Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti


Þessa dagana er fámennt á heimilinu. Ósk var að fara til Madrid með Versló bekknum sínum í tengslum við spænskuáfanga. Elfar er í Stokkhólmi vegna rannsóknarverkefnis og verður þar í heila viku. Alexander er í prófum í læknisfræðinni og sést því lítið heima. Það eru því bara ég og yngri krakkarnir í kvöldmat. Þegar við Jóhanna Inga vorum úti í búð spurði ég hvað hana langaði að borða í kvöldmat. Það stóð ekki á svari, vöfflur! Það er reyndar ekki eins út í hött og það hljómar! Við erum með tvöfaldan ríkisborgararétt, erum Svíar líka, og þeir borða bæði vöfflur og pönnukökur í kvöldmat og það með rjóma og sultu meira að segja! Það er löng hefð í Svíþjóð að borða baunasúpu á fimmtudögum. Hefðin á uppruna sinn frá miðöldum. Þá var baunasúpan soðin með vænum kjötbita og var snædd á fimmtudögum en á föstudeginum var fastað. Pönnukökurnar voru bornar á borð sem eftirréttur á eftir baunasúpunni til þess að veita góða magafylli fyrir föstuna daginn eftir. Þessi hefð er enn ótrúlega rík í Svíþjóð. Í til dæmis flestum mötuneytum,  á elliheimilum, í mörgum skólum og á fjölmörgum veitingastöðum er baunasúpa í matinn á fimmtudögum auk pönnukaka og stundum vaffla í eftirrétt. Ég mundi allt í einu eftir því að ég skoðaði Gestgjafann á biðstofu um daginn og sá svo girnilega uppskrift af ósætum belgískum vöfflum með bæði parmesan osti og rjómaosti. Ég hafði tekið mynd á símann minn af uppskriftinni og gat því verslað það sem þurfti í uppskriftina. Kvöldmaturinn hjá okkur var því hálfgerður morgunmatur og/eða ný útgáfa af sænskum fimmtudagseftirrétti: belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti með spældu eggi og beikoni! Ég notaði belgíska vöfflujárnið mitt en það er líka hægt að nota venjulegt vöfflujárn. Það er svolítil kúnst að gera vöfflur stökkar. En ég er búin að uppgötva frábært ráð þegar kemur að belgískum vöfflum. Það er að rista þær í brauðrist eftir bökun! Þær verða mjög stökkar að utan, mjúkar að innan og rjúkandi heitar. Svo er gott að nota íslenskt smjör ofan á þær sjóðandi heitar, þá bráðnar það og gerir vöfflurnar ómótstæðilegar! Ég geri því alltaf svolítið af aukavöfflum sem ég geymi og hægt er að rista daginn eftir.

Uppskrift:

 • 250 gr hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti eða grófu spelti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 40 gr parmesan ostur (rifinn)
 • 3 egg
 • 4 dl mjólk
 • 70 gr rjómaostur
 • 70 gr smjör, brætt
 • salt og pipar

Hitið vöfflujárnið og blandið saman hveiti, lyftidufti og parmesan osti saman í skál. Bætið eggjum og 2 dl af mjólkinni út í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Hrærið rjómaost saman við og síðan smjör og afganginn af mjólkinni. Bragðbætið með salti og pipar. Bakið vöfflurnar þar til þær hafa fengið góðan lit. Afar gott er að setja vöfflurnar í brauðrist og smyrja þær með smjöri.

Um daginn efndi Nói og Siríus til uppskriftasamkeppni. Þeir leituðu að uppskrift til að setja í uppskriftabæklinginn sinn árið 2012.  Ég sendi inn uppskrift af uppáhaldskökunni minni, kirsuberjatertunni góðu. Ég vann ekki en fékk aukaverðlaun fyrir ,,girnilegustu uppskriftina“! Verðlaunin voru karfa með bökunarvörum. Þegar ég sótti körfuna kom í ljós að þetta var aldeilis rausnarleg karfa, hún var troðfull af Nóa og Siríus vörum og hafði auk þess að geyma bæði stóran konfektkassa og uppskriftabókina þeirra, Súkkulaðiást! Vel gert Nói! 🙂

8 hugrenningar um “Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti

 1. Mín bara orðin fræg 😉 Er ekkert smá stolt af þér enda er þetta flottasta bloggið og það eina sem ég skoða!!! Flott í Mogganum!!!

 2. Ah, hvað þetta er girnileg uppskrift, það voru einmitt vöfflur með appelsínubragði í kaffinu hér í gær. En til hamingju með gjafakörfuna frá Nóa og birtinguna í Mogganum 🙂

 3. sæl, nú er ég búin að eignast vöffluform fyrir blegískar vöfflur til að baka í ofni, heldurðu að það væri sniðugt að nota þessa uppskrit fyrir þessi form? ég ætla að prófa hina vöffluuppskriftina þína í kvöld, hlakka mikið til…:)

  • Spennandi Brynja! 🙂 Ég hef ekki prófað þessa uppskrift í formunum en ég held að það kæmi vel út. Svo mæli ég líka með með súkkulaði/bananavöfflunum í þessi form! 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.