Kanilsnúðar


IMG_7736Það er búið að vera útstáelsi á okkur hjónum undanfarin kvöld. Við fórum meðal annars á frábæra jazztónleika með Stórsveit Reykjavíkur og í bíó á myndina Django Unchained. Hvort tveggja nokkuð sem við mælum eindregið með. Næst á dagskrá hjá mér er leikshúsferð með vinkonunum um helgina á Macbeth. Ég væri alveg til í að fara á tónleika, í leikhús og í bíó í hverri viku! 🙂

Jóhanna Inga er búin að vera skoða snúða og vínarbrauð sem ég hef sett inn hér á síðuna og langaði svo óskaplega mikið til að baka eitthvað af því. Þegar ég renndi í gegnum uppskriftirnar uppgötvaði ég að ég er ekki enn búin að setja inn á síðuna uppskriftina mína af hefðbundum sænskum kanilsnúðum! Það er auðvitað eitthvað sem ég þurfti snarlega að bæta úr – ekki viljum við missa sænska ríkisborgararéttinn! Kanilsnúðar eru greiptir djúpt í þjóðarsál Svía. Þeir eru vinsælasta bakkelsið í bakaríum og á kaffihúsum, alltaf bakaðir fyrir afmæli og ómissandi þegar á að „fika“. Mér finnst best við þessa uppskrift hvað fyllingin er djúsí og góð. Ég nota sænskan perlusykur ofan á snúðana en hann fékk ég í Svíþjóð. Sá sem fæst hér er ekki sá sami, ég skrifaði um það hér.

IMG_7730

Uppskrift:

 • 800 gr hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 1 1/2 dl sykur
 • 1 bréf þurrger
 • 130 g smjör
 • 1/2 líter mjólk

Smjör er hitað í potti þar til það bráðnar og þá er mjólkinni bætt út í. Þurrger sett í skál og þegar vökvinn er ca. 37 gráður er honum hellt út í og pískað létt saman við gerið. Eftir smástund er þurrefnunum blandað út í. Gott er að skilja dálítið eftir af hveitinu og bæta við eftir þörfum. Ég reyni að hafa deigið eins blautt og hægt er en þó þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist of mikið. Deigið er hnoðað í nokkrar mínútur í vél eða aðeins lengur í höndunum. Deigið er svo látið hefast á hlýjum stað undir viskustykki í ca. 40 mínútur. Þegar sá tími er liðinn er deginu skipt í þrjá eða fjóra hluta. Hver hluti er  flattur út í fremur ílangan ferning og fyllingin borin á.

IMG_7714

Fylling:

 • 150 gr smjör við stofuhita
 • 1 1/3 dl sykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 1 1/2 msk kanill
 • egg og perlusykur

Öllum hráefnunum hrært saman fyrir utan eggið og perlusykurinn. Þegar fyllingunni hefur verið dreift yfir deigið er því rúllað upp og rúllan skorin í sneiðar. Snúðunum er svo raðað á bökunarpappír, þeir penslaðir með eggi og stráð yfir perlusykri (honum má auðvitað sleppa). Gott er að leyfa snúðunum að hefast undir viskustykki í ca. 30 mínútur til viðbótar.

IMG_7717

Bakarofn er hitaður í 220 gráður (undir- og yfirhita) og snúðarnir bakaðir í miðjum ofni í um það bil 8-10 mínútur.

IMG_7733

Vínarbrauð


IMG_7629Þetta get ég aldrei bakað aftur, grínlaust! Ég gat ekki hamið mig í dag og gúffaði í mig alltof mörgum stykkjum, ég ræð ekkert við mig þegar þetta vínarbrauð er annars vegar! Vanillukremið, ómægod! Þessi vínarbrauð eru hrikalega góð, öll fjölskyldan var innilega sammála um það. Deigið er gert úr köldu gerdeigi og þarf ekki að hefast. Þetta er því afar fljótgerð og einföld uppskrift. Vanillukremið er dásamlega gott og er hægt að nýta fyrir pæ, ávexti og aðra eftirrétti. Ég tók eftir því að vanillustöngin sem ég notaði var með litlar hvítar doppur. Það er auðvelt að halda að hún sé mygluð eða skemmd en svo er alls ekki, þvert á móti. Það er merki um að vanillustöngin sé af góðum gæðum. Þessar hvítu doppur er vanilla sem hefur kristallast út úr stönginni.

IMG_7607

Best er að byrja á því að gera vanillukremið.

