Einfaldur kjúklingapottréttur í rjómasósu


Einfaldur kjúklingaréttur

Þá er enn eitt haustið runnið upp. Að vanda hef ég setið sveitt með stundaskrár barnanna og reynt að púsla saman skipulaginu. Eftir vinnu þarf að fara í píanótíma, gítartíma, tónfræði, sænsku, fermingafræðslu, badmington og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa leyst úr nokkrum árekstrum í stundatöflunni er allt orðið niðurnjörvað, prentað út, plastað og komið upp á ísskáp! Þó svo að það sé alltaf gott að komast í rútínu þá sakna ég þess að hafa ekki fengið almennilegt sumar í ár. Þá er nú gott að geta hlakkað til tveggja utanlandsferða í nánustu framtíð.

Þessi kjúklingaréttur sem ég ætla að setja inn uppskrift að í dag er feykilega einfaldur en svo dæmalaust góður. Mér líkar svo vel við svona fljótlega matrétti þar sem allt fer á eina pönnu og mallar þar. Yfirleitt forðast ég sólþurrkaða tómata því mér finnst bragðið af þeim oft verða of ríkjandi. Í þessum rétti njóta þeir sín hins vegar vel. Hér notaði ég fryst úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry og satt best að segja tók ég þau úr frystinum rétt áður en ég fór að elda. Ég setti þau inn í örbylgjuofn í nokkrar mínútur allra lægsta hitann, þannig fór mesta frostið úr þeim án þess þó að kjötið færi að eldast. Það er mjög þægilegt að skera niður kjúklingakjöt hálffrosið og það er líka allt í lagi að steikja bitana þó það sé smá frost í þeim enn.

IMG_6741

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • ólífuolía eða smjör til steikingar
  • 2 msk sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir frá Paradiso
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk mango chutney frá Patak’s
  • 2 dl vatn
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18%)
  • 1 msk rifið engifer
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Kjúklingurinn er skorinn í bita, saltaður og pipraður og því næst steiktur  á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu. Sólþurrkuðum tómötum (gott að taka svolítið með af olíunni sem þeir liggja í), hvítlauksrifjum og mango chutney er blandað vel saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er svo bætt út á pönnuna ásamt rjóma, sýðrum rjóma, engifer og kjúklingakrafti. Látið malla í um það bil 10 mínútur. Gott er að bera réttinn fram með kúskús eða hrísgrjónum, fersku salati og brauði.

IMG_6744

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu


Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu
Ég er alltaf að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem ég get notað gúllasið sem ég pantaði af býli. Ókosturinn við gúllas er að oft þarf að elda það mjög lengi eða láta það liggja í maríneringu lengi, það hentar illa fyrir upptekið fólk eins og mig. Þessi réttur er hins vegar fremur fljótlegur og kjötið naut sín vel, virkilega góður réttur! Það er hægt að stjórna hversu sterkur rétturinn er með karrímaukinu. Ég gef upp þrjár matskeiðar í uppskriftinni en það gerir réttinn sterkan, það er því gott að prófa sig áfram með magnið. Raita jógúrsósan er dásamlega góð, hún gefur jafnvægi við kryddið og kallar betur fram góða bragðið.
Uppskrift:
  • 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
  • 4 msk olía
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 2 msk rifið ferskt engifer
  • 5 lárviðarlauf
  • 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
  • 1,5 msk garam masala
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 msk mango chutney
  • 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
  • 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
  • 2-3 tómatar, skornir í bita
Kjötið er steikt á pönnu upp úr olíunni þar til það hefur náð dálitlum lit. Þá er lauknum og hvítlauknum bætt út í og steikt áfram. Því næst er engifer, lárviðarlaufum (þau eru svo fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram), currypaste, garam masala, tómatpúrru og mango chutney bætt út í og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Allt er svo flutt yfir í pott, vatni bætt út, lok sett á pottinn og látið malla í 30-40 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt. Þegar um það bil 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er paprikunni og tómötunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, salati, mango chutney og raita jógúrtsósu.
IMG_0152
Raita jógúrsósa:
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Indverskur kjúklingur í jógúrtkarrísósu


IMG_7443Mér finnst indverskur matur afskaplega góður en ég er frekar ódugleg við að búa til slíka rétti frá grunni. Það er aðallega langur hráefnislisti sem fælir mig frá og þá oft að í uppskriftunum eru hráefni sem ég á ekki til. Þennan rétt fann ég í Gestgjafanum og mér fannst hann frekar einfaldur að sjá, ég átti meira að segja allt í hann fyrir utan negulnagla og kardimommur.

