Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

  • 800 g tómatar
  • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • ca. 2/3 dl ólífuolía
  • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
  • grófmalaður svartur pipar
  • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
  • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
  • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • 2-3 dl rjómi
  • 700 g kjúklingalundir
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
  • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Bananaostakaka


IMG_0118IMG_0124Innblásturinn að þessari dásemdar ostaköku er þríþættur. Í fyrsta lagi átti ég banana sem orðnir voru brúnir og allir vita hvað það þýðir; bakstur á bananabakkelsi! Í öðru lagi sá ég fyrir nokkru að Dulce de leche sósurnar eru komnar aftur í verslanir, mér til mikillar gleði. Þær eru gerðar úr sætmjólk og það kom upp eitthvað vandamál á tímabili tengt því að ekki væri hægt að flytja inn mjólkurvöru. Nú hins vegar er hægt að nálgast þessa dásemdar karamellusósu aftur en það er líka hægt að búa hana til úr sætmjólk, hér skrifa ég um það (ég mæli með þessari hindberjaböku!). Í þriðja lagi þá reikar hugur minn oft að ostakökunum í Cheesecake factory (ég veit, ég veit… en ég bara eyði miklum tíma í að hugsa um góðan mat! 😉 ) og þar er bananaostakakan ofarlega á vinsældarlista mínum. Ég skoðaði ótal uppskriftir að bananaostakökum og raðaði saman í uppskrift öllu því sem mér leist best á. Ég get ekki annað sagt en að þessi ostakaka hafi slegið í gegn og fékk þau ummæli að hún væri „hættulega góð“. Yngsta dóttir mín var hálfhneyksluð á móður sinni þegar ég sagði að mér þætti þessi kaka hreinlega betri en sú sem við fengum á Cheesecake. Þó svo að henni hafi fundist aðeins vanta upp á hógværðina hjá móður sinni þá var hún samt sammála, þessi kaka er sjúklega góð! 🙂

IMG_0136

Botn:

  • 300 g kex með vanillukremi (ca. 25 kexkökur)
  • 120 g smjör

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Sett inn í ísskáp á meðan fyllingin er búin til.

IMG_0107

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur, við stofuhita
  • 2/3 dl sykur
  • 1/2 dl maizenamjöl eða önnur sterkja
  • 3 egg
  • 1 vanillustöng, klofin í tvennt og kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf
  • 1 dl rjómi
  • 3 meðalstórir mjög vel þroskaðir bananar, stappaðir

Borin fram með:

  • karamellusósu (t.d. Dulce de leche)
  • þeyttum rjóma

IMG_0116

Ofn stilltur á 160 gráður við undir/yfirhita. Rjómaostur þeyttur þar til hann verður mjúkur, smátt og smátt er sykri og sterkju bætt út í. Þá er eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er banönum og vanillukornum bætt út í. Að lokum er rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Blöndunni hellt yfir kexbotninn Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu fyrir bragðið. Ostakan er látin kólna í forminu sett ísskáp yfir nóttu eða helst í 6-8 tíma áður en hún er borin fram. Borin fram með karamellusósu og þeyttum rjóma.

IMG_0119IMG_0133

Ítölsk brauðterta


IMG_0083

Það er vel við hæfi að setja inn uppskrift að ítalskri brauðtertu eftir dásamlega Ítalíuferð fjölskyldunnar. Vissulega eru Ítalir ekkert sérstaklega mikið að búa til brauðtertur held ég en hráefnin í þessari brauðtertu eru samt innblásinn af Ítalíu. Það var afar skemmtilegt að elda í Toskana og nýta góðu hráefnin sem héraðið hafði upp á að bjóða, grænmetið, ávextina, kryddjurtirnar og svo ekki sé talað um ferska pastað þeirra sem á nákvæmlega ekkert skylt við þurrkaða pastað sem við þekkjum hér heima. Uppistaðan í fæðunni okkar á meðan Ítalíudvölinni stóð var parmaskinka, melónur, mozzarella, tómatar, basilika, ólífuolía, brauð, pasta og parmesanostur – ásamt rauðvíni auðvitað, ekki slæmt það! 🙂

