Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431

 

Súkkulaðifrauð


Súkkulaðimousse

Eins og ég sagði frá í gær þá var ég með matrétti um helgina sem henta LKL mataræðinu. Það hefur nú varla farið fram hjá mörgum að þetta mataræði er orðið afar vinsælt hér á landi. Mataræðið inniheldur mjög lítið magn kolvetna en mikið af próteinum og síðast en alls ekki síst, fitu! Það getur verið dálítið flókið að sneiða hjá kolvetnum en kosturinn við þetta mataræði er að það er margt gott leyfilegt. Eftirrétturinn sem ég hafði um helgina var gómsæt súkkulaðimousse eða súkkulaðifrauð. 70-80% súkkulaði er leyfilegt til hátíðabrigða á LKL matarræðinu. Þetta súkkulaðifrauð er afar einfalt en ákaflega ljúffengt í því er einungis dökkt súkkulaði, eggjarauður og þeyttur rjómi. Dásamlega einfalt og gott! Ég hef áður bloggað um súkkulaðifrauð hér. Þar kemur einmitt fram að súkkulaðifrauðin eru til í allskonar útgáfum. Það er af og frá að þetta LKL – súkkulaðifrauð sé einungis fyrir þá sem eru á lágkolvetnismataræði, það er sannarlega fyrir alla aðra sælkera líka! 🙂

IMG_9756

Uppskrift f. 4-6:

  • 100 g dökkt súkkulaði, helst 80%
  • 2 eggjarauður
  • 3 dl rjómi
  • einhverskonar bragðbætir, td. koníak (ég sleppti slíku)

Súkkulaðið er brytjað niður og brætt yfir vatnsbaði við vægan hita, látið kólna dálítið. Því næst er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið einu í senn og blandað vel saman við súkkulaðið. Rjóminn er þeyttur og dálitlum hluta af honum, ca. 1/2 dl., bætt saman við súkkulaðiblönduna og hrært þar til að allt er vel blandað saman. Þá er restinni af rjómanum bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Blöndunni er skipt í glös og látin stífna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hún er borin fram. Gott er að bera fram þeyttan rjóma með súkkulaðifrauðinu og jafnvel skreyta með jarðaberjum eða hindberjum – þau eru leyfileg í LKL!

Hér eru dásamlegu Lattebollarnir frá Cup Company notaðir undir súkkulaðimúsina! 🙂

IMG_9753

Súkklaðimús með karamelliseruðum perum


IMG_9047

Gleðilega páska kæru lesendur! Páskadagurinn hefur verið sólríkur og ljúfur. Flestir eru væntanlega búnir njóta góðrar páskadagsmáltíðar. Ég get séð á tölfræðinni á blogginu mínu hver virðist vera vinsælasti maturinn í dag. Hægeldað lambalæri, lambahryggur og hamborgarhryggur á vinninginn ásamt góðum kartöflum! Þetta eru sem sagt vinsælustu leitarorðin á leitarvélum, til dæmis á Google, sem leiða inn á síðuna mína þennan dásamlega páskadag. Það væri gaman að heyra hvaða páskamatur var á ykkar borðum í dag! 🙂

wordpress

Í gærkvöldi nutum við stórfjölskyldan páskamáltíðar saman heima hjá foreldrum mínum. Í matinn voru gómsæt lambafille. Ég útbjó eftirrétt sem hlaut góðar undirtektir, svo góðar að meira að segja Símon bróðir sem er ekki hrifinn af eftirréttum var búinn með sinn skammt áður en flestir höfðu byrjað á sínum! 😉

páskar

Mér finnst alltaf svolítið skemmtilegt að bera eftirrétti fram í litlum skálum fyrir hvern og einn, það er einhvern veginn meiri lúxus tilfinning yfir því. Ég gerði 16 eftirrétti og þá gildir að eiga nægilega mikið af skálum og pláss í ísskápnum!

IMG_9049

Uppskrift fyrir 6:

  • 4 perur (best að nota harðar perur)
  • 2 msk smjör
  • 3 msk sykurIMG_9039
  • 3 dl rjómi
  • 150 g súkkulaði (ég blandaði mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
  • 3 eggjarauður
  • rifið súkkulaði til skrauts
Perurnar eru afhýddar og skornar í bita. Smjörið og sykurinn hitað á pönnu þar til það byrjar að brúnast og mynda karamellu. Þá er perunum velt upp úr karamellunni á meðalhita í nokkrar mínútur þar til perurnar hafa mýkst og fengið karamelluhúð. Perunum er skipt í sex glös eða skálar.
IMG_9043
Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði á meðan eggjarauðurnar eru þeyttar í skál með handþeytara eða við hægan hraða í hrærivél. Þegar brædda súkkulaðið hefur kólnað dálítið er því bætt út í eggjarauðurnar og þeytt vel á meðan. Þá er þeytta rjómanum blandað vel saman við súkkulaðiblönduna. Súkkulaðimúsinni er dreift jafnt yfir perurnar í skálarnar sex. Skreytt með rifnu súkkulaði og geymt í ísskáp þar til borið fram.
IMG_9051

