Um daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.
Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)
- 1 poki Dumle karamellur (120 g)
- 3 dl rjómi
- 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
- 2 msk sykur
- ½ msk smjör
- hindber til skreytingar
Dagur 1:
Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.
Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.
Dagur 2:
Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.
Bakvísun: Fermingarveisla | Eldhússögur
langar að gera þennan rétt, en afhverju fara hneturnar í heitann rjómann, er það svo aðskilt aftur og svo rjóminn hrærður?
Hneturnar fara ekki út í rjómann. Það eru karamellurnar sem eru bræddar og settar út í rjómann, hann kældur alveg niður og svo þeyttur. Hneturnar hins vegar eru brúnaðar í sykri og smjör, látnar kólna, saxaðar niður og deift yfir súkkulaðimúsina.
Sæl mig langar svo að prufa þennan rétt, en skil ég þig rétt að þú þeytir rjómann fyrst og setur hann svo í rjómasprautu… ertu þá ekki að meina svona sprautu sem í raun þeytir rjómann líka (sem maður getur notað í stað þess að þeyta rjóma)?
Sæl. Ég sem sagt kæli rjómann algjörlega og þeyti hann svo í hrærivél. Svo set ég hann í svona sprautu (mjúkur poki með stúti á) sem maður notar til að skreyta kökur með (bara svona til að hann komi fallegri í glösin heldur en ef maður myndi nota skeið). Ekki svona gasrjómasprautu, hann setur bara loft í rjómann tímabundið og það myndi ekki halda.
Bakvísun: Marengsterta með karamellurjóma og hindberjum | Eldhússögur