sjá hvað þú býður upp á árið 2013 🙂

  • Þakka þér fyrir hrósið Gulla, mikið vermir það að fá svona góða kveðju! 🙂 Ég stefni á gott matarár 2013, gaman að þú ætlir að fylgjast með! 🙂 Gleðilegt ár!

 15. Bakvísun: Ostakökubrownie með hindberjakremi | Eldhússögur

 16. Er að elda þessa súpu núna örugglega í 10 skiptið 🙂 Með bestu súpum sem að ég hef smakkað og er nú mikil súpukona 🙂 Takk fyrir allar þessa frábærtu uppskriftir

 17. Sæl,
  Langar til að prófa þessa súpu, hvaða tegund af karrý ertu að nota?
  Kv, Linda

  • Sæl Linda! Ég nota nú bara hefðbundið karrí í þessa súpu. Vona að þér líki súpan! 🙂

   • Takk fyrir. Eldaði súpuna fyrir afmæli í gær 12-13 lítra og hún kláraðist öll 🙂 Frábær súpa!

 18. Takk æðislega fyrir frábæra uppskrift! Þessi súpa er alveg dásamlega góð!
  Ég hafði hana vel sterka með nóg af chili 😉

 19. Frábær og bragðgóð súpa!
  Takk fyrir að deila þessari uppskrift sem og öðrum 🙂

 20. Sæl
  Rakst á þessa síðu á vísi og fannst allt svo rosalega girnilegt
  Prúfaði þessa súpu og þar að auki brauðið með olivunum og sólþurrkuðu tómutunum með.
  Alveg æðislegt saman, þessi verður pottþétt gerð aftur á þessu heimili 🙂
  Setti stóran heilan chili í þetta… og bætti cayenna pipar við og hún varð bara frábær alls ekki of sterk 🙂

 21. Þetta er alveg ótrúlega góð súpa! Takk fyrir mig! 🙂
  Mér fannst hún mega vera sterkari svo ég fór að þínum ráðum og bætti við chilipaste og cayenne pipar, þykkti hana pínulítið með maizena (var með frostinn matreiðslurjóma, held það sé þess vegna sem hún varð svolítið þunn fyrst) og setti hálfa dós í viðbót af kókosmjólk.
  Setti svo slettu af sýrðum rjóma í hverja skál. Namm namm.
  Svo er afgangur í kvöld 😀

 22. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

 23. Margar girnilegar uppskriftir hjá þér og þessa verð ég að prófa. Dóttir mín er með mjólkuróþol, er í lagi að sleppa matreiðslurjómanum og hafa bara meiri kókosmjólk í staðin?

 24. Hæ ég setti þína og mína uppskrift saman. bætti við: rauðri paprikku rifin, chillisósu, líka chillisósu sterk Heinz var að ger stóra uppskrift, ein dós af stórum rjómaosti, mikið karrý og hún er geggjuð 🙂

 25. Er í lagi að nota bara venjulegan kjúklingakraft sem er þegar í vökvaformi?
  Ef ekki hvað ertu að nota marga teninga skil ekki alveg uppskriftina

  • Kjúklingakraftur kemur bæði í dufti, teningum og fljótandi formi (t.d. í litlu flöskunum frá Oscar). Allar þessar tegundir af krafti þarf að blanda við sjóðandi eitt vatn þannig að úr verði kjúklingasoð. Í þessari uppskrift nota ég 700 ml vatn og leysi upp 3 tsk af kjúklingakrafti í duftformi í vatninu. Ef ég notaði teninga þá nota ég 2 teninga út í 700 ml af vatni og ef ég er með kjúklingakraft í fljótandi formi þá nota ég 2/3 dl og bæti því í 700 ml af vatni.

 26. Alveg æðisleg súpa, hafði hana ekki of sterka útaf strákunum mínum. En jiminn hvað hún er góð og yngsti 2ára sagði ummmmmm hvað þetta er góð súpa. Hlakka til að borða afganginn í hádeginu á morgunn 🙂

 27. Þessi er súpa er algjörlega ÐE SÚP of súps! Alveg svakalega góð og stóðst allar væntingar og meira til. Sló alveg í gegn ! Mesta nýjungin hjá mér í þessar súpugerð var að nota grænu eplin og ferskt chilli, hef aldrei gert það áður og svei mér þá ef þetta slær ekki út rótargrænmetisgrunnin út 🙂 Takk kærlega fyrir að deila henni, það er alveg yndilegt að detta niður á svona hrikalega góða súpuuppskrift.

 28. Þessa súpu gerði ég síðustu helgi og var hún dásamlega góð 🙂 Einu skiptin sem ég geri eitthvað í eldhúsinu þá er það frá þér Dröfn. Kos og klem fra Norge

 29. Hellú, eg eg ætla að vera tímanlega og elda súpuna daginn áður, ætti eg að klàra súpuna alveg og hita upp eða kannski gera allt fram að kjúklingnum og hita svo súpuna upp daginn eftir og setja þà kjúklinginn í?

 30. Bakvísun: GA?msA�t kjA?klingasA?pa meA� eplum, karrA� og engifer | Hun.is

 31. Þetta er mín uppáhaldssúpa, býð oft upp á hana, þegar koma gestir og hún slær alltaf í gegn! Passa mig alltaf á að búa til of mikið, svo ég geti borðað hana aftur næsta dag og eða sett í frysti og geymt til næstu viku😎

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.