


- 800 gr sætar kartöflur
- 2 msk olía
- salt og pipar
- 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
- 1 msk olía
- 700 gr kjúklingabringur eða lundir
- 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
- 1 dós kókosmjólk
- 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
- kóríander, grófsaxað
Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.
Þetta hljómar vel
úff, ekki gott að heyra með bakið… þessar ritgerðir fara ekki vel með mann.. 😉 … það verður yndislegt þegar þetta er búið. Rétturinn lítur annars voða vel út.. 🙂
Takk fyrir það! 🙂 Já, það verður dásamlegt þegar ritgerðin er frá! 🙂
Mjög gott. Takk fyrir að deila.
Kv. Sveinn.
Gott að heyra Sveinn, gaman að heyra að uppskriftin nýtist fleirum! 🙂
Þessi er svakalega góður, sló í gegn hjá stuttum og löngum.
Já er það ekki? Við féllum líka fyrir þessum, ótrúlega góður réttur og einfaldur! 🙂
Var með foreldra og börn í mat,það var jummað og nammað ..Pabbi og synirnir kunnu sér ekki magamál og urðu full saddir 🙂 Nú ég bauð svo uppá bounty kúlur með kaffinu ásamt öðru..Algjör nammi matur og kökur hjá þér takk takk:)
En hvað þetta var skemmtileg kveðja Brynja! 🙂 Takk fyrir!
Girnó…..en hvað heldurðu að uppskriftin hjá þér sé fyrir ca. marga?
Ég myndi segja fyrir hámark fjóra.
Bjó til þennan rétt í gær sem sló í gegn hjá öllum á heimilinu, synir mínir voru mest svekktir yfir því að það væri ekki til afgangur til að borða í kvöld:) Mér þótti best hvað hann er einfaldur og fljótlegur:)
Gaman að heyra það Unnur Helga! Mér finnst einmitt líkasvo þægilegt hvað rétturinn er fljótlegur en samt svona góður! Takk fyrir kveðjuna! 🙂
Er að prófa hann núna og lyktin er að æra mig. Eða garnagaulið 🙂
Hlakka til að smakka.
P.s. Æðislegt blogg, kíki hér inn á hverjum degi
Takk fyrir kveðjuna Sigurborg! Vonandi smakkaðist rétturinn jafnvel og hann ilmaði! 🙂
Alveg frábær þessi – eins og reyndar allt annað sem ég hef prófað af síðunni!
Takk fyrir hrósið Alma! 🙂
Þessi er orðinn uppáhalds á okkar heimili. Bætum líka við venjulegum kartöflum og ananas í bitum…..ótrúlega gott 🙂
Gaman að heyra Kristín! Góð hugmynd að bæta við ananas og kartöflum, ég ætla að prófa það næst! 🙂
Bakvísun: Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku | Eldhússögur
Þetta ætla ég að prófa í næsta saumaklúbb er uppskriftin fyrir 6 eða dugar hún fyrir 8? kv Dagný og Gleðilega páska til ykkur fjölskyldunnar, hjá okkur er það öfugt við ykkur Hringur er loks að komast í 2 daga frí í dag, við erum aðeins óvanar að hafa hann ekki heima þannig að so far hafa þetta verið svoldið skrýtnir páskar
Æ, Dagný, ég er með krónískar áhyggjur yfir því að vera ekki með nægan mat! 🙂 Ég myndi pottþétt tvöfalda þessa uppskrift fyrir átta manns. Ekki samt tvöfalda alveg allt, tvöfaldaðu kjúklinginn, 800 g af sætum kartöflum eru alveg tvær mjög stórar, það ætti að duga. Sósuna gætir þú tvöfaldað líka. Gleðilega páska til ykkar! 🙂
mmm… þessi var svakalega góður 🙂
Prófaði þennan rétt og get mælt með honum. Þetta var bæði auðvelt og bragðgott 🙂
Takk fyrir það Ingibjörg – þessi er í miklu uppáhaldi hjá okkur! 🙂
Gerði þennan í kvöld, og hann sló algjörlega í gegn. Þetta er réttur sem verður pottþétt gerður aftur. Takk fyrir mig 🙂
Frábært Dagný! 🙂
Blessuð og sæl.
Hvar kaupir þú Mild curry paste? Er búin að fara í allar búðir. Er búin að kaupa allt í réttinn f saumó annað kvöld 😞
Kær kveðja
Birna Garðarsd.
Geislafræðingur
Sæl Birna mín!
Kauptu bara rautt (aðeins sterkara) eða gult „curry paste“. Byrjaðu á því að nota um 1 msk. Þú getur svo bætt við meira í lokin ef þér finnst sósan of bragðlítil. Ef þér finnst sósan of sterk þá er alltaf hægt að bæta við t.d. sýrðum rjóma, rjóma eða meiri kókosmjólk.
Æ… ég var skráð inn á vitlausan reikning .. þetta svar er sem sagt frá mér! 🙂