Dásamleg kirsuberjaterta


Þessa mynd tók ég fyrir um það bil ári síðan þegar ég gerði þessa dásamlegu kirsuberjatertu í fyrsta sinn og tók hana með til góðra vina í Grjótaþorpinu. Ég hafði séð upppskriftina á ýmsum sænskum matarbloggum og gat ekki annað en prófað. Síðan þá hef ég gert þessa tertu nokkrum sinnum, breytt og aðlagað uppskriftina og núna er þetta ein af mínum uppáhaldstertum.  Það er mikilvægt að gera tertuna deginum áður og leyfa henni að brjóta sig í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram. Botnarnir verða þá blautir, eiginlega eins og súkkulaðifrauð eða búðingur sem er einstaklega ljúffengt í bland við gómsæta kirsuberjakremið! Í uppskriftinni er mascarpone ostur en ég hef líka notað rjómaost og mér finnst það alveg jafn gott. Kirsuber fást yfirleitt aldrei á veturnar og þá er hægt að skreyta tertuna með öðrum berjum. En núna eru kirsuber til í mörgum verslunum þannig að það er ákkurat rétti tíminn til að prófa þessa dásemd! Það tekur dálítin tíma að gera tertuna þar sem að það þarf að baka þrjá botna og búa til tvenns konar krem. En ég get lofað að það er þess virði! 🙂

IMG_8361

Hér bakaði ég tertuna við annað tækifæri og skeytti hana með jarðaberjum í stað kirsuberja

Uppskrift

Kökubotnar

 • 2 egg
 • 2 dl sterkt kaffi
 • 2½ dl súrmjólk
 • 1,25 dl matarolía
 • 200 g hveiti
 • 420 g sykur
 • 85 g kakó
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur

IMG_7174Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

Kirsuberjakrem

 • 500 g mascarpone ostur
 • 3 dl rjómi
 • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
 • 120 g sykur
 • ½ tsk vanilusykur

Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.

Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.

Súkkulaðikrem

 • 175 g suðusúkkulaði
 • ½ dl rjómi
 • 1 msk smjör
 • 1msk síróp

Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!

 

27 hugrenningar um “Dásamleg kirsuberjaterta

 1. Guðdómlega góð terta!! Verð alltaf að fá mér eina sneið af þessari þó að ég sé lítið fyrir tertur/ kökur almennt. 🙂

 2. Mikið ofboðslegs yrðir þú elskuð mikið meira af konum sem nú þegar dá þig ef þú mættir með eina svona á skíðafund á fimmtudagskvöldið;)

 3. Bakvísun: Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti | Eldhússögur

 4. hæhæ lángar að prufa þessa dásemd 🙂 ennn ég er ekki viss hvar ég fæ kirsuberjasósu er hún i pakka eins og sósur eða i krukku eða er þetta bara sulta 🙂 hjálp 🙂

 5. Gerði tertuna og hún gerði mikla lukku 🙂 allar konurnar og kallar vildu fá uppskriftina hún er algjört æði takk fyrir mig 🙂

 6. Bakvísun: Eftirréttir fyrir gamlárskvöld | Eldhússögur

 7. Bakvísun: Pönnubuff með steinseljusmjöri | Eldhússögur

 8. Mig langar að prófa þessa köku en velti því fyrir mér hvers vegna það er svona mikill sykur í henni. Væri ekki óhætt að minnka sykurmagnið í uppskriftinni?

  • Sæl Una, þetta er góð spurning! 🙂 En þetta eru þrír kökubotnar, það eru því 140 g sykur í hverjum botni eða 1.4 dl. Það er í raun ekkert svo mikið miðað við kökuuppskriftir. Ég er búin að minnka sykurmagnið töluvert, síðast þegar ég bjó til kökuna notaði ég 420 g sem var minnkað magn frá því að ég gerði kökuna þar á undan. Ég hef prófað að minnka sykurmagnið enn meira en þá missa botnarnir þessa frauðkenndu áferð sem er svo rosalega góð! 🙂

   • Einmitt… og ekki nema tæp 70 g af hveiti í hverjum botni eða helmingi minna en af sykrinum.. mér finnst það bara svo rosalega mikill munur. Ég prófa örugglega að minnka sykurmagnið ef ég skelli í þessa 🙂

   • Já en reyndar eru þessi hlutföll einkenni svona súkkulaðikaka til þess að ná fram tilætluðu bragði og áferð. Til dæmis er í hefðbundinni franskri súkkulaðiköku (einn botn) 180 grömm sykur en aðeins 60 grömm hveiti. Það er því minna sykurmagn í þessari köku miðað við venjulega franska súkkulaðiköku. Það þarf því að prófa sig varlega áfram svo að kakan heppnist! 🙂

 9. Er þetta uppskriftin sem þú gafst og heitir „heimilisleg hnallþóra“ í Fréttablaðinu núna 27.febrúar? Sú kaka er með betri kökum sem ég hef smakkað 🙂

 10. Fékk að smakka þessa köku um daginn æðisleg:) ætla að fara baka hana sjálf en er ekki með blástur á ofninum mínum, er allt í lagi að hafa bara undir og yfir hita?

  • Þú getur haft undir- og yfirhita ef þú kemur öllum bökunarformunum fyrir á einni grind (sem ég held tæplega að sé hægt). Ef þú notar undir- og yfirhita þá þarftu líklega að baka botnana þrjá í tveimur umferðum – það er ekki hægt að setja inn bökunarform á tveimur hæðum nema að það sé blástur.

 11. Sæl…mig langaði svo að vita hvort þú kælir kökuna með súkkulaðikreminu eða án??

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s