Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Ostakökudesert með Dumle Snacks


IMG_0618

Þar sem að við höfum verið mikið heima við í sumar höfum við haldið óvenju mörg matarboð upp á síðkastið. Um daginn hringdi Elfar í mig úr vinnunni, rétt fyrir kvöldmatinn, og spurði hvort að hann mætti taka með sér heim í mat fyrrum vinnufélaga sinn frá Stokkhólmi sem væri staddur hér á landi með fjölskyldu sinni. Ég er alveg hætt að æsa mig of mikið yfir matarboðum og bað hann endilega að gera það. Með aldrinum þá fer mann nefnilega að finnast einna mikilvægast njóta samverunnar við skemmtilegt fólk og ekki gera hlutina of flókna. Ég get þó ekki sagt að mér finnist maturinn farinn að skipta mig minna máli, hann skiptir mig alltaf miklu máli! 😉 En stundum er hið einfalda best. Ég skaust því út í fiskbúð og bjó til góðan fiskrétt. Mig langaði svo mikið að gera ostaköku í eftirrétt en hana þarf að gera með fyrirvara. Ég ákvað því að nota hráefni sem notuð eru í ostaköku og útbúa eitthvað fljótlegt úr þeim. Úr varð þessi stórgóði eftirréttur sem sló í gegn. Þennan desert tekur enga stund að gera en er afar ljúffengur, ég mæli með honum! 🙂

Uppskrift f. 6:

  • 2 dósir Philadelphia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 150 g Digestive kex
  • 300 g jarðarber (og/eða önnur ber)
  • 175 g Dumle snacks

Rjómaosti, grískri jógúrt og rjóma er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Dumle snacks er saxað smátt, jarðarberin skorin í bita. Því næst er öllum hráefnunum blandað í 6 skálar. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni því næst Dumle snacks og loks jarðarberjunum. Þetta er endurtekið einu sinni eða tvisvar eða þar til hráefnið klárast.

IMG_0623

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði


Þetta er mjög fljótlegur en góður eftirréttur og ef maður á niðursoðnar perur til taks þá er auðvelt að útbúa þennan rétt með litlum fyrirvara því auk peranna eru bara örfá hráefni. Í þetta sinn bætti ég líka við hvítu súkkulaði. Ávextir með bræddu hvítu súkkulaði er alltaf feykigóð blanda og ég tók því áhættuna að það kæmi vel út í þessum rétti sem það og gerði.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég gerði þennan rétt í fyrsta sinn. Þá var ég tvítug, nýflutt til Stokkhólms og við vorum að fá gesti í fyrsta sinn í íbúðina okkar þar. Ég átti litla dós af perum og lagði þær í form, það var ekki nóg þannig að ég tók ferskar perur sem voru mjög harðar og óþroskaðar, afhýddi, skar þær í tvennt og fyllti formið. Svo komu gestirnir, rétturinn leit mjög vel út og allir fengu sér í skál. Við Elfar lentum á dósaperunum sem voru mjúkar og heitar. Gestirnir fengu hins vegar á sinn disk fersku perurnar sem voru auðvitað enn grjótharðar! Þau reyndu að skera perurnar með skeiðinni en það gekk vægast sagt illa. Ég man að annar gesturinn sagði að þessi réttur væri mjög sérstakur! Og þá var hann ekki að meina ,,sérstaklega góður“! 🙂 Sama kvöld kveiktum við í fyrsta sinn upp í gamla arninum í íbúðinni, Elfar hafði fyrr um daginn rogast heim með 40 kílóa viðarpoka en við áttum ekki bíl. Ég vildi nú breiða yfir þennan misheppnaða rétt og kveikja upp í notalegum arni fyrir gestina. Það tókst ekki betur en svo að íbúðin fylltist af reyk og gestirnir enduðu úti á svölum til að reyna að ná andanum og nágranninn bankaði upp á og hélt að það væri kviknað í! Þessir gestir komu aldrei í heimsókn aftur! 😉

En fylgið bara uppskriftinni og kveikið ekki upp í stífluðum arni, þá get ég lofað ykkur að gestirnir verða sáttir! 🙂

Uppskrift:

  • 1 stór dós perur
  • 4 eggjahvítur
  • 4 msk flórsykur
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 50 gr hvítt súkkulaði (hentar vel að nota hvíta súkkulaðidropa), má sleppa


Aðferð:

Raðið perunum í eldfast mót með skornu hliðina upp. Saxið hvíta súkkulaðið frekar fínt og setjið í dældirnar í perunum, ef notaðir eru hvítir súkkulaðidropar þarf ekki að saxa þá. Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Þekjið perurnar með eggjahrærunni. Bakið við 110 gráður í u.þ.b 20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn fallega brúnn. Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og dreifið því yfir réttinn eftir að formið er tekið úr ofninum . Berið fram heitt með ís.