Ostakökudesert með Dumle Snacks


IMG_0618

Þar sem að við höfum verið mikið heima við í sumar höfum við haldið óvenju mörg matarboð upp á síðkastið. Um daginn hringdi Elfar í mig úr vinnunni, rétt fyrir kvöldmatinn, og spurði hvort að hann mætti taka með sér heim í mat fyrrum vinnufélaga sinn frá Stokkhólmi sem væri staddur hér á landi með fjölskyldu sinni. Ég er alveg hætt að æsa mig of mikið yfir matarboðum og bað hann endilega að gera það. Með aldrinum þá fer mann nefnilega að finnast einna mikilvægast njóta samverunnar við skemmtilegt fólk og ekki gera hlutina of flókna. Ég get þó ekki sagt að mér finnist maturinn farinn að skipta mig minna máli, hann skiptir mig alltaf miklu máli! 😉 En stundum er hið einfalda best. Ég skaust því út í fiskbúð og bjó til góðan fiskrétt. Mig langaði svo mikið að gera ostaköku í eftirrétt en hana þarf að gera með fyrirvara. Ég ákvað því að nota hráefni sem notuð eru í ostaköku og útbúa eitthvað fljótlegt úr þeim. Úr varð þessi stórgóði eftirréttur sem sló í gegn. Þennan desert tekur enga stund að gera en er afar ljúffengur, ég mæli með honum! 🙂

Uppskrift f. 6:

  • 2 dósir Philadelphia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 150 g Digestive kex
  • 300 g jarðarber (og/eða önnur ber)
  • 175 g Dumle snacks

Rjómaosti, grískri jógúrt og rjóma er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Dumle snacks er saxað smátt, jarðarberin skorin í bita. Því næst er öllum hráefnunum blandað í 6 skálar. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni því næst Dumle snacks og loks jarðarberjunum. Þetta er endurtekið einu sinni eða tvisvar eða þar til hráefnið klárast.

IMG_0623

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431