Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni


IMG_8668Síðastliðnum dögum, eiginlega vikum, hef ég eytt fyrir framan tölvuna við að finna hús á leigu í Toskana á Ítalíu. Minn elskulegi eiginmaður á stórafmæli í júní og við ákváðum að vera ekki með neina veislu af því tilefni, heldur fara með börnin okkar fjögur og tengdadóttur til Toskana og láta þar með gamlan Ítalíu-draum rætast. Það er óhætt að segja að ég taki svona skiplagningu fyrir sumarfrí af mikilli festu og alvöru. Mér finnst mjög mikilvægt að velja rétta húsið fyrir fjölskylduna og ég held að ég geti fullyrt að eftir þessa leitartörn sé ég farin að þekkja Toskana eins og handarbakið á mér og öll þau ótal hús sem þar eru í boði! 🙂 Mér finnst „örfá“ *hóst, hóst* atriði afar mikilvæg: Að húsið hafi nægilega mörg svefnherbergi þannig að allir fái sitt eigið athvarf: Að það sé sundlaug. Að húsið sé hlýlegt að innan (sum hús í Toskana eru aðeins of „rustic“ að innan fyrir minn smekk) og með góðri aðstöðu í eldhúsinu. Að það sé góð aðstaða í garðinum með nægilega mörgum og góðum húsgögnum (nenni ekki að sitja á lélegum plaststólum eða að sólbekkirnir dugi ekki fyrir alla). Að það sé pizzu-eldofn úti, ekki skilyrði en svo sannarlega kostur. Að það sé dásamlegt útsýni frá húsinu. Að eigendurnir leggi greinilega rækt við húsið, garð og gesti sína. Það var ekki ósjaldan sem ég sá dóma gesta um hús þar sem þeir lýstu frábærum húseigendum sem færðu þeim ólífuolíu, grænmeti og ávexti úr garði sínum og jafnvel voru með kennslu í ítalskri matargerð – hljómar svo dásamlega! Síðast en ekki síst þarf allt þetta að vera á viðráðanlegu verði en leiguverð á húsum í Toskana eru ótrúlega misjöfn. Til að gera langa sögu stutta og eftir leit á netinu sem jafngildir örugglega hátt í vinnuviku þá erum við að fara að baka pizzur í þessum dásamlega eldofni í sumar:

10868226_355078474663195_398201459447046442_n

Svamla í þessari sundlaug á daginn:

c5og sitjum hér með drykk í hönd og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Toskana á kvöldin:

483318_141976005973444_1940797105_n

Maður minn hvað það verður mikið borðað af góðum ítalskum mat og honum skolað niður með ljúffengum vínum úr nærliggjandi héruðum! 🙂

En að uppskrift dagsins. Ég gerði svo góðan kjúklingarétt í vikunni sem mig langar að halda til haga hér á síðunni. Í þessum rétti er bæði rjómi og feitur sýrður rjómi og ég veit að það eru margir sem forðast slíkt í matargerð, vilja nota matreiðslurjóma eða aðrar fitulitlar mjólkurvörur. Ég er hins vegar inn á sömu línu og Læknirinn í eldhúsinu. Þetta skrifar hann frábærri matreiðslubók sem kom út fyrir jólin þegar hann skýrir út af hverju hann notar smjör og rjóma í eldamennskunni: „Samband milli fitu og sjúkdóma er með öllu ósannað og meint tengsli eru úr lausu lofti gripin. Fita orsakar ekki offitu, sykursýki, háþrýsting eða hjarta- og æðasjúkdóma. Því fer meira að segja fjarri. Og mettuð fita er líka hættulaus. Þessi þráhyggja um að fita, mettuð sem ómettuð, orsaki sjúkdóma hefur sennilega þvert á móti átt stóran þátt í því að orskaka þann stórkostlega faraldur offitu og sykursýki sem nú blasir við. Með því að fjarlægja fitu úr matnum tökum við burtu það sem gefur honum góða bragðið og fyllinguna. Í stað fitunnar setjum við svo ýmislegt sem við ættum að borða sem minnst af, eins og sykur og allskonar sykurafleiður, auk ótal gerviefna sem betra væri að vera laus við!“ Amen! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja

IMG_8664

Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_8672

 