Súkkulaði – tvenna með hindberjum


Súkkulaði og hindber, tvenna sem ég mun aldrei fá nóg af! Ég prófaði þennan eftirrétt í fyrsta sinn í gærkvöldi og hann skaust strax á top 10 listann yfir uppáhalds eftirrétti og trónir þar mjög ofarlega! Ekki nóg með að hann sé dásamlega bragðgóður heldur er hann afar auðveldur að búa til. Fersk hindber kosta yfirleitt hönd, fót og frumburð manns að auki! Ekki nóg með það heldur eru oftast talsvert af berjunum ónýt í boxinu. Svona spari á ég því alltaf þessi hindber sem fást í Kosti, til að nota í góða eftirrétti. Þau kosta reyndar heilmikið en ekki jafn mikið og fersk. En þá fær maður stór og ljúffeng hindber sem eru næstum því eins og nýtínd þegar þau eru afþýdd, öll heil og alltaf til reiðu í frystinum. Ladys fingers eru fingurkökur sem eru þekktastar fyrir að vera notaðar í Tiramisu (einn af fáum eftirréttum sem ég borða ekki, mér finnst kaffi svo vont!), þær eru meðal annars til í Bónus. Það er líka Ribena saft í uppskriftinni eða Creme de Cassi líkjör en ég átti hvorugt til og setti í staðinn örlítið af sérrý.

Uppskrift (fyrir 4-6 glös)

  • 250 gr hreint mjólkursúkkulaði
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 1/4 dl mjólk
  • 1 peli rjómi
  • 150 gr frosin hindber, afþýdd
  • 200 gr fersk hindber (ég notaði frosin sem ég afþýddi)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • 2 msk flórsykur eða eftir smekk
  • 8-10 fingurkökur (Lady fingers)
  • 3 msk vatn
  • 1 msk Creme de Cassis-líkjör eða 1 msk Ribena-safi

Saxið allt súkkulaðið og setjið í skál. Hitið mjólkina og 3 msk af rjómanum við meðalhita og hellið yfir súkkulaðið. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg má setja það yfir vatnsbað í augnablik. Látið súkkulaðið kólna svolítið og þeytið restina af rjómanum á meðan. Bætið þeytta rjómanum varlega saman við súkkulaðið og kælið í ísskáp. Setjið nú frosnu hindberin (afþýdd) í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og flórsykri og maukið vel. Sigtið hratið frá maukinu og setjið 4-5 msk af hindberjasósunni í djúpan disk ásamt vatninu og líkjörnum. Dýfið fingurkökunum (brjótið þær ef það þarf til að þær passi í glösin) ofan í vökvann og þekjið botninn á glösunum með þeim. Setjið nokkur hindber ofan á kökurnar og hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir. Gott getur verið að setja súkkulaðið í einnota sprautupoka og sprauta ofan í glösin. Setjið afganginn af hindberjunum ofan á súkkulaðimúsina. Látið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Setjið afganginn af hindberjasósunni ofan á hindberin áður en glösin eru borin fram.

Súkkulaðimús


Það eru til nokkrar útfærslur af súkkulaðifrauði. Mér finnst eiginlega hægt að flokka þær gróflega í fjórar útgáfur. Ein útgáfan er súkkulaði, sykur og bara eggjahvítur. Í annarri útgáfu er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið, sem sagt eggjarauðurnar notaðar auk eggjahvítanna. Í þriðju útgáfunni bætist rjómi við grunnhráefnið. Í þeirri fjórðu er enginn rjómi notaður en í stað hans kemur smjör. Í bókinni hennar Juliu Child notar hún einmitt síðastnefndu aðferðina (mæli með kvikmyndinni Julie & Julia ef þið hafið ekki séð hana enn!). Ég er enn að prufa mig áfram. Núna notaði ég uppskrift með hvorki smjöri né rjóma sem telst líklega mest hefðbundin og upprunaleg uppskrift af súkkulaðifrauði og það kom afar vel út. Ég notaði 70% súkkulaði en það er með 70% kakóinnihaldi og 30% sykri. Það er talað um að það þurfi aðeins að venjast svona kröftugu og lítið sætu súkkulaði og mörgum finnst það fullrammt við fyrstu kynni. Fyrir þá sem finnst þetta of rammt súkkulaði geta notað 56% súkklaði í uppskriftina hér að neðan. Næst ætla ég að prófa uppskriftina frá Juliu Child sem er með smjöri og mun auðvitað uppfæra hér á blogginu hvers konar súkkulaðifrauð hafi vinninginn!

Uppskrift f. 6-8 (fer eftir skammtastærð)

200 gr gott dökkt súkkulaði (56-70%)

8 eggjahvítur

75 gr sykur

3 eggjarauður

Súkkulaði brætt í vatnsbaði og kælt dálítið. Eggjarauður ásamt helmingnum af sykrinum þeytt þar til blandan verður ljós. Brædda súkkulaðinu hellt varlega saman við eggjarauðurnar og hrært vel í á meðan. Eggjahvíturnar hálfþeyttar og afganginum af sykrinum bætt út í smátt og smátt meðan þær eru stífþeyttar. Blandið þriðjungi af þeyttu eggjahvítunum rösklega saman við súkkulaðiblönduna með písk eða sleif. Að því búnu er afganginum af eggjahvítunum blandað varlega saman saman við með sleikju. Hér sést rétt tækni hvernig blanda á þeyttum eggjahvítum við annað hráefni án þess að þær missi ,,loftið“.

Setjið súkkulaðifrauðið í skálar eða glös og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en það er borið fram. Það er falleg og gott að skreyta með þeyttum rjóma og berjum, t.d. hindberjum eða jarðaberjum