Kjúklingur með ostasnakki, sætum kartöflufrönskum og kryddjurtasósu með hvítlauki


IMG_1316

Ég rakst á ostasnakk inni í skáp hjá mér sem er skrítið þar sem að ég held að enginn í fjölskyldunni borði þannig snakk. Ég reyni hins vegar alltaf að nýta allt og fór að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki notað það í eitthvað. Ég ákvað að reyna að búa til rasp úr ostasnakkinu fyrir kjúkling og úr varð, að mér fannst allavega, sjúklega góður kjúklingur með sósu og sætum frönskum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ég notaði heilar bringur því mér finnst þær vera safaríkastar. Ég prófaði bæði að steikja kjúklinginn á pönnu og baka í ofni og hélt fyrirfram að sá steikti yrði líklega betri en mér fannst eiginlega ofnbakaði kjúklingurinn betri. Sósan er einföld en hrikalega góð en Herbes de Provence kryddið er einmitt svo gott í svona sósur. Þegar ég var síðast í Stokkhólmi kom ég við í búðinni hjá Leila Lindholm, sem er þekktur sjónvarpskokkur þar í landi, og keypti meðal annars þessar sniðugu skálar og svo pappír til að leggja í þær. Það er alveg óskaplega gaman að bera fram heimagerðan skyndibita á svona skemmtilegan máta.

IMG_1321

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 dós jógúrt án ávaxta (180 g)
  • 1 eggjahvíta     snakk
  • 1 msk dijon sinnep
  • 60 g ostasnakk
  • 50 g kornflex
  • 1/2 tsk cayanne pipar
  • 1/2 hvítlaukskrydd
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1/2 tsk oregano
  • 1/2 tsk basilika
  • salt & pipar
  • ólífuolía
  • 500 g sætar kartöflur.

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður með ólífuolíu. Sætu kartöflurnar er skornar í hæfilega stóra bita líkt og franskar kartöflur. Þeim er velt upp úr ólífuolíu, salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. ítölsku kryddi. Því næst er þeim dreift yfir annan helming bökunarplötunnar.

IMG_1301

Kornflex og ostasnakk er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, salt, hvítlaukskrydd, paprikukrydd, oregano og basiliku. Í annarri skál er jógúrti, eggjahvítu, dijon sinnepi og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr ostasnakks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur ásamt sætu kartöflunum eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer eftir stærðinni á bringunum. Borið fram með kryddjurtasósu með hvítlauki.

Kryddjurtasósa með hvítlauki

  • 1 dós sýrður rjómi (t.d. 10% eða 18%)
  • ca. 2 tsk Herbes de Provence frá Pottagöldrum
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_1319

IMG_1328

Hér er svo kjúklingur steiktur.

IMG_1303

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.

Chilikjúklingur með chorizo pylsu, kirsuberjatómötum og rótargrænmeti


Um síðustu helgi buðum við foreldrum mínum í mat og ég ákvað að prófa kjúklingarétt sem ég hef haft augastað á. Í honum er chorizo pylsa en ég hef lítið sem ekkert notað slíkar pylsur. Til dæmis hef ég ekki enn fundið hjá mér hvöt til að fara í verslunina Pylsumeistarann á Hrísateigi þó svo að ég hafi heyrt að það eigi að vera ægilega mikið gourmet og hámóðins hjá öllum matgæðingum! Ég hefði auðvitað átt að fara þangað til að tryggja að ég notaði hágæða pylsu í réttinn en ég lét mér duga að kaupa chorizo pylsu frá Ali í Þinni Verslun. Og þessi pylsa kom reglulega á óvart, passaði vel við réttinn og meira að segja krakkarnir voru sólgnir í hana. Rétturinn sjálfur er afar einfaldur að útbúa og reglulega góður, jafnvel krakkarnir hámuðu hann í sig af bestu lyst. Þó svo að í réttinum væri chilimauk fannst engum rétturinn vera of bragðsterkur, hvorki foreldrum mínum né börnunum. Ég skellti í eitt svona brauð til að bera fram með réttinum, en splæsti í sunnudagsútgáfuna, notaði bara hveiti og sesamfræ! Að auki bar ég fram með réttinum ferskt salat.

Uppskrift f. 3-4:

  • 4-6 stórar kartöflur, skornar í báta
  • 2 stórar gulrætur, skornar í þykkar skífur
  • 1 sæt kartafla, skorin í fremur stóra teninga
  • 8 skarlottulaukar, skornir í tvennt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 4 kjúklingabringur, skornar í 3-4 bita hver
  • 1 dl hvítvín (eða kjúklingasoð)
  • 1 dós niðursoðnir kirsuberjatómatar (fást í Krónunni)
  • 1-2 tsk sambal oelek (má nota aðra tegund af chilimauki)
  • 100-150 gr chorizo pylsa, skorin í bita
  • maldonsalt og pipar
  • ferskt timjan (ég fékk það ekki og notaði þurrkað)

Stillið ofn á 225 gráður. Skrælið kartöflur, sæta kartöflu og gulrætur og skerið eins og uppskriftin segir til um. Dreifið grænmetinu í eldfast mót ásamt skarlottulauknum og hvítlauknum. Hellið yfir dálítið af ólífuolíu og kryddið með maldonsalti og pipar. Hitið í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að grænmetið er næstum því tilbúið.

Á meðan grænmetið er í ofninum er kjúklingur kryddaður með maldonsalti og pipar. Kjúklingurinn er brúnaður í smjör og ólífuolíu þar til að hann hefur fengið lit. Því næst er kjúklingurinn lagður ofan á grænmetið ásamt chorizo pylsubitunum, kokteiltómötunum (vökvinn líka notaður) og grófsöxuðu timjan.

Að lokum er hvítvíni/kjúklingasoði blandað saman við chilimaukið og því hellt yfir réttinn. Rétturinn er aftur settur inn í ofn í um það bil 15-20 mínútur eða þar til bæði kjúklingur og grænmeti er tilbúið. Borið fram með brauði og góðu salati. Ekki skemmdi rauðvínsglasið fyrir!