Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum


Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! 🙂

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! 🙂 Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! 🙂

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052

Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431

 

Vinsælustu eftirréttirnir


20130102-061307Nú þegar árinu er senn að ljúka er við hæfi að taka saman vinsælustu og bestu uppskriftirnar héðan af Eldhússögum á árinu. En þar sem að mér finnst sjálfri svo dæmalaust gaman að skoða svona vinsældarlista þá ákvað ég að gera fleiri en einn lista í ár. Ég er sjálf að skipuleggja hvaða eftirrétt ég á að útbúa fyrir gamlárskvöld og ákvað í framhaldi af því að gaman gæti verið að taka saman lista yfir 15 vinsælustu eftirréttina hér á Eldhússögum frá upphafi. Kannski getið þið nýtt ykkur uppskrift af þessum lista fyrir gamlárskvöld! 🙂

1. Snickerskaka

SnickerskakaLangvinsælasta uppskriftin á Eldhússögum frá upphafi er þessi gómsæta Snickerskaka en uppskriftin hefur verið skoðuð yfir 30 þúsund sinnum. Kakan sómir sér vel sem sætur eftirréttabiti með þeyttum rjóma eftir góða máltíð.

2. Karamellu marengsterta

Karamellu marengsterta

Þessi dásemdar marengsterta er hér um bil jafn vinsæl og Snickerskakan góða. Ástæðan er sú að hún er bara nákvæmlega eins og frábærar marengstertur eiga að vera – algjör æðibiti!

3. Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368Það hefur ekki borið mikið á þessari uppskrift á Eldhússögum en hægt og í hljóði hefur hún klifrað upp á topp tíu listann yfir mest skoðuðu uppskriftirnar á síðunni. Ég hef ekki hitt nokkurn fyrir sem ekki dásamar þessa köku, hún er algjörlega öruggt spil við allar aðstæður!

4. Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8695Frábær súkkulaðikaka sem er frábær nýbökuð og heit en jafnvel enn betri daginn eftir. Ekki spillir fyrir hversu auðvelt er að búa hana til, það þarf enga hrærivél! Endilega prófið aðrar útgáfur af Pippinu, til dæmis nýja Pippið með Irish Cream, það passar vel fyrir gamlárskvöld!

5. Kladdkaka með karamellukremi

img_7456Ég er ekkert hissa á því að sænska kladdkakan (klessukaka) með karamellukremi sé svona vinsæl eins og raun ber vitni. Kakan er ljúffeng og karamellukremið út úr þessum heimi gott!

6. Klessukaka með Daimrjóma

Klessukaka með daimrjómaNæst í röðinni er önnur kladdkaka, að þessu sinni með Daimrjóma. Það þarf varla að skýra út hvers vegna hún er vinsæl, myndirnar ljúga ekki! 😉

7. Pavlova

IMG_3270

Þið eruð kannski farin að sjá regluna í þessum lista … súkkulaðikökur í bland við smá marengs – augljóst hvað er vinsælast hjá landanum! 🙂 Pavlova er auðvitað klassísk, stökkur marengsinn með „chewy“ miðju, þeyttur rjómi og fersk ber, gerist ekki betra!

8. Banana-karamellubaka

IMG_3190

Þessa uppskrift setti ég hér inn á Eldhússögur í árdögum síðunnar eins og sést á myndunum. En í guðanna bænum látið ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi baka er svo ótrúlega ljúffeng enda er þetta áttunda mest lesna eftirrétta uppskriftin.

9. Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi

IMG_1086Þessi ljúffenga kaka hlaut fyrstu verðlaun í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus og uppskriftin var birt í bæklingnum þeirra. Það þarf varla að hafa um þetta fleiri orð, ekki lýgur Nói … hvað þá Siríus! 🙂

10. Heit súkkulaðikaka með mjúkri miðju

IMG_7432

Enn ein súkkulaðikakan á topplistanum – hvað get ég sagt ágætu lesendur – þið elskið einfaldlega súkkulaði! 😉 Þessi litla dásemd er auðvitað frábær eftirréttur fyrir gamlárskvöld. Það er hægt að undirbúa hann fyrirfram og stinga formunum bara beint í ofninn í ca. 12-15 mínútur áður en hann er borinn fram.

11. Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

IMG_1089Þetta er ljúffengur og ákaflega einfaldur eftirréttur sem hentar sérstaklega vel ef maður er með marga í mat. Það er hægt að útfæra hann á nokkra vegu en mér finnst best að nota mars súkkulaðið og niðursoðnar perur.

12. Súkkulaðikaka með “fudge” kremi

IMG_9261

Já, þetta er að gerast – enn ein súkkulaðikakan á topplistanum! Þessi kaka er hálfgerð blanda af öllum þessum súkkulaðikökum í listanum hér að ofan. Þið verðið ekki svikin ef þið veljið þessa fyrir gamlárskvöld, ég ábyrgist það! 🙂

13. Brownie-kaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Það er ekki nóg með að þessi kaka sé einstaklega gómsæt heldur er hún augnayndi að auki. Hún er einfaldari að útbúa en halda mætti, endilega prófið!

14. Pavlova í fínu formi

IMG_8322Hér er Pavlova í eldföstu móti – einföld, ljúffeng og falleg!

15. Döðlueftirréttur

IMG_8025

Ef þið hafið ekki enn uppgötvað hversu góðar döðlur eru í eftirrétti þá er núna tækifærið! Þessi réttur er svolítið retró og ó svo góður. Karamellusósan setur sannarlega punktinn yfir i-ið í þessum rétti.

Þar með er topplistinn yfir 15 mest lesnu eftirrétta-uppskriftirnar hér á Eldhússögum tæmdur. Hins vegar langar mig að bæta við sex uppskriftum (og mig langaði að hafa þær mikið fleiri!) sem mér finnst að eigi heima ofarlega á þessum lista. Trúið mér, þessar uppskriftir eru skotheldar! 🙂

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu

IMG_1917

Gott og fallegt – fallegt og gott! Hvað get ég sagt, hindber, rjómi og hvítt súkkulaði, þetta er bara ómótstæðileg blanda!

Súkkulaðipannacotta með karamellu

Súkkulaðipannacotta með karamelluPannacotta er svo ótrúlega einfalt að útbúa en að sama skapi dásamlega gott. Ég bauð ömmu þessa útgáfu og henni fannst þetta besti eftirrétturinn sem hún hefur bragðað … þá erum við að tala um á 85 árum – ef það er ekki góð einkunn þá veit ég hvað! 😉

Ostakökubrownie með hindberjakremi

Ostakökubrownie með hindberjakremi

Ég þarf varla að útskýra af hverju þessi kaka er á mínum topplista, hér er hreinlega allt það sem er gott sett saman í eina dásemdarköku!

Súkklaðimús með karamelliseruðum perum

IMG_9051 Ég er með nokkarar útgáfur af súkkulaðimús á síðunni minni og hefði viljað setja þær allar hingað á listann. Mjúk og bragðgóð súkkulaðimús er svo frábær endir á ljúffengri máltíð. Ég valdi samt þessa útgáfu af súkkulaðimús. Hér er hún færð upp á annað stig með því að lauma gómsætum karamelliseruðum perum í botninn – algjört gúrmei!