IMG_7425

Það var skemmtilegt og auðvelt að laga réttinn og ilmurinn var dásamlegur. Ekki var bragðið síðra, ofsalega ljúffengur réttur. Sósan er kölluð karrísósa þó svo að í henni sé ekkert karrí. Nanna Rögnvaldar skýrir þetta svona út:

„Karríduft er kryddblanda sem er reyndar fundin upp á Vesturlöndum en fékkst ekki á Indlandi hér áður fyrr að minnsta kosti því allir notuðu bara sína eigin kryddblöndu. Ég man satt að segja aldrei eftir að hafa rekist á karríduft í alvöru indverskri uppskrift. Karrí – kari á tamílamáli – þýðir eiginlega kássa (grænmetis- eða kjötkássa) með sterku kryddi eða í kryddsósu.“ Í þessari kjúklinga-karrí uppskrift er því ekkert karríduft en hins vegar ýmis krydd sem eru gjarna notuð í slíka rétti (og í karríkryddblöndur) eins og kardimommur, negulnaglar, kanill og chili.

Uppskrift f. 3-4

  • 2-3 tsk olía (t.d. kókosolía)
  • 2 laukar, saxaðir gróft
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 negulnaglar
  • 2 kanilstangir
  • 4 svört piparkorn
  • 3 kardimommur, heilar
  • 1 bakki kjúklingalundir (ca. 600 g)
  • 3 tsk garam masala (krydd)
  • ca. 2 cm engiferrót, rifin
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð gróft eða rifin
  • 1-2 tsk salt
  • 1/2-1 tsk chiliduft
  • 1/2 – 1 dl möndluflögur
  • 1 dós hrein jógúrt (180 g)
  • 2 græn epli, afhýdd og skorin í grófa bita
  • ferskur kóríander

IMG_7426Hitið olíuna á pönnu og setjið út á pönnuna lárviðarlauf, negulnagla, kanilstangir, piparkorn og kardimommur í smástund. Bætið lauknum út í og steikið við vægan hita í 3-5 mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins en er ekki byrjaður að brúnast. Bætið kjúklingalundunum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur, bætið olíu á pönnuna ef með þarf. Setjið Garam masala, engiferrót, hvítlauk, salt, chiliduft og möndluflögur úr í og steikið í 2-3 mínútur. Lækkið hitann og hellið jógúrt út á og hrærið í nokkrar mínútur. Bætið eplunum saman við og látið malla undir loki í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Skreytið með ristuðum möndluflögum og ferskum kóríander. Berið fram með hrísgrjónum, fersku salati og Nanbrauði.

