Þá er enn eitt haustið runnið upp. Að vanda hef ég setið sveitt með stundaskrár barnanna og reynt að púsla saman skipulaginu. Eftir vinnu þarf að fara í píanótíma, gítartíma, tónfræði, sænsku, fermingafræðslu, badmington og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa leyst úr nokkrum árekstrum í stundatöflunni er allt orðið niðurnjörvað, prentað út, plastað og komið upp á ísskáp! Þó svo að það sé alltaf gott að komast í rútínu þá sakna ég þess að hafa ekki fengið almennilegt sumar í ár. Þá er nú gott að geta hlakkað til tveggja utanlandsferða í nánustu framtíð.
Þessi kjúklingaréttur sem ég ætla að setja inn uppskrift að í dag er feykilega einfaldur en svo dæmalaust góður. Mér líkar svo vel við svona fljótlega matrétti þar sem allt fer á eina pönnu og mallar þar. Yfirleitt forðast ég sólþurrkaða tómata því mér finnst bragðið af þeim oft verða of ríkjandi. Í þessum rétti njóta þeir sín hins vegar vel. Hér notaði ég fryst úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry og satt best að segja tók ég þau úr frystinum rétt áður en ég fór að elda. Ég setti þau inn í örbylgjuofn í nokkrar mínútur allra lægsta hitann, þannig fór mesta frostið úr þeim án þess þó að kjötið færi að eldast. Það er mjög þægilegt að skera niður kjúklingakjöt hálffrosið og það er líka allt í lagi að steikja bitana þó það sé smá frost í þeim enn.
Uppskrift:
- 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
- ólífuolía eða smjör til steikingar
- 2 msk sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir frá Paradiso
- 2 hvítlauksrif
- 3 msk mango chutney frá Patak’s
- 2 dl vatn
- 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
- 2 dl rjómi
- 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18%)
- 1 msk rifið engifer
- salt og grófmalaður svartur pipar
Kjúklingurinn er skorinn í bita, saltaður og pipraður og því næst steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu. Sólþurrkuðum tómötum (gott að taka svolítið með af olíunni sem þeir liggja í), hvítlauksrifjum og mango chutney er blandað vel saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er svo bætt út á pönnuna ásamt rjóma, sýðrum rjóma, engifer og kjúklingakrafti. Látið malla í um það bil 10 mínútur. Gott er að bera réttinn fram með kúskús eða hrísgrjónum, fersku salati og brauði.