KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu


KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósuÞað er nú með ólíkindum hversu mikill tími og kraftur fer í að undirbúa fermingarveislu! Þó svo að Vilhjálmur sé þriðja barnið okkar sem fermist þá er þetta eiginlega fyrsti hefðbundni fermingarundirbúningurinn sem við förum í gegnum. Þegar Alexander fermdist þá bjuggum við úti og mamma hans sá um allt þó svo að ég hafi gert einhverjar veitingar í veisluna. Ósk fermdist sama sumar og við fluttum heim frá Svíþjóð. Þá um veturinn gekk hún til íslenska prestsins í Svíþjóð en það var heldur óformleg fermingarfræðsla. Við bjuggum í Stokkhólmi en presturinn var staðsettur í Gautaborg. Öðru hvoru kom hann upp til Stokkhólms og hitti Ósk yfir kakóbolla á kaffihúsi og spjallaði en annars stundaði hún fræðsluna í fjarnámi. Hún fór líka í skemmtilegar fermingarbúðir með öðrum íslenskum krökkum sem bjuggu á Norðurlöndunum. Fermingin fór síðan fram síðla sumars hér á Íslandi rétt eftir að við fluttum heim. Ósk var ein við athöfnina sem varð fyrir vikið einlæg og persónuleg og það voru einungis ættingjar og vinir í kirkjunni. Veislan var í safnaðarsalnum og var fremur látlaus. Við vorum að gera upp húsið okkar og vorum ekki flutt inn. Ég hafði þetta því bara einfalt, keypti smárétti og bakaði sjálf súkkulaðikökur. Ósk hafði fram að þessu búið alla sína ævi í Svíþjóð og einungis farið í eina fermingarveislu áður, hjá Alexander bróður sínum þegar hún var sjö ára. Í Svíþjóð er lítið um að krakkar fermist og ef þau gera það þá eru ekki haldnar miklar veislur, í mesta lagi fer kannski fjölskyldan saman út að borða. Ég sá til dæmis aldrei eina einustu auglýsingu í Svíþjóð sem tengdist fermingum á nokkurn hátt. Það var því gaman að sjá viðbrögð Óskar við öllum fallegu fermingargjöfunum sem hún fékk. Hún hafði engin viðmið þegar kom að fermingargjöfum og hafði satt best að segja ekki hugmynd um að hún myndi fá svona margar og fallegar gjafir, það kom henni alveg í opna skjöldu!

Milli þess sem ég skipulegg fermingarveisluna sem nálgast óðfluga þarf víst fjölskyldan að borða líka. Í kvöld langaði mig að hafa það sem Kaninn kallar ”comfort food”. Ég er ekki hrifin af KFC en samt er eitthvað ávanabindandi við þann kjúkling, allavega fæ ég stundum löngun í KFC þó svo að ég viti innst inni að mér finnist eiginlega ekkert varið í hann – skrítið! Ég gerði í kvöld mikið betri kjúkling sem fær samt að heita KFC – „Kleifarsels Fried Chicken”. Kjúklingurinn var ákaflega meyr og bragðgóður og féll sannarlega vel í kramið hjá öllum í fjölskyldunni. Ég ætlaði að hafa sætkartöflu franskar með kjúklingnum en það breyttist á síðustu stundu í sætkartöflumús, ég er bara með æði fyrir henni þessa dagana! Það er svo lítið mál að búa hana til, að þessu sinni skrældi ég sætkartöflur og skar í bita. Sauð bitana í vatni þar til þeir voru orðnir mjúkir, stappaði og bætti smá naturel Philapelphia osti út í ásamt Philadelphia með sweet chili) og kryddaði með chiliflögum. Það er líka hægt að nota til dæmis smjör í stað rjómaosts.IMG_4533

Uppskrift:

 • 6 -7  kjúklingabringur (ég nota kjúkling frá Rose Poultry)
 • ca. 24 Ritz kex kökur
 • 2 bollar Corn Flakes
 • 2 msk sesamfræ
 • 1/4 -1/2 tsk cayenne pipar
 • 1 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
 • 2 eggjahvítur
 • 1 dós jógúrt án ávaxta
 • 1 msk dijon sinnep
 • 1/2 tsk salt
 • ólífuolía

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður eða spreyjaður með ólífuolíu. Kornflex og Ritzkex er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, hvítlaukskryddið og sesamfræin. Í annarri skál er eggjahvítum, dijon sinnepi, jógúrti og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr kornfleks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á bringunum, ef þær eru litlar þarf jafnvel að taka þær út fyrr. Borið fram með sætkartöflu frönskum eða sætkartöflumús og sinnepsjógúrtssósu.

IMG_4539

Sinnepsjógúrtsósa:

 • 1 dós grísk jógúrt
 • ca. 1 msk dijon sinnep
 • ca. 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
 • 1.5 tsk hunang

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_4532

 

 

 

6 hugrenningar um “KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu

 1. Þessi er í ofninum með sætkartöflufrönskum sem eru í uppáhaldi þessa dagana. Hlakka til að smakka 🙂

 2. Þessi réttur er algjör snilld. Dásamlega góður, mæli með honum eins og öll öðru sem ég hef prófað 😉

 3. Enn ein frabaer uppskrift fra ther, allt svo huggulegt og gott hja ther. Eg atti ekki egg, sleppti thvi hvitunum og notadi surmjolk i stad jogurt. Thetta kom skemmtiega a ovart, langtum hollara og bragdbetra en KFC svo eg tali ekki um odyrara. Takk fyirir okkur.

 4. Svakalega góða þessar bringur, gerði sætkartöflufranskar með og þær slógu heldur betur í gegn alveg æðisleg og einföld máltíð 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s