Kartöflur á 10 vegu


Um daginn ákváðum við nokkrir matarbloggarar að hittast og fara út að borða saman. Auk mín var það Albert hjá Albert eldar, Berglind hjá Gulur, rauður, grænn og salt, Ragnar Freyr hjá Læknirinn í eldhúsinu, Svava hjá Ljúfmeti, Thelma hjá Freistingar Thelmu og Eva Laufey hjá EvaLaufeyKjaran. Þið getið rétt ímyndað ykkur valkvíðann þegar sjö matarbloggarar ætla að ákveða veitingastað, matur skiptir okkur nefnilega frekar miklu máli! 🙂 Fljótlega kom MAT BAR upp í umræðunni, nýr veitingastaður sem hefur bæst við nýkomnu veitingahúsaflóruna á Hverfisgötu. Albert hafði farið þangað áður, en hann er duglegur að taka út veitingahús bæjarins. Þegar hann sagði okkur að þessi veitingastaður hefði strax farið upp í topp þrjú sætin í hans bókum þá gátum við ekki beðið eftir að prófa! Það er skemmst frá því að segja að við áttum frábæra kvöldstund saman. Það er æðisleg stemmning á Matbar, staðurinn sérstaklega vel heppnaður í hönnun en það allra mikilvægasta, maturinn stórkostlegur! Hér er hægt að lesa nánari úttekt hjá Alberti um þennan frábæra stað. Það er svo skemmtilegt hvernig Hverfisgatan er að verða ein mest spennandi og besta veitingahúsagata borgarinnar, ekki hefði mann grunað það fyrir nokkrum árum! 🙂 Næst á dagskrá hjá hópnum er að hittast seinna í vor í eldhúsi læknisins, honum Ragnari Frey, og elda saman. Það verður eitthvað! 🙂

Desktop

Recently Updated

Frábær matur í yndislegum félagsskap!

Hér að neðan hef ég tekið saman 10 góðar kartöfluuppskriftir. Ég elska kartöflur og finnst alltaf gaman að breyta til í matreiðslunni á þeim. Manni hættir oft til að festast í sama meðlætinu og matreiða það á sama hátt. Hér eru tíu tillögur að gómsætum kartöflum sem gætu  sæmt sér vel með hátíðarmatnum um páskana sem færast óðfluga nær! 🙂

Krumpaðar kartöflur

krumpaðar 

 Uppskrift:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.

Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í um það bil 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn vel öðru hverju.

Kartöflur í kryddi

 kryddaðar

 Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólífuolía

Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.

  

Parmesanristaðar kartöflur

 parmesan

 Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með). Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum. 

Hasselback kartöflur

hasselback

 Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólífuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Chili kartöflur með papriku

 papriku

 Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek (chilimauk)
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Brúnaðar kartöflur

 brúnaðar

Uppskrift:

  • 35 gr smjör
  • 100 gr sykur
  • 0,25 dl rjómi
  • 1 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt. 

 

Kartöflugratín f. 8-10

gratíngratíngratín1

 Uppskrift:

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (gott að hafa hýðið á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

 

Kartöflustappa með beikoni

stappa

Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 200 g beikon
  • 3 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, flysjaðar, settar í pott og stappaðar vel. Beikonið er skorið í litla bita og steikt þar til það er stökkt.  Við vægan hita er smjöri, rjóma (eða mjólk) hrært saman við stöppuna ásamt 200 g af steiktum beikonbitum. Kryddað með salti og pipar.

 

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

ofnbakaðarofnbakaðar1 

Uppskrift:

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

  

Steiktar kartöfluskífur:

skífur 

Uppskrift:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Skífurnar eru forsoðnar í nokkrar mínútur og vatnið látið renna vel af skífunum. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

Brownies með söltu karamellukremi og lakkrís


IMG_4899

Ég hef undanfarið verið að vinna nokkrar uppskriftir fyrir lítið fjölskyldufyrirtæki sem heitir Urta. Þau eru staðsett í fallegu og sjarmerandi húsi í hjarta Hafnarfjarðar, Gömlu matarbúðinni, þar sem þau eru að búa til skemmtileg sölt, te, jurtasýróp og kryddsultur úr íslenskum jurtum. Vörurnar þeirra fást í Gömlu matarbúðinni og  í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4913

Ég má til með að setja hér í safnið mitt uppskriftina af svo himneskum brownies sem ég gerði með ”fugde” seigu karamellukremi, gerðu úr Marabou súkkulaði með saltlakkrís. Ofan á kremið er svo stráð skemmtilega svörtu lava salti sem vegur ákkurat passlega vel upp á móti sæta súkkulaðinu. Þetta eru algjörlega ómótstæðilegar brownies sem fjölskyldan gat ekki hætt að borða, þær eru  hættulega góðar! 🙂

IMG_4922

Uppskriftin er fyrir fremur stórt form en það er hægt að hafa hana helmingi minni og nota þá minna form, jafnvel hringform.

Uppskrift

  • 250 g smjör
  • 
4.5 dl sykur
  • 
2 dl kakó
  • 
4 tsk vanillusykur
  • 
4 egg
  • 
3 dl hveiti

saltað “fudge” karamellukrem með lakkrís

  • 1 ½ dl rjómi
  • 200 g Marabou súkkulaði með saltlakkrís (eða suðusúkkulaði)
  • ½ tsk smjör
  • Svart lava flögusalt (frá Urtu)

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Sykri, kakó, vanillusykri og eggjum bætt út í pottinn og hrært með písk. Loks er hveiti bætt út og hrært þar til deigið er orðið slétt. Ferkantað kökunarform sem er um það bil 35 x 25 cm er smurt að innan (gott að klæða formið með bökunarpappír) og deiginu hellt í formið. Bakað við 175 gráður í um það bil 20-25 mínútur (kakan á að vera dálítið blaut þegar hún er tekin út), kakan er látin kólna í forminu.

Kremið: Rjóminn er settur í pott og látinn ná suðu, þá er slökkt undir pottinum. Súkkulaðinu og smjörinu er bætt út í pottinn og látið bráðna, hrært í pottinum á meðan. Þá er kreminu hellt í skál og kælt í ísskáp þar til kremið er passlega þykkt (tekur um það bil 1-2 klukkustundir). Kreminu er dreift yfir kökuna og hún sett í kæli ef að kremið þarf að stífna meira. Áður en kakan er borin fram er saltflögunum stráð yfir hana. Þessi kaka er helst góð nokkra daga.

IMG_4896IMG_4921IMG_4930

Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769