Kjúklingur í satay sósu með sætkartöflumús


Kjúklingur í satay sósu með sætkartöflumúsÉg er ákaflega spennt fyrir matargerðinni í næstu viku en þá ætla ég að takast á við nýtt og spennandi verkefni sem ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur hér á blogginu. Í dag ætla ég hins vegar að færa hér inn óskaplega einfalda og góða uppskrift sem fæddist í eldhúsinu hjá mér í dag. Ég nýtti mér þau hráefni sem ég átti í ísskápnum og úr þessu varð dýrindis máltíð. Ég er sjúk í sætar kartöflur, fæ bara ekki nóg af þeim. Mögulega verða þær enn betri þegar þeim er breytt í sætkartöflumús! Ég passa mig á því að hafa alltaf mjög ríflegt hráefni í sætkartöflumúsina því ég get ekki hamið mig við eldamennskuna – ég er stöðugt að „smakka hana til“! 😉

Þeir sem fylgjast reglubundið með blogginu mínu hafa eflaust tekið eftir því að ég nota danska Green gate matarstellið. Það eru til ótal litir og munstur í stellinu, hvert öðru fallegra. Núna var að koma nýtt munstur fyrir sumarið sem er ó svo dásamlega fallegt, blúndumatarstell! Ég get bara ekki hætt að dást að þessum myndum:

1891255_306443302837966_1993056472_n

Hvað segið þið – er þetta ekki með því fallegra sem þið hafið séð?!

1958517_306444522837844_1817628945_nÞað sem er svo skemmtilegt við þetta stell að það er hægt að blanda öllum tegundunum saman. Hér að ofan eru til dæmis þrenns konar mismunandi stell. Einnig eru komin svo dásamlega falleg glös í stíl við nýja stellið sem heitir Lace Warm Gray. Hér á landi er þetta stell selt hjá Cupcomapny. Ég mæli með að þið kíkið en vara ykkur við, maður fær valkvíða! 🙂

En hér kemur uppskriftin að gómsæta kjúklingaréttinum sem ég lofaði:

IMG_4116

Uppskrift:

 • 700 g kjúklingur (ég notaði úrbeinuð læri frá Rose Poultry), skorinn í bita
 • smjör eða olía til steikingar
 • 1 dós satay sósa (440 g)  IDShot_225x225
 • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
 • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
 • 100 g ferskt spínat
 • 150 g fetaostur í olíu
 • ca. 1 dl salthnetur, grófsaxaðar
 • IMG_4104

Laukur og paprika steikt á pönnu þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er kjúklingnum bætt út á pönnuna og hann steiktur þar til bitarnir hafa brúnast. Því næst er sósunni bætt út á pönnuna og látið malla í 15 mínútur. Þá er spínatinu hrært út í og látið malla í 5 mínútur til viðbótar. Áður en rétturinn er borinn fram er fetaosti (án olíunnar) og salthnetum dreift yfir. Borið fram með sætkartöflumús.

Sætkartöflumús:

 • ca. 800 g sætar kartöflur
 • 3 msk smjör
 • salt & pipar
 • chili flögur (ég notaði chili explosion krydd)

Sætu kartöflurnar eru afhýddar og skornar í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við smjör og krydd í potti við lágan hita.

IMG_4117

Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum


Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum

Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.

vG+DBhSNTnSEuK0REuAUKAÉg er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt! Collages9 Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂

Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!

Uppskrift:

 • 1 púðursykurs marengsbotn
 • 150 g suðusúkkulaði
 • 7 dl rjómi
 • 2 eggjarauður
 • 3 msk flórsykur
 • 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
 • ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.

IMG_3964

Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.

IMG_3962 Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.

IMG_3976 Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.

IMG_3978Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. IMG_3991IMG_4013

Djöflaterta


DjöflatertaFlensan heldur enn fjölskyldunni í heljargreipum. Ég er aðeins að skána en börnin eru enn veik. Vetrarfríið hefst á morgun og aldrei þessu vant verður heimilisfaðirinn í fríi líka. Sem betur fer vorum við búin að ákveða að taka því rólega og vera bara heima. Vonandi fer krökkunum samt að skána þannig að við getum gert eitthvað skemmtilegt saman í fríinu.