Rjómalagaður kjúklingapottréttur


Rjómalagaður kjúklingapottrétturÞessi pottréttur er frábærlega bragðgóður og mikið lostæti. Það er einstaklega einfalt að búa hann til, allt fer á pönnuna og hér um bil eldar sig sjálft. Þetta er tilvalinn laugardagsréttur. Hvítvínsflaskan opnuð fyrir matargerðina og svo er hægt að njóta þess að dreypa á restinni af víninu með matnum. 🙂

Rjómalagaður kjúklingapottréttur f. 3-4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • ólífuolía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 1½ dl hvítvín (eða mysa)
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt & pipar

IMG_6651

Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur. Því næst er kjúklingi og sveppum bætt út á pönnuna og steikt þar til hvort tveggja hefur tekið góðan lit. Þá er tómötunum, kjúklingakraftinum, hvítvíninu, rjómanum og kryddunum bætt út í og látið malla í ca. 10-15 mínútum. Smakkað til og kryddað meira við þörfum. Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum, gott er að blanda Tilda basmati hrísgrjónunum við Tilda vilt hrísgrjón.

IMG_6647

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.

Kjúklingur í sweet chili sósu


Það er gott að vera komin heim og í rútínu. Eða reyna að komast í rútínu allavega, ég er greinilega ekki alveg komin í gírinn! Mig langaði að elda kjúklingarétt með sweet chilisósu í kvöldmat í gærkvöldi og skoðaði ótal slíkar uppskriftir. Ég fann nokkrar sem mér leist vel á og ákvað að slá saman því besta úr þremur uppskriftum og búa til mína eigin. Ég skrifaði samviskusamlega innkaupalista en kom svo heim með bara hluta af því sem ég ætlaði að kaupa, heilinn enn í sumarfríi! Það átti því sér stað enn meiri spuni í eldhúsinu í gærkvöldi en áætlað var frá upphafi. Hins vegar lukkaðist þetta bara ljómandi vel og úr varð hinn ágætis kjúklingaréttur! Ég stefni hins vegar á að vera skipulagðari í matseðlagerð fyrir vikuna og í innkaupum. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð skipulagði ég alltaf vikumatseðil og verslaði inn fyrir vikuna. Hér á Íslandi er ég óduglegri við það. Ég held að það sé aðallega útaf tvennu, fjölskyldan er orðin svo stór (og það er seint hægt að segja að við séum matgrönn!) að vikuinnkaup kæmust aldrei fyrir í ísskápnum! Að auki þá kaupi ég allt öðruvísi inn hér en úti. Hér fer ég í fiskbúð einu sinni eða tvisvar í viku, kaupi kjöt í kjötbúðum og svo þarf ég oft að fara í margar verslanir til að fá þær vörur sem mig vantar. En ég reyni þó oftast að kaupa inn fyrir tvær eða þrjár kvöldmáltíðir í einu. Fyrstu sjö árin okkar í Svíþjóð vorum við blönk og áttum ekki bíl. Þá þurftu matarinnkaupin að komast í fjóra poka (svo allt kæmist undir barnavagninn), maturinn duga í viku og ekki kosta meira en 500 sek! 🙂 Það var mjög góður skóli í sparnaði og útsjónarsemi! Ég ætla sem sagt að hrista rykið af þeirri lexíu og markmiðið fyrir veturinn verður að skipuleggja matarinnkaupin betur!

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur eða einn teningur
  • 1 rauðlaukur, skorin smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • engifer, rifið, ca. 5 cm bútur
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 kúrbítur, skorinn í bita
  • 3-4 gulrætur, sneiddar
  • 2 dl sweet chilisósa
  • 1 tsk chilimauk
  • 1 ferna matargerðarjómi
  • 1 dós sýrður rjómi

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu, bætið við kjúklingakrafti, salti og pipar. Bætið lauk og hvítlauk út í ásamt papriku, kúrbít og gulrótum, chilimauki og engifer og steikið áfram. Þegar kjúklingur og grænmetið hefur tekið lit er hvor tveggja fært yfir í stóran pott (nema notuð sé þess stærri panna). Þá er matargerðarjóma, sýrðum rjóma og chilisósu bætt út í. Leyfið réttinum að malla í 15 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús.