Djöflaterta


DjöflatertaFlensan heldur enn fjölskyldunni í heljargreipum. Ég er aðeins að skána en börnin eru enn veik. Vetrarfríið hefst á morgun og aldrei þessu vant verður heimilisfaðirinn í fríi líka. Sem betur fer vorum við búin að ákveða að taka því rólega og vera bara heima. Vonandi fer krökkunum samt að skána þannig að við getum gert eitthvað skemmtilegt saman í fríinu.

Í þó nokkurn tíma hefur mig langað í góða sneið af djöflatertu. Þetta var töpuð barátta frá byrjun, auðvitað endaði það með því að ég bakaði djöflatertuna – enda ber tertan nafn með rentu! Ég hef verið að skoða og prófa mig áfram með smjör annars vegar og olíu hins vegar í súkkulaðikökur. Ef notuð er olía í súkkulaðiköku þá verður hún mjög mjúk, mýkri en súkkulaðikökur sem í er smjör. Hins vegar verða kökur með smjöri bragðbetri. Þegar notað er smjör er líka auðveldara að hræra lofti í deigið, það verður „flatara“ með olíu. Að þessu sinni notaði ég smjör og var afar sátt við djöflatertusneiðina sem ég gat loksins notið eftir margra daga löngun! 🙂

IMG_3919IMG_3929

Uppskrift:

  • 250 ml sjóðandi vatn
  • 6 msk bökunarkakó, sigtað
  • 120 g dökkur muscovado sykur eða púðursykur
  • 130 g smjör, við stofuhita
  • 150 g sykur
  • 2 stór egg
  • 230 g hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 2 tsk vanillusykur

Ofn hitaður í 180 gráður og tvö 20 cm form smurð að innan (ath. þetta eru fremur lítil form). Kakó og muscovado sykur (eða púðursykur) er hrærður út í heita vatninu í skál, skálin lögð til hliðar.

Smjör og sykur hrært saman í hrærivél þar til að blandan verður létt í sér. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er hveiti, lyftidufti, matarsóda og vanillusykri bætt út. Að lokum er vatninu sem búið var að blanda með sykri og kakó bætt út í og deiginu blandað vel saman. Deiginu er svo skipt á milli bökunarformanna tveggja og bakað í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn. Kökurnar eru látnar kólna alveg áður en kremið er sett á milli botnanna og smurt utan á kökuna.

IMG_3907IMG_3909

Krem:

  • 120 g smjör, við stofuhita
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 msk mjólk
Smjörið hrært þar til það er orðið kremkennt. Flórsykur, vanillusykur og kakó sigtað saman og blandað smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við meiri mjólk. Að lokum er sírópi hrært saman við. Kremið er sett á milli botnanna og smurt á alla kökuna þegar hún er orðin alveg köld.
IMG_3925
IMG_3943 IMG_3910