Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos


Mig langaði til að útbúa kjúklingarétt í anda kjúklingasúpunnar góðu en sem væri meira eins og pottréttur. Ég ákvað að nota hráefni sem mér þykir gott, setti „dash“ af þessu og hinu og útkoman varð dásamlega góð! Ég reyndi þó að mæla hvað ég setti í réttinn því ég lendi oftar en ekki í vandræðum hér blogginu þegar ég þarf að skrifa nákvæmlega upp mælieiningar og aðferðir á réttum sem ég bý til. Hér voru nokkrir vinir barnanna í mat þannig að við vorum níu sem borðuðum og að auki varð afgangur. Ég gef hins vegar upp magn hér að neðan sem er fyrir færri, kannski 4-5. Hér lendi ég aftur í vandræðum, mér finnst mjög erfitt að áætla hvað réttirnir duga fyrir marga! Einn vinur okkar hjóna segir að ég eldi alltaf eins og fyrir heilt kínverskt þorp! 🙂 Það eru nú kannski ýkjur en við, fullorðni hlutinn af fjölskyldunni allavega, borðum öll eins og hestar! 😉 Að auki er mín versta martröð að maturinn dugi ekki fyrir þá sem borða! Þið sem prófið réttina megið því gjarnan skilja eftir skilaboð hvað magnið dugar fyrir marga hjá ykkur!

Uppskrift f. ca. 5

  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 kíló kjúklingabringur eða kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 púrrlaukur, saxaður
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 epli, flysjuð og skorin í bita
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk kjúklingakraftur (eða 1/2 tengingur)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl matreiðslurjómi (líka hægt að nota kaffirjóma eða hefðbundinn rjóma)
  • 4-5 msk mango chutney
  • 1 bréf beikon (ég notaði extra þykkt frá Ali)
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd eftir smekk
  • sósujafnari (eða maizena mjöl)
  • 1-2 dl kasjúhnetur, gróft saxaðar
  • 1-2 dl kókosmjöl

Beikoni er raðað á ofngrind með ofnplötu beint undir, þannig rennur umframfita á ofnplötuna. En ef manni langar ekki að skrúbba ofngrind og ofnplötu er hægt að raða beikoninu á ofnplötu með smjörpappír undir. Þá rennur fitan ekki af beikoninu og því þarf að þerra það mjög vel þegar það er tilbúið. Bakað í ofni á blástri við 200 gráður í ca. 12-14 mínútur eða þar til beikonið er mátulega stökkt. Þá er það tekið úr ofninum, raðað á eldhúspappír og meiri eldhúspappír settur ofan á. Pappírnum er þrýst vel ofan á beikonið og öll umfram fita þerruð í burtu. Beikonið er svo skorið, klippt eða rifið í bita. Auðvitað má líka steikja beikonið á pönnu. Mér finnst ofn-aðferðin samt mikið þægilegri og þá er hægt að byrja á því að útbúa sjálfan kjúklingaréttinn á meðan beikonið er í ofninum.

Gróft saxaðar kasjúhnetur eru ristaðar á þurri pönnu við háan hita, hrært stöðugt í þeim,  þar til þær hafa náð lit, þá er þeim hellt í skál.

Kókosmjöl er ristað á þurri pönnu við háan hita, stöðugt hrært í kókosmjölinu, þar til það hefur náð góðum lit, þá er því hellt í skál.

Setjið olíu eða klípu af smjör á pönnu og steikið púrrlauk og hvítlauk í stutta stund, gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið kjúklingi út í, saltið og piprið, kryddið með karrí og kjúklingakryddi. Steikið þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit, bætið eplunum út í og steikið í ca. mínútu í viðbót. Ef pannan er lítil er gott á þessum tímapunkti að færa réttinn frá pönnunni yfir í stóran pott. Þá er bætt út í mango chutney, kókosmjólk, rjóma, sýrðum rjóma auk kjúklingakrafts. Að auki er beikoni (sem hefur verið steikt og skorið í bita) bætt út í. Réttinum leyft að malla í ca. 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Sósan smökkuð til með salti, pipar og/eða karrí. Til að þykkja sósuna er hægt að nota sósujafnara eða hræra smá maizena mjöl út í vatn, hella því svo út í sósuna og láta suðuna koma upp, leyfa svo réttinum að malla í dálitla stund í viðbót þar til sósan hefur þykknað. Rétturinn er borinn fram með ristuðu kókosmjöli, ristuðum kasjúhnetum (jafnvel líka sýrðum rjóma) auk hrísgrjóna eða kúskús (ég notaði kúskús). Gott er einnig að bera fram ferskt salat sem inniheldur ferskt mangó.