IMG_7447

Boeuf bourguignon


Jæja, þá er maður bara farinn að slá um sig með frönskum titlum! Boeuf bourguignon er þekktur franskur kjötréttur. Boeuf þýðir nautakjöt en bourguignon er héraðið Búrgúnd í Frakklandi og vísar til þess að kjötið er soðið í Búrgúnd rauðvíni. Mig hefur langað til að elda gúllas um tíma, það er líklega haustið sem hefur þessi áhrif. Þegar ég fór að skoða uppskriftir af gúllasi datt ég hvað eftir annað niður á uppskriftir af Boeuf bourguignon og varð að prófa. Gúllas er í raun allt annar réttur. Þá er átt við ungverskt gúllas sem í er meðal annars kartöflur, laukur og paprikukrydd. En orðið gúllas er hins vegar almennt notað hérlendis yfir alla pottrétti sem innihalda nautakjöti í bitum. Þetta er einfaldur réttur að útbúa og fljótgerður, þá meina ég að koma kjötréttinum í pottinn. Hins vegar þarf rétturinn að malla í allavega tvo tíma. Þetta er því upplagður réttur til að laga á laugardegi. Byrja snemma í eldhúsinu, kveikja á kertum, opna rauðvín og sötra þær dreggjar sem ekki fara í pottinn, á meðan beðið er eftir að ljúffengur kjötrétturinn verði tilbúinn. Þessi eldunaraðferð gerir kjötið ákaflega meyrt og gott. Já sko, að elda kjötið svona lengi meina ég, ekki að drekka rauðvín á meðan … þó hjálpar það örugglega líka! 🙂 Þó svo að strangt til tekið eigi að nota Búrgúnd rauðvín þá notaði ég nú bara það rauðvín sem við áttum hér heima. Það þarf ekki að óttast að sósan verði eitthvað áfeng, allt áfengið gufar upp á meðan kjötrétturinn mallar í þessa tvo tíma, eftir stendur bara ákaflega bragðgóð sósa! Með réttinum bjó ég til kartöflumús, ég elska kartöflumús! Ég geri hana á mjög hefðbundinn hátt, stappa kartöflurnar, bæti við mjólk, sykri, salti og smá pipar. Til hátíðarbrigða bæti ég stundum við smá rjómaosti. Að auki bjó ég til afar einfalt og gott hrásalat, mér finnst það passa mikið betur með svona rétti heldur en ferskt salat, uppskriftin fylgir hér að neðan.

Uppskrift f ca. 6:

  • 1.5 kg. nautakjöt, t.d. gúllas
  • 1 bréf beikon
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 250 gr sveppir, skornir í fjórðunga
  • 5-6 dl rauðvín
  • 4 msk tómatpúrra
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ca 3 msk smjör til steikingar
  • 3 msk hveiti
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk salt
  • 1 tsk timjan (þurrkað eða ferskt)
  • 1 tsk steinselja (þurrkuð eða fersk)
  • 1 tsk grófmalaður hvítur pipar
  • 1/2 dl rauðvínsedik

Beikonið er steikt, umfram fita þerruð af því og það skorið í bita. Pannan er ekki þvegin! Annar laukurinn (fínsaxaður) ásamt rauðvínsedik og pipar látið malla í stórum potti. Smjöri er bætt við á pönnuna sem beikonið var steikt á og kjötið brúnað. Síðan er kjötið fært yfir í pottinn (ásamt steikarvökvanum af pönnunni) og hveitinu sáldrað yfir kjötið. Tómatpúrru, hvítlauk, timjan, steinselju, kjötkrafti og salti bætt út í. Rauðvíninu er svo hellt út í. Lok sett á pottinn og kjötið látið malla í ca. tvo tíma.

Sveppir og laukur steikt á pönnu í smjöri og látið malla þar til vökvinn er gufaður upp. Sveppum og lauk síðan bætt út í kjötpottinn þegar um það bil hálftími er eftir af eldunartímanum. Á sama tíma er gott að smakka sósuna og bragðbæta með kryddum ef þarf.
Kjötrétturinn er borinn fram með kartöflumús eða kartöflum og heimatilbúnu hrásalati.
Heimatilbúið hrásalat:
  • 1/4 hvítkálshaus
  • 1/2 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman. Þetta hrásalat er líka ægilega gott með heilgrilluðum kjúkling! Þessi mynd er tekin í fallegu umhverfi Patreksfjarðar þar sem við dvöldum í viku síðastliðið sumar.