Í þó nokkurn tíma hefur mig langað í góða sneið af djöflatertu. Þetta var töpuð barátta frá byrjun, auðvitað endaði það með því að ég bakaði djöflatertuna – enda ber tertan nafn með rentu! Ég hef verið að skoða og prófa mig áfram með smjör annars vegar og olíu hins vegar í súkkulaðikökur. Ef notuð er olía í súkkulaðiköku þá verður hún mjög mjúk, mýkri en súkkulaðikökur sem í er smjör. Hins vegar verða kökur með smjöri bragðbetri. Þegar notað er smjör er líka auðveldara að hræra lofti í deigið, það verður „flatara“ með olíu. Að þessu sinni notaði ég smjör og var afar sátt við djöflatertusneiðina sem ég gat loksins notið eftir margra daga löngun! 🙂

IMG_3919IMG_3929

Uppskrift:

 • 250 ml sjóðandi vatn
 • 6 msk bökunarkakó, sigtað
 • 120 g dökkur muscovado sykur eða púðursykur
 • 130 g smjör, við stofuhita
 • 150 g sykur
 • 2 stór egg
 • 230 g hveiti
 • ½ tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 2 tsk vanillusykur

Ofn hitaður í 180 gráður og tvö 20 cm form smurð að innan (ath. þetta eru fremur lítil form). Kakó og muscovado sykur (eða púðursykur) er hrærður út í heita vatninu í skál, skálin lögð til hliðar.

Smjör og sykur hrært saman í hrærivél þar til að blandan verður létt í sér. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er hveiti, lyftidufti, matarsóda og vanillusykri bætt út. Að lokum er vatninu sem búið var að blanda með sykri og kakó bætt út í og deiginu blandað vel saman. Deiginu er svo skipt á milli bökunarformanna tveggja og bakað í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn. Kökurnar eru látnar kólna alveg áður en kremið er sett á milli botnanna og smurt utan á kökuna.

IMG_3907IMG_3909

Krem:

 • 120 g smjör, við stofuhita
 • 5 msk kakó
 • 3 msk síróp
 • 250 g flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 1 msk mjólk
Smjörið hrært þar til það er orðið kremkennt. Flórsykur, vanillusykur og kakó sigtað saman og blandað smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við meiri mjólk. Að lokum er sírópi hrært saman við. Kremið er sett á milli botnanna og smurt á alla kökuna þegar hún er orðin alveg köld.
IMG_3925
IMG_3943 IMG_3910

Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

  • 5 þykkar kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
  • ca. 15 – 20 ostsneiðar
  • 50 g smjör
  • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
 • 3 msk smjör
 • 3 msk hveiti
 • ca. 5-600 ml mjólk
 • 1.5 tsk kjúklingakraftur
 • 1/2 tsk salt
 • 1.5 msk dijon sinnep
 • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Fiskur i satay- og kókossósu


IMG_3876

Undanfarna daga hefur sólin skinið á daginn og skyndilega tekur tekur maður eftir því hversu mikið fyrr er farið að birta en áður og hversu lengi það er bjart – dásamlegt! 🙂 Í fyrrakvöld fórum við bókasafnsfræði-vinkonurnar í leikhús og sáum Óskasteina. Þetta er annað árið sem við kaupum okkar ársmiða í leikhúsið. Það er svo ágæt leið til þess að hittast reglulega eftir að við hættum að umgangast daglega frá því að náminu lauk. Við stöllur erum frekar harðir leikhúsgagnrýnendur og erum eiginlega alltaf sammála í dómum okkar. Óskasteinar fékk nú bara fremur háa einkunn frá okkur öllum og við skemmtum okkur mjög vel á sýningunni – mælum með henni!

Ég mæli líka sannarlega með þessum fiskrétti sem ég gef uppskrift að í dag. Ég elda fisk einu sinni í viku sem er alltof sjaldan fyrir minn smekk. En ég tek tillit til barnanna sem fá fisk tvisvar í viku í skólanum og einnig til þeirrar staðreyndar að yngsta barnið er allt annað en fiskunnandi svo vægt sé til orða tekið! Það er kannski ekki hefðbundið að nota satay sósu (hnetusósu) með fiski en svo ákaflega gott. Mér finnst pönnusteikt grænmeti algjört sælgæti og það smellpassar í þennan rétt. Það er svo mikið grænmeti í réttinum að ég var hvorki með kartöflur né hrísgrjón, þess þarf ekkert. Punkturinn yfir i-ið er svo smjörsteikta spínatið með hvítlauki. Ef þið hafið ekki prófað slíkt þá er kominn tími til! Ég prófaði að smjörsteikja spínat í fyrsta sinn þegar ég gerði þessa uppáhalds laxauppskrift. Síðan þá hef ég smjörsteikt spínat með öllum þeim matréttum sem mér dettur í hug. Sérstaklega er það þó gott með fiski. Spínat verður fljótt fremur „þreytt“ og óspennandi að nota í ferskt salat. Þá er upplagt að skella því þá pönnuna með til dæmis öðru grænmeti eða einu og sér. Hafa þarf þó eitt í huga, það verður sáralítið úr spínatinu þegar það er steikt. Heill 2-300 gramma poki passar  í litla skál eftir steikingu.