Bismarkbaka með súkkulaðisósu

IMG_6924

Ákaflega hátíðlegur og góður eftirréttur sem ég bauð upp á gamlárskvöldi í fyrra og á jólunum árið áður. Það hlýtur að vera afar góð einkunn! 🙂

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042Ég kom næstum því sjálfri mér á óvart með því að setja ís á þennan lista, venjulega er ís nefnilega eini eftirrétturinn sem ég stenst auðveldlega. En þetta er enginn venjulegur ís skal ég segja ykkur – núggatið gerir hann ómótstæðilegan! Bætið síðan súkkulaðisoðnu perunum við og rétturinn verður toppurinn á gamlárskvöldi! 🙂

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu


Hvitt súkklaðifrauð með hindberjasósu

Mikið væri gaman ef þið ykkar sem eruð á Instagram mynduð „hashtagga“ myndir af útkomunni á Instagram þegar þið prófið uppskriftir héðan af Eldhússögum! Þá sem sagt takið þið mynd af réttinum, setjið hana á Instagram og merkið undir myndina #eldhussogur. Þannig safnast saman allar myndirnar undir því „hashtaggi“ og með því að slá inn „eldhussogur“ í leit á Instagram er hægt að sjá allar myndirnar með þessari merkingu. Ég heyri frá svo mörgum og af svo mörgum sem nota uppskriftirnar á Eldhússögum. Mér finnst það eiginlega dálítið óraunverulegt að svona margir séu að búa til þessa rétti sem ég dunda mér við að gera í eldhúsinu mínu. Þess vegna væri voðalega gaman að sjá útkomuna hjá ykkur hinum – nú bíð ég spennt! 🙂

IMG_1926

Ég uppgötvaði að ég hef ekki enn sett inn hér á síðuna uppskrift af miklum uppáhalds eftirrétti, hvítu súkkulaðifrauði með hindberjasósu. Í réttinum er hvítt súkkulaði sem mér finnst afar gott en það þarf að vera í afar passlegu magni finnst mér, það má alls ekki vera yfirgnæfandi. Í þessum rétti er það einmitt þannig, hvíta súkkulaðið er í frábærri blöndu við hindberin og rjóma. Þetta er fljótlegur réttur að gera og ákaflega þægilegt að geta gert hann með góðum fyrirvara. Mér finnst alltaf svo gott að vera með þannig eftirrétti þegar ég held matarboð, eftirrétti sem hægt er að taka tilbúna úr ísskápnum og setja beint á borðið.

IMG_1915

Uppskrift, passar í 5 – 6 skálar:

  • 350 g frosin hindber, afþýdd
  • 2 msk sykur
  • 2 msk Grand Marnier
  • 5 dl rjómi
  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 1-2 dropar rauður matarlitur

IMG_1909

4 og 1/2 dl rjómi þeyttur. Hindberin sett í blandara og þau maukuð vel. Því næst eru þau sett í sigti og berjahratið þannig síað frá. Til þess að hraða fyrir þessu þá hræri ég stöðugt og vel í sigtinu og hraða þannig ferlinu. Berjahratinu er hent, sykri og líkjöri er bætt við sléttu berjasósuna og hrært vel saman. Hvíta súkkulaðið er brætt í potti ásamt 1/2 dl af rjóma við vægan hita og hrært í á meðan, potturinn er tekinn strax af hellunni þegar blandan er tilbúin og ca 1 msk af berjablöndunni bætt út í ásamt matarlitnum. Þá er blandan kæld að stofuhita. Nú er súkkulaðiblöndunni blandað saman við þeytta rjómann. Best er að blanda súkkulaðiblöndunni smátt og smátt út í rjómann og hræra á milli. Því næst er berjablöndunni blandað út í en gott er að skilja smávegis eftir af berjablöndunni til þess að skreyta með. Að lokum er blöndunni skipt í 5- 6 glös eða skálar. Fallegt er að skreyta hvern skammt með smá berjablöndu og jafnvel hindberjum og ferskri myntu eins og ég gerði hér á myndunum. Kælt í ísskáp í minnst þrjá tíma.

10425Sævar vínþjónn mælir með ljúffenga eftirréttavíninu Concha Y Toro late harvest Sauvignon Blanc frá Chile með þessum rétti.

Lýsing: Sítrónugult. Múk fylling, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

IMG_1923

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782