/>

Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos


Mig langaði til að útbúa kjúklingarétt í anda kjúklingasúpunnar góðu en sem væri meira eins og pottréttur. Ég ákvað að nota hráefni sem mér þykir gott, setti „dash“ af þessu og hinu og útkoman varð dásamlega góð! Ég reyndi þó að mæla hvað ég setti í réttinn því ég lendi oftar en ekki í vandræðum hér blogginu þegar ég þarf að skrifa nákvæmlega upp mælieiningar og aðferðir á réttum sem ég bý til. Hér voru nokkrir vinir barnanna í mat þannig að við vorum níu sem borðuðum og að auki varð afgangur. Ég gef hins vegar upp magn hér að neðan sem er fyrir færri, kannski 4-5. Hér lendi ég aftur í vandræðum, mér finnst mjög erfitt að áætla hvað réttirnir duga fyrir marga! Einn vinur okkar hjóna segir að ég eldi alltaf eins og fyrir heilt kínverskt þorp! 🙂 Það eru nú kannski ýkjur en við, fullorðni hlutinn af fjölskyldunni allavega, borðum öll eins og hestar! 😉 Að auki er mín versta martröð að maturinn dugi ekki fyrir þá sem borða! Þið sem prófið réttina megið því gjarnan skilja eftir skilaboð hvað magnið dugar fyrir marga hjá ykkur!

Uppskrift f. ca. 5

  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 kíló kjúklingabringur eða kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 púrrlaukur, saxaður
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 epli, flysjuð og skorin í bita
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk kjúklingakraftur (eða 1/2 tengingur)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl matreiðslurjómi (líka hægt að nota kaffirjóma eða hefðbundinn rjóma)
  • 4-5 msk mango chutney
  • 1 bréf beikon (ég notaði extra þykkt frá Ali)
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd eftir smekk
  • sósujafnari (eða maizena mjöl)
  • 1-2 dl kasjúhnetur, gróft saxaðar
  • 1-2 dl kókosmjöl

Beikoni er raðað á ofngrind með ofnplötu beint undir, þannig rennur umframfita á ofnplötuna. En ef manni langar ekki að skrúbba ofngrind og ofnplötu er hægt að raða beikoninu á ofnplötu með smjörpappír undir. Þá rennur fitan ekki af beikoninu og því þarf að þerra það mjög vel þegar það er tilbúið. Bakað í ofni á blástri við 200 gráður í ca. 12-14 mínútur eða þar til beikonið er mátulega stökkt. Þá er það tekið úr ofninum, raðað á eldhúspappír og meiri eldhúspappír settur ofan á. Pappírnum er þrýst vel ofan á beikonið og öll umfram fita þerruð í burtu. Beikonið er svo skorið, klippt eða rifið í bita. Auðvitað má líka steikja beikonið á pönnu. Mér finnst ofn-aðferðin samt mikið þægilegri og þá er hægt að byrja á því að útbúa sjálfan kjúklingaréttinn á meðan beikonið er í ofninum.

Gróft saxaðar kasjúhnetur eru ristaðar á þurri pönnu við háan hita, hrært stöðugt í þeim,  þar til þær hafa náð lit, þá er þeim hellt í skál.

Kókosmjöl er ristað á þurri pönnu við háan hita, stöðugt hrært í kókosmjölinu, þar til það hefur náð góðum lit, þá er því hellt í skál.

Setjið olíu eða klípu af smjör á pönnu og steikið púrrlauk og hvítlauk í stutta stund, gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið kjúklingi út í, saltið og piprið, kryddið með karrí og kjúklingakryddi. Steikið þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit, bætið eplunum út í og steikið í ca. mínútu í viðbót. Ef pannan er lítil er gott á þessum tímapunkti að færa réttinn frá pönnunni yfir í stóran pott. Þá er bætt út í mango chutney, kókosmjólk, rjóma, sýrðum rjóma auk kjúklingakrafts. Að auki er beikoni (sem hefur verið steikt og skorið í bita) bætt út í. Réttinum leyft að malla í ca. 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Sósan smökkuð til með salti, pipar og/eða karrí. Til að þykkja sósuna er hægt að nota sósujafnara eða hræra smá maizena mjöl út í vatn, hella því svo út í sósuna og láta suðuna koma upp, leyfa svo réttinum að malla í dálitla stund í viðbót þar til sósan hefur þykknað. Rétturinn er borinn fram með ristuðu kókosmjöli, ristuðum kasjúhnetum (jafnvel líka sýrðum rjóma) auk hrísgrjóna eða kúskús (ég notaði kúskús). Gott er einnig að bera fram ferskt salat sem inniheldur ferskt mangó.