Uppskrift f. 4:

 • ca. 1100 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorsk), skorinn í hæfilega stóra bita
 • 200 g satay sósa
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
 • 1 paprika, skorin í tenginga
 • 1 kúrbítur, skorinn í teninga
 • 3-4 stórar gulrætur, skornar í teninga
 • 1 rauðlaukur, skorinn í bita
 • lítill brokkolí haus, skorinn í bita
 • salt & pipar
 • 1 tsk grænmetiskraftur (má sleppa)
 • ólífuolía og/eða smjör til steikingar

IMG_3844

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænmetið er steikt á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu þar til það fer að mýkjast. Þá er satay sósunni og kókosmjólkinni bætt út á pönnuna og blandað saman við grænmetið. Öllu er svo hellt yfir í eldfast mót og meira smjör bætt út á pönnuna. Fiskurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á báðum hliðum í 1-2 mínútur. Því næst er fiskurinn lagður ofan á grænmetið í eldfasta mótinu. IMG_3846 Sett inn í ofn í 5-10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer mikið eftir þykkt fisksins). Borið fram með smjörsteiktu spínati með hvítlauki. IMG_3866

Smjörsteik spínat með hvítlauki:

 • 1 poki spínat (200 g)
 • 1 msk smjör
 • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð mjög smátt
 • salt & pipar

Spínatið og hvítlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

IMG_3848IMG_3852

Fiskur í satay- og kókossósuIMG_3855

Gúllassúpa


GúllassúpaVikan hefur liðið hratt að vanda. Öllum kvöldunum í síðustu viku eyddi ég fyrir framan tölvuna við að skipuleggja sumarfrí okkar fjölskyldunnar. Við erum að fara í langa og ótrúlega spennandi Bandaríkjaferð næsta sumar. Við munum heimsækja tvær stórborgir í nokkra daga og eyða nokkrum vikum í minni borg þar sem við gerum húsaskipti. Jóhanna Inga dóttir mín á sér þrjá drauma. Það er að borða á veitingastað á Ítalíu, sjá Effelturninn í París og fara upp í frelsisstyttuna í New York. Sá hinn síðastnefndi mun rætast næsta sumar og öll fjölskyldan er yfir sig spennt yfir væntanlegu ævintýri sumarsins.
Um helgina fór ég í skemmtilegt konuboð. Í vinnunni vorum við nokkrar starfssystur að ræða rauðvín og súkkulaði í kaffitímanum – hvað annað! Í kjölfarið var ákveðið að hafa boð með gæðasúkkulaði- og rauðvínshlaðborði. Dásamlega gott og skemmtilegt!IMG_3758

Súkkulaðið var allstaðar að.

IMG_3781

Nóg af rauðvíni!

IMG_3783

Íslenskt gæðasúkkulaði frá Hafliða í Mosfellsbakaríi ásamt allskonar erlendu gæðasúkkulaði.

IMG_3787

Konurnar ánægðar með hlaðborðið

IMG_3795

IMG_3802

Gúrmei!

IMG_3805

IMG_3813

IMG_3836

Ég og gestgjafinn góði.

Uppskrift dagsins er hins vegar bragðmikil og góð gúllassúpa. Það er hægt að skipta út gúllasinu fyrir nautahakk og þá þarf súpan bara að malla í stutta stund áður en hún er tilbúin.

Uppskrift:

 • 600 g gúllas
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 gulur laukur
 • ca. 6 meðalstórar kartöflur
 • ca. 3 meðalstórar gulrætur
 • 1 msk paprika (krydd)
 • 1 1/2 tsk cummin (ath. ekki kúmen)
 • salt & pipar
 • chili krydd eftir smekk (ég notaði chili explosion)
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 líter kjötkraftur (nautakraftur og vatn)
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 • 2 msk smjör
 • 1-2 msk tómatpúrra
 • sýrður rjómi

