Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos


Mig langaði til að útbúa kjúklingarétt í anda kjúklingasúpunnar góðu en sem væri meira eins og pottréttur. Ég ákvað að nota hráefni sem mér þykir gott, setti „dash“ af þessu og hinu og útkoman varð dásamlega góð! Ég reyndi þó að mæla hvað ég setti í réttinn því ég lendi oftar en ekki í vandræðum hér blogginu þegar ég þarf að skrifa nákvæmlega upp mælieiningar og aðferðir á réttum sem ég bý til. Hér voru nokkrir vinir barnanna í mat þannig að við vorum níu sem borðuðum og að auki varð afgangur. Ég gef hins vegar upp magn hér að neðan sem er fyrir færri, kannski 4-5. Hér lendi ég aftur í vandræðum, mér finnst mjög erfitt að áætla hvað réttirnir duga fyrir marga! Einn vinur okkar hjóna segir að ég eldi alltaf eins og fyrir heilt kínverskt þorp! 🙂 Það eru nú kannski ýkjur en við, fullorðni hlutinn af fjölskyldunni allavega, borðum öll eins og hestar! 😉 Að auki er mín versta martröð að maturinn dugi ekki fyrir þá sem borða! Þið sem prófið réttina megið því gjarnan skilja eftir skilaboð hvað magnið dugar fyrir marga hjá ykkur!

Uppskrift f. ca. 5

 • smjör eða olía til steikingar
 • 1 kíló kjúklingabringur eða kjúklingalundir, skornar í bita
 • 1 púrrlaukur, saxaður
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 2 epli, flysjuð og skorin í bita
 • 1 tsk karrí
 • 1 tsk kjúklingakraftur (eða 1/2 tengingur)
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 2 dl matreiðslurjómi (líka hægt að nota kaffirjóma eða hefðbundinn rjóma)
 • 4-5 msk mango chutney
 • 1 bréf beikon (ég notaði extra þykkt frá Ali)
 • salt og pipar
 • kjúklingakrydd eftir smekk
 • sósujafnari (eða maizena mjöl)
 • 1-2 dl kasjúhnetur, gróft saxaðar
 • 1-2 dl kókosmjöl

Beikoni er raðað á ofngrind með ofnplötu beint undir, þannig rennur umframfita á ofnplötuna. En ef manni langar ekki að skrúbba ofngrind og ofnplötu er hægt að raða beikoninu á ofnplötu með smjörpappír undir. Þá rennur fitan ekki af beikoninu og því þarf að þerra það mjög vel þegar það er tilbúið. Bakað í ofni á blástri við 200 gráður í ca. 12-14 mínútur eða þar til beikonið er mátulega stökkt. Þá er það tekið úr ofninum, raðað á eldhúspappír og meiri eldhúspappír settur ofan á. Pappírnum er þrýst vel ofan á beikonið og öll umfram fita þerruð í burtu. Beikonið er svo skorið, klippt eða rifið í bita. Auðvitað má líka steikja beikonið á pönnu. Mér finnst ofn-aðferðin samt mikið þægilegri og þá er hægt að byrja á því að útbúa sjálfan kjúklingaréttinn á meðan beikonið er í ofninum.

Gróft saxaðar kasjúhnetur eru ristaðar á þurri pönnu við háan hita, hrært stöðugt í þeim,  þar til þær hafa náð lit, þá er þeim hellt í skál.

Kókosmjöl er ristað á þurri pönnu við háan hita, stöðugt hrært í kókosmjölinu, þar til það hefur náð góðum lit, þá er því hellt í skál.

Setjið olíu eða klípu af smjör á pönnu og steikið púrrlauk og hvítlauk í stutta stund, gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið kjúklingi út í, saltið og piprið, kryddið með karrí og kjúklingakryddi. Steikið þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit, bætið eplunum út í og steikið í ca. mínútu í viðbót. Ef pannan er lítil er gott á þessum tímapunkti að færa réttinn frá pönnunni yfir í stóran pott. Þá er bætt út í mango chutney, kókosmjólk, rjóma, sýrðum rjóma auk kjúklingakrafts. Að auki er beikoni (sem hefur verið steikt og skorið í bita) bætt út í. Réttinum leyft að malla í ca. 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Sósan smökkuð til með salti, pipar og/eða karrí. Til að þykkja sósuna er hægt að nota sósujafnara eða hræra smá maizena mjöl út í vatn, hella því svo út í sósuna og láta suðuna koma upp, leyfa svo réttinum að malla í dálitla stund í viðbót þar til sósan hefur þykknað. Rétturinn er borinn fram með ristuðu kókosmjöli, ristuðum kasjúhnetum (jafnvel líka sýrðum rjóma) auk hrísgrjóna eða kúskús (ég notaði kúskús). Gott er einnig að bera fram ferskt salat sem inniheldur ferskt mangó.

22 hugrenningar um “Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos

 1. Ég gerði þennan rétt í gærkvöldi, sló svo sannarlega í gegn. Ekkert smá góður. Takk fyrir uppskriftina 🙂

 2. Stórfjölskyldan í mat í kvöld. Rétturinn fékk einróma lof. Gott eins og allt sem ég hef prófað undanfarið. Enda var spurningin þegar sest var að borðum “ Er líka þessi réttur af VEFNUM“?

 3. Bakvísun: Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni | Eldhússögur

 4. Þessi réttur var eldaður í Malmö í gærkvöldi, virkilega góður! Takk fyrir góðan vef og skemmtilegar uppskriftir.

 5. smakkaði þennan rétt í saumó í gærkveldi,við erum 7 og fannst öllum hann æði!
  ég vissi ekki af þessari síðu þá…enn uppáhalds núna 🙂 takk fyrir að deila þessu með okkur 😉

  • En hvað þetta gleður mig Ingunn! 🙂 Takk fyrir að skrifa kveðju til mín og vonandi áttu eftir að finna fleiri uppskriftir hér á síðunni sem þú getur notað. 🙂

 6. Gerði þetta í kvöld – ég, bóndinn, börn og tengdasonur öll mjög glöð með matinn. Verður pottþétt gert oftar 🙂 Notaði reyndar blandaða bita í stað bringna (nánast fulleldaði bitana í ofninum og hellti svo sósunni yfir síðasta kortérið – get vitnað um að það kemur mjög vel út líka). Takk fyrir okkur!

  • Takk fyrir það Hildigunnur og gaman að heyra af þinni útfærslu af réttinum! Svo er gaman að geta þess að ég les öðru hvoru bloggið þitt og hef gaman af, sérstaklega var gaman að lesa um Parísardvölina ykkar! Ég er svo hrifin af París! 🙂

 7. Bakvísun: Mangókjúklingur með Cashew hnetum og kókos « The Real Housewife Of Norðlingaholt

 8. Ég er búin að elda 3 kjúklingarétti í vikunni. Teir voru Allir alveg æði. Tessi sló í gegn hjá manninum mínum og honum fannst hann vera góður fyrir andann svona soul food. Takk fyrir Tessar himnesku uppskriftir.

 9. Ég prófaði þennan rétt um daginn og hann var einstaklega bragðgóður! Hann verður eldaður aftur fljótlega . Takk fyrir að deila öllum þessum girnilegu og góðu uppskriftum hérna.

 10. Eldaði þennan í kvöld, notaði heilan kjúkling sem ég úrbeinaði, átti ekki púrrulauk svo ég notaði venjulegan og bætti við sætum kartöflum og sveppum. Sjúklega gott, og hefði örugglega dugað fyrir ca 6. Get varla beðið eftir að geta borðað afganginn…

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.