Kjúklingur í sweet chili sósu


Það er gott að vera komin heim og í rútínu. Eða reyna að komast í rútínu allavega, ég er greinilega ekki alveg komin í gírinn! Mig langaði að elda kjúklingarétt með sweet chilisósu í kvöldmat í gærkvöldi og skoðaði ótal slíkar uppskriftir. Ég fann nokkrar sem mér leist vel á og ákvað að slá saman því besta úr þremur uppskriftum og búa til mína eigin. Ég skrifaði samviskusamlega innkaupalista en kom svo heim með bara hluta af því sem ég ætlaði að kaupa, heilinn enn í sumarfríi! Það átti því sér stað enn meiri spuni í eldhúsinu í gærkvöldi en áætlað var frá upphafi. Hins vegar lukkaðist þetta bara ljómandi vel og úr varð hinn ágætis kjúklingaréttur! Ég stefni hins vegar á að vera skipulagðari í matseðlagerð fyrir vikuna og í innkaupum. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð skipulagði ég alltaf vikumatseðil og verslaði inn fyrir vikuna. Hér á Íslandi er ég óduglegri við það. Ég held að það sé aðallega útaf tvennu, fjölskyldan er orðin svo stór (og það er seint hægt að segja að við séum matgrönn!) að vikuinnkaup kæmust aldrei fyrir í ísskápnum! Að auki þá kaupi ég allt öðruvísi inn hér en úti. Hér fer ég í fiskbúð einu sinni eða tvisvar í viku, kaupi kjöt í kjötbúðum og svo þarf ég oft að fara í margar verslanir til að fá þær vörur sem mig vantar. En ég reyni þó oftast að kaupa inn fyrir tvær eða þrjár kvöldmáltíðir í einu. Fyrstu sjö árin okkar í Svíþjóð vorum við blönk og áttum ekki bíl. Þá þurftu matarinnkaupin að komast í fjóra poka (svo allt kæmist undir barnavagninn), maturinn duga í viku og ekki kosta meira en 500 sek! 🙂 Það var mjög góður skóli í sparnaði og útsjónarsemi! Ég ætla sem sagt að hrista rykið af þeirri lexíu og markmiðið fyrir veturinn verður að skipuleggja matarinnkaupin betur!

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur eða einn teningur
  • 1 rauðlaukur, skorin smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • engifer, rifið, ca. 5 cm bútur
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 kúrbítur, skorinn í bita
  • 3-4 gulrætur, sneiddar
  • 2 dl sweet chilisósa
  • 1 tsk chilimauk
  • 1 ferna matargerðarjómi
  • 1 dós sýrður rjómi

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu, bætið við kjúklingakrafti, salti og pipar. Bætið lauk og hvítlauk út í ásamt papriku, kúrbít og gulrótum, chilimauki og engifer og steikið áfram. Þegar kjúklingur og grænmetið hefur tekið lit er hvor tveggja fært yfir í stóran pott (nema notuð sé þess stærri panna). Þá er matargerðarjóma, sýrðum rjóma og chilisósu bætt út í. Leyfið réttinum að malla í 15 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús.

Kjúklingapottréttur með mango chutney


Nú fer sumarfríið að líða undir lok, mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt! Við höfum gert afar margt skemmtilegt í sumarfríinu. Meðal annars eyddum við einni viku á Patreksfirði með stórfjölskyldunni, foreldrum mínum, ömmu og afa, bróður mínum og fjölskyldu hans ásamt Ingu frænku. Þar fengum við afnot af stóru, frábæru húsi og áttum afar góða viku saman. Fórum að Látrabjargi, Rauðasandi, í Selárdal og heimsóttum firðina í kringum Patró. Ég fékk það verkefni að elda á kvöldin ofan í okkur tólf sem mér fannst mjög skemmtilegt! Frábært að geta einbeitt sér að því að elda og þurfa aldrei að vaska upp né ganga frá! 🙂 Ég var löngu áður búin að setja niður matseðilinn og verslaði sem betur fer allt hráefnið í bænum en matvöruverðið á Patró var hræðilega hátt! Að auki var hvorki hægt að fá þar ferskan fisk né lambakjöt. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar ekki er hægt að kaupa ferskan fisk í útgerðabæjum! Á matseðlinum þessa viku var lasagna, lambalæri, fiskisúpa, lambafille, grillaður lax, hamborgarar og svo þessi kjúklingapottréttur. Ég hafði aldrei gert hann áður en rétturinn sló í gegn hjá öllum aldurshópum, mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. 4-5