Kjötið er skorið í minni teninga ef með þarf. Kartöflur, laukur og gulrætur flysjaðar og skornar í meðalstóra teninga. Kjöt, laukur og paprika er steikt upp úr olíu í stórum potti og öllum kryddunum bætt út í.  Þegar kjötið hefur fengið lit er nautakraftinum og tómatpúrrunni bætt út í pottinn og suðan látin koma upp. Þá er smjörinu og hvítlauknum bætt út í. Látið malla í ca. 50 – 60 mínútur – súpan verður enn betri ef hún fær að malla lengur! Þegar um það bil 20 mínútur er eftir af suðutímanum eru kartöflunum og gulrótunum bætt út súpuna. Borin fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

IMG_2995

Snickersbitar


SnickersbitarVið fjölskyldan áttum afar notalega helgi sem okkur fannst meira að segja sérstaklega löng. Ástæðan var sú að við ákváðum með örstuttum fyrirvara að skella okkur í bústað yfir helgina. Elfar vinnur alla virka daga og margar helgar líka þannig að það gildir að nota tækifærið þá sjaldan hann fær fríhelgar. Við fórum í Brekkuskóg í bústað og eyddum þar tveimur ljúfum dögum, borðuðum góðan mat (að sjálfsögðu!), spiluðum, fórum í pottinn, lásum, fórum í göngutúra og horfðum á bíómyndir. Mikið var gott að skipta svona um umhverfi og slappa fullkomlega af, bara við fjölskyldan.

Ég var hins vegar búin að lofa á Facebook að setja inn uppskriftina að þessum dásamlega góðu snickersbitum. Þeir voru ótrúlega góðir en ekki nógu fallegir hjá mér. Ég þarf að æfa mig til að fá bitana fallegri, ég veit að fjölskyldan verður ekkert svekkt yfir slíkum æfingum! 🙂 Karamellan var aðeins of lin hjá mér eftir þessa fyrstu tilraun en það var af því að ég fór ekki eftir eigin leiðbeiningum varðandi karamelluna – aðeins of óþolinmóð. En fylgið bara leiðbeiningunum og þá ætti þetta allt að lukkast!

Uppskrift:

 • 4 egg
 • 225 g sykur
 • 1 vanillustöng
 • 290 g Kornax hveiti
 • 1 tsk lyftiduft

Bakarofn hitaður i 190 ˚C. Vanillustöngin er klofin í tvennt og vanillufræin skafin innan úr henni. Þau eru sett í skál ásamt eggjum og sykri. Skálin er set yfir sjóðandi vatn í potti og pískað þar til að sykurinn hefur leyst upp. Þá er blöndunni hellt í hrærivélaskál og þeytt þar til blandan er orðin létt og ljós. Hveiti og lyftidufti er bætt varlega út í með sleikju.

Form (20 cm X 30 cm) er klætt að innan með bökunarpappír og deiginu er hellt í formið. Bakað við 190 gráður í 10 – 15 mínútur eða þar til kakan er orðin ljósbrún á litinn. Þá er hún tekin úr ofninum og leyft að kólna.

IMG_3642

Karamellusósa:

 • 500 g sykur
 • 130 ml vatn
 • 170 ml rjómi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 140 g smjör (helst ósaltað)
 • 150 g salthnetur
 • 250 g suðusúkkulaði (eða hjúpsúkkulaði)

Vatn og sykur sett í pott og látið malla við meðalhita (ca 4-5 af 9) þar til sykurinn er uppleystur. Þá er hitinn hækkaður og látið sjóða þannig að blandan „bubbli“ þangað til að blandan er orðin gullinbrún. Athugið að á meðan þessu stendur á alls ekki að hræra neitt. Þetta getur tekið um það bil 10-15 mínútur. Potturinn er tekinn af hellunni og nú er rjómanum hrært út í. Því næst er vanilludropunum og smjörinu bætt út í og potturinn settur aftur á helluna. Karamellusósan er að lokum látin malla við mjög vægan hita í ca. 10 mínútur og hrært í reglulega þar til karamellan er orðin vel þykk. Karamellunni er hellt í skál og salthnetunum er bætt út í. Karamellunni með salthnetunum dreift jafnt yfir kalda kökuna og hún svo sett í kæli í minnst 5 tíma, helst yfir nóttu.

IMG_3655IMG_3673

Þegar kakan er komin úr kælinum er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Kakan er skorin niður í passlega bita og brædda súkkulaðinu hellt yfir hvern bita fyrir sig. IMG_3678Gott er að láta bitana liggja á gaffli, ausa brædda súkkulaðinu yfir þá með skeið og leggja svo á bökunarpappír.

Snickersbitar