11407268_10152976388282993_39985861688175300_n

Það er alveg magnað hvað hægt er að gera góða matrétti úr einföldum hráefnum svo fremi sem þau eru fersk og góð. Úr þessum hráefnum varð til einstaklega góður pastaréttur.

villa-in-poppi-tuscany-2

Mér leiddist ekkert í eldhúsinu með ferskt grænmeti af markaðnum! 😉

11391789_10152976389402993_8725255834746546953_n

Húsráðendur okkar voru frábærir og einn daginn fengum við til dæmis þessar heimalöguðu sultur frá þeim, það kallaði auðvitað á osta, kex og vín. Við höfum varla drukkið annað en Chianti vín í sumar, en þau eru frá Toskana. Í húsinu sem við leigðum var vínkjallari með miklu úrvali af Chianti vínum á afar góðu verði. Það var sama hvaða tegund við völdum, hver einasta flaska var eðalgóð!

11377390_10152972110087993_9213144157852679933_n

Útsýnið frá húsinu okkar var eiginlega óraunverulegt, svo magnað var það.

villa-in-poppi-tuscany

Þetta var uppáhaldsstaðurinn hans Elfars, enda var útsýnið þaðan ekki slæmt!

10476459_10152972108392993_8441051171073755090_n

Þessi mynd er tekin frá hengirólunni, hér sést yfir gamla bæinn Poppi og Poppi kastalann.

villa-in-poppi-tuscany-1

Sundlaugin okkar var frábær og miðdegissnarlið ekki síðra! 🙂

11350499_10152972109132993_8804694172672177064_n

Ég mæli heilshugar með húsinu Podere la Casina í Toskana, hér eru bókunarupplýsingar. En ef ég vík aftur að uppskriftinni sem mig langaði að halda til haga hér á síðunni. Mér finnst alltaf gott að geta gripið til allskonar brauðrétta fyrir veislur og þessi brauðterta er alveg tilvalin á veisluborðið, hún er fljótleg og afar bragðgóð.

IMG_0082 Uppskrift:

  • Brauðtertubrauð skorið á lengdina (fæst frosið, notið 5 lengjur af 7)

Fylling 1:

  • 30 g basilika, blöðin söxuð smátt (nokkur blöð geymd fyrir skreytingu)
  • ca. 8 st. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 250 g Mascarpone ostur
  • ca 1/2 dós (90g) 10% eða 18% sýrður rjómi
  • salt & pipar
  • hnífsoddur af cayenne pipar

Fylling 2:

  • 1 Stóri Dímon ostur (250 g), maukaður
  • 1 dós 10% eða 18% sýrður rjómi (180g)
  • salt & pipar

Ofan á brauðið

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • ca 8 sneiðar parmaskinka
  • ca 8 sneiðar góð ítölsk pylsa
  • 12 – 14 kirsuberjatómatar
  • ca 15-20 svartar ólífur
  • nokkur basiliku blöð
  • einnig fallegt að skreyta brauðtertuna með t.d. klettasalati, ferskum timjankvistum og/eða mismunandi tegundum af baunaspírum
  • 11749739_10153054364637993_931005220_n

Brauðtertubrauðið sem kemur frosið er losað í sundur og látið þiðna. Á meðan er hráefnunum blandað saman fyrir fyllingarnar tvær og þær smakkaðar til með kryddi. Hvorri fyllingu fyrir sig smurt á tvær brauðlengjur og þær lagðar saman sitt á hvað, fimmta brauðlengjan er því næst lögð efst. Þá er brauðtertan smurð á alla kanta með 36% sýrðum rjóma. Að lokum er brauðtertan skreytt með parmaskinku, ítalskri pylsu, ólífum, kirsuberjatómötum, basilku og t.d. klettasalati, baunaspírum eða timjankvistum.

IMG_0079 IMG_0090