  • 800 gr. kjúklingabringur kryddaðar með t.d. Best á allt, Töfrakryddi eða öðru góðu kjúklingakryddi (líka hægt að nota tilbúinn grillaðan kjúkling).
  • olía og smjör til steikingar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, skorin í bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð smátt
  • 2 græn epli, skræld og skorin í bita
  • lítil dós ananas, skorin í bita
  • 250 gr sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1.5 dl mangó chutney
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk sambal oelek (eða annað chilimauk)
  • 2-3 tsk karrý
  • 1/2 tsk chilipipar
  • 1 tsk  paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 4-5 dl hrísgrjón
  • rifinn ostur
  • kokteiltómatar

Aðferð

Hrísgrjónin soðin og þau látin kólna aðeins. Kjúklingabringur skornar í bita, steikar á pönnu og kryddaðar með kjúklingakryddi, lagðar til hliðar. Ef notaður er tilbúinn grillaður kjúklingur er kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í bita.

Smjör brætt í stórum potti, lauk, hvítlauk, púrrlauk, sveppum, eplum og papriku bætt út í ásamt karrý og steikt þar til grænmetið hefur mýkst.

Rjóma, sýrðum rjóma, kókosmjólk, sambal oelek, tómatpúrru, mangó chutney, ananas, paprikukryddi, chilipipar, paprikukryddi, salti og pipar bætt út í og látið krauma á vægum hita í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum út í og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Smakkið til og bætið við kryddi ef með þarf. Hellið hrísgrjónum í eldfast mót og dreifið úr þeim, hellið kjúklingasósunni yfir. Dreifið yfir rifnum osti og kokteiltómötum. Hitið í ofni við 200 gráður í ca 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Berið fram með salati og góðu brauði.

Oregano kjúklingaréttur með perlukúskús


Þegar ég bjó í Svíþjóð verslaði ég alltaf í ICA matvöruversluninni. Ohh, hvað ég sakna þess, vöruúrvalið var svo mikið! Hér þarf maður alltaf að fara í nokkrar verslanir til að fá þær vörur sem mann vantar og margt fæst alls ekki. Ísland hefur þó lambakjötið og sérstaklega fiskinn fram yfir Svíþjóð. En aftur að ICA! Verslunin sendi vikulega viðskiptavinum sínum heim tímarit um mat. Þar var meðal annars dálkur þar sem nokkrar fjölskyldur prófuðu tvær uppskriftir og gáfu álit sitt á þeim. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska allskonar dóma, einkunnir og gagnrýni! 🙂 Ég myndi til dæmis aldrei fara á hótel eða veitingastað sem ekki fær góða gagnrýni og háa einkunn frá gestunum! Allavega, þessi þáttur í blaðinu var í uppáhaldi hjá mér, ég klippti samviskusamlega út allar uppskriftir sem féllu fjölskyldunum vel í geð og setti í uppskriftabókina mína. Ég held að þessi kjúklingauppskrift sé mín uppáhalds úr þessum hópi uppskrifta.

Það sem mér finnst ótrúlegast og best við þessa uppskrift er hvað það þarf fá hráefni til að skapa ljúfengan rétt. Svo er þetta líka fljótlagaður og einfaldur réttur.

Í upphaflegu uppskriftinni eru hvorki sveppir né gulrætur en ég bæti þeim við. Eins er mælt með í uppskriftinni að hafa ofnsteika kartöflubáta sem meðlæti en mér finnst mikið betra að hafa hrísgrjón eða kúskús, þá nýtist bragðgóða sósan mikið betur. Hér notaði ég perlukúskús í fyrsta sinn (fæst í Hagkaup og í versluninni Tyrkneskur bazar). Það sló alveg í gegn, sérstaklega hjá krökkunum, ég mun nota það oftar. Það getur verið erfitt að fá ferskt oregano (bergmyntu). Ég kíki eiginlega alltaf eftir því í verslunarferðum og ef það er til, þá laga ég þennan rétt um kvöldið! Verið óhrædd að nota mikið af bergmyntunni, dragið laufin af stilknum og fínhakkið.

