Þegar ég sá þessa uppskrift á sænsku bloggi þá fannst mér hún fyrir það fyrsta líta afar girnilega út en að auki leit hún út fyrir að vera voðalega auðveld! Ég hafði rétt fyrir mér, þessi snúðar eru svakalega góðir og þetta er fljótgerð og auðveld uppskrift. Samt tókst mér næstum því að klúðra henni! Ég er ekki alveg viss um hvað ég gerði rangt en snúðarnir hjá mér voru ekkert líkir fyrirmyndinni! Aðallega var það vanillukremið sem var allt öðruvísi í útliti, bragðið var reyndar rosalega gott. En kremið átti samkvæmt upphaflegu uppskriftinni að vera meira gult og ekki að brúnast svona í ofninum. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því að kremið hjá mér var hvítt, ég hef líklega þeytt þeytt það alltof mikið, ég hugsa að það eigi bara að hræra það saman létt með gaffli. Ég hins vegar þeytti það í hrærivélinni það til kremið varð létt og ljóst. Að auki klikkaði næstum því hjá mér bökunartíminn, það var á mörkunum að ég bakaði snúðana nóg, þeir voru orðnir vel dökkir að utan en samt á mörkunum að vera bakaðir í gegn. Ég bakaði þá í rúmar 15 mínútur, 20 mínútur eru líklega nær lagi. En góðir voru þeir! Alveg hrikalega góðir meira að segja! Ég hvet ykkur til að prófa og gera ekki mín mistök og athuga hvort snúðarnir verði ekki fallegri en mínir!
Uppfærsla: það var nú svo skrítið að daginn eftir voru snúðarnir allt öðruvísi í útliti, kremið hafði sest betur og var orðið gulleitt eins og hjá fyrirmyndinni. Þannig að þetta var kannski ekkert svo galið hjá mér eftir allt saman! 🙂 En ég mæli samt með því að píska bara kremið létt með gaffli.
Vil byrja á að þakka fyrir frábært matarblogg. Ég hef verið að leita að perlusykri eins og þú notar í þessari uppskrift, veistu hvort hann sé yfir höfuð fáanlegur hér á klakanum?
Takk Sigurbjörg! 🙂 Nei, vandamálið er að hér á Íslandi virðist bara vera til önnur útgáfa af perlusykri, þó svo að pakkningarnar séu eins og í Svíþjóð! Hér sérðu muninn: http://systertaki.blogg.se/2009/may/laran-om-parlsocker.html
Þessi pakki til vinstri er norskur (og líklega danskur líka) perlusykur og sú tegund sem fæst hér á landi, þetta eru sykurkorn sem eru eiginlega glær og meira eins og hefðbundinn sykur. Þessi til hægri er nákvæmlega sama pakkning en er sænskur perlusykur. Það er hinn eiginlegi perlusykur, hvítur og harður, sem bráðnar ekki við bökun og er notaður á snúða í Svíþjóð m.a.
Ég gæti þó haft rangt fyrir mér og að sænski perlusykurinn fáist hér á landi einhversstaðar! Ef svo er þá væri frábært að fá upplýsingar um það frá öðrum lesendum! 🙂
Takk Sigurbjörg! Nei, vandamálið er að hér á Íslandi virðist bara vera til önnur útgáfa af perlusykri, þó svo að pakkningarnar séu eins og í Svíþjóð! Hér sérðu muninn: http://systertaki.blogg.se/2009/may/laran-om-parlsocker.html
Þessi pakki til vinstri er norskur (og líklega danskur líka) perlusykur og sú tegund sem fæst hér á landi, þetta eru sykurkorn sem eru eiginlega glær og meira eins og hefðbundinn sykur. Þessi til hægri er nákvæmlega sama pakkning en er sænskur perlusykur. Það er hinn eiginlegi perlusykur, hvítur og harður, sem bráðnar ekki við bökun og er notaður á snúða í Svíþjóð m.a.
Ég gæti þó haft rangt fyrir mér og að sænski perlusykurinn fáist hér á landi einhversstaðar! Ef svo er þá væri frábært að fá upplýsingar um það frá öðrum lesendum! 🙂
Takk fyrir þetta, ég nefnilega keypti þennan sænska fyrir allmörgum árum síðan hér heima, þetta var sá perlusykur sem fékkst hér, hef svo ekki séð neitt nema þennan glæra undanfarin ár. Sem er miður, þar sem þessi sænski er svo mikið betri.
En ég kíki eftir þessum sænska í öllum verslunum sem ég fer í held ég án árangurs enn sem komið er. Læt vita ef mér verður eitthvað ágengt;).
Bakvísun: Kanelsnúðar með vanillukremi | Eldhússögur