Uppskrift

  • 5 kjúklingabringur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 500 ml. matargerðarjómi
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • Nokkrar greinar af fersku Oregano (bergmyntu)
  • 1 1/2-2 msk. balsamic edik
  • Sveppir og gulrætur eftir smekk
  • Salt og pipar

Aðferð

  1. Skerið hverja kjúklingabringu á lengdina í þrjá bita. Hakkið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppi og gulrætur í bita. Hakkið oregano smátt (dragið blöðin af stilknum), í upprunalega uppskriftinni er talað um 3 matskeiðar af fersku oregano en mér finnst gott að nota mikið meira af því.
  2. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar (ég krydda auðvitað líka með uppáhalds kjúklingakryddinu mínu, Best á allt frá Pottagöldrum!) og steikið upp úr smjörinu og ólífuolíunni þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit. Bætið þá út í hvítlauk, sveppum og gulrótum og steikið í 2-3 mínútur í viðbót.
  3. Bætið út í rjóma, kjúklingakrafti, oregano og balsamic edik. Látið sjóða í 5-8 mínútur (undir loki ef þið eigið það til á pönnuna) eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til sósuna og bætið við salti, pipar eða jafnvel oregano kryddi við þörfum. Ef ég á ferska steinselju og/eða basiliku þá bæti ég því stundum í sósuna. Ef mér finnst of lítið af sósu drýgi ég hana með smá mjólk. Einnig er hægt að nota sósujafnara ef maður vill hafa sósuna þykkari.
  4. Berið fram með perlukúskús (eða hrísgrjónum) og salati eftir smekk.

Mango Chutney kjúklingaréttur


Þessi kjúklingaréttur er klassískur og til í mismunandi útgáfum. Ég geri yfirleitt eftirfarandi útgáfu en nota það grænmeti sem ég á hverju sinni. Það er líka hægt að nota t.d. papriku, púrrlauk og aðrar grænmetistegundir.

Hráefni:

  • Kjúklingabringur
  • Mango Chutney
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 peli rjómi
  • Rauðlaukur
  • Hvítlaukur
  • Sveppir
  • Gulrætur
  • Brokkolí

Meðlæti:

Hrísgrjón eða kúskús

  • Ristað kókosmjöl
  • Sýrður rjómi
  • Niðursneiddir bananar

Aðferð:

Rauðlaukur og hvítlaukur sneiddur smátt og steiktur á pönnu. Hvítlaukur þarf styttri steikingartíma en laukur. Það er því best að byrja á lauknum, bæta svo hvítlauknum út í, hafa háan hita og steikja í ca. hálfa mínútu. Eftir það brennur hvítlaukurinn auðveldlega. Ég tek svo laukinn og hvítlaukinn af pönnunni á meðan ég steiki grænmetið og kjúklinginn til þess að brenna ekki laukinn.

Því næst steiki ég niðursneidda sveppi og gulrætur (líka gott að nota rauða papriku) og bæti svo kjúklingi út í.

Krydda með salti (kryddjurtasalt), pipar, basiliku, óregano og „Best á allt“ (Pottagaldrar).

Nú bæti ég lauknum aftur út í, 1 dós kókosmjólk, 1 pela rjóma (eða matreiðslurjóma) ásamt Mango Chutney.

Leyfi réttinum að malla um stund og bæti við kryddi eftir þörfum. Nokkrum mínútum áður er rétturinn er borinn fram bæti ég við fersku brokkolí. Ég vil að brokkolíið haldist stökkt auk þess vil ég ekki malla öllu hollu vítamínin úr því, þess vegna bæti ég út undir lokin.

Með þessu ber ég fram hrísgrjón eða kúskús, ristað kókosmjöl (ristað snöggt á heitri pönnu, sýrðan rjóma og niðursneidda banana ásamt fersku salati.