Uppskrift vanillukrem:

5 dl mjólk
1 st vanillustöng
1 1/2 dl sykur
5 st eggjarauður
1 1/2 dl maizenamjöl
50 g mjúkt smjör

Vanillustöngin klofin á lengdina og fræin skafin innan úr stönginni. Fræin og stöngin sett í pott ásamt mjólkinni og suðan látin koma upp varlega. Það þarf að gæta þess að mjólkin brenni ekki. Vanillustöngin er veidd upp úr mjólkinni.

Sykur, eggjarauður og maizenamjöl þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Smátt og smátt er heitu mjólkinni bætt út í. Blöndunni er hellt aftur ofan í pottinn og hún hituð varlega á meðalhita, hrært á meðan með písk. Það þarf að gæta þess að blandan sjóði ekki og hafa tilbúna kalda skál til að hella kreminu í. Þegar kremið þykknar þá gerist það snöggt og þá er mikilvægt að hella kreminu strax í kalda skál. Þá er smjörinu bætt út í og því pískað saman við kremið þar til það hefur blandast vel saman. Vanillukremið er látið kólna dálítið í ísskáp.

IMG_7631

Vínarbrauð:

12 g þurrger (1 bréf)
2 dl mjólk
2 egg
150 g smjör við stofuhita
8 dl hveiti

Fylling fyrir annan helming deigsins:

75 – 100 g smjör, við stofuhita
2 dl sykur
1 tsk möndludropar

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Ger sett í skál, kaldri mjólk bætt við og gerið leyst upp (ég pískaði þetta saman). Eggjum bætt við (ég notaði líka písk til þess). Nú setti ég deigkrókinn á hrærivélina, bætti hveitinu og smjörinu út í og hnoðaði allt saman í hrærivélinni. Deiginu er síðan skipt í tvo jafn stóra hluta. Annar hlutinn er flattur út á ofnplötu með kökukefli. Til að auðvelda það merkti ég stærð ofnplötunnar á bökunarpappír og flatti út deigið á bökunarpappírnum sem ég flutti svo yfir á ofnplötuna. Þá er vanillukreminu smurt jafnt yfir deigið. Það er í lagi þó svo að kremið sé ekki orðið alveg kalt.
Þá er hinn hluti deigsins flattur út í svipaða stærð. Smjörið, sykurinn og möndludroparnir hrært saman og smurt yfir helminginn af deiginu. Hinn helmingur deigsins er svo lagður yfir og deigið skorið í lengjur.

IMG_7610IMG_7618
Þá er snúið upp á lengjurnar og þær lagðar þvers og kruss yfir vanillukremið.
IMG_7622
Penslað með eggi og bakað í ofni við 200 gráður í 20 mínútur. Það er líka hægt að sleppa því að pensla með eggi og setja glassúr á vínarbrauðið eftir baksturinn.
IMG_7626

Kanilsnúðar með vanillukremi


Jóhanna Inga er búin að tala um sænsku snúðana með vanillu- og rjómaostakremi hér um bil daglega síðan ég bakaði þá síðast. Þeir eru í algjöru uppáhaldi hjá henni og reyndar okkur hinum líka. Ég lofaði Jóhönnu að baka snúða um síðustu helgi en langaði svo að prófa nýja spennandi kanilsnúða uppskrift sem ég sá á sænskum uppskriftavef. Það reyndist vera góð ákvörðun þar sem allir á heimilinu kolféllu fyrir þessum nýju snúðum! Dómurinn frá Alexander var að þetta væru ,,snúðar á öðru leveli en allir aðrir snúðar!“. Vilhjálmi fannst þeir ,,geðveikt góðir“ og ég held að ég taki undir með þeim báðum. Vanillukremið setti sannarlega punktinn yfir i-ið!  Deigið var afar þægilegt að vinna með, ekkert mál að fletja það út. Ég var eiginlega áhyggjufull yfir því að snúðarnir yrðu ekki nógu mjúkir þar sem að deigið var ekkert blautt en snúðarnir urðu lungnamjúkir. Venjulega hef ég brætt smjör og kanilsykur í fyllinguna þegar ég baka kanilsnúða. En í þessari uppskrift er notað smjör við stofuhita sem er hrært við kanilsykur og vanillusykur. Þetta er snilldarfylling sem er mjög auðvelt og fljótlegt að dreifa yfir deigið og afar bragðgóð. Ég mun örugglega nota hana áfram í framtíðinni þegar ég geri kanilsnúða. Vanillukremið gerir svo snúðana sérstaklega ljúffenga. Þetta er stór uppskrift af vanillukremi og það er gott að reyna að nota hana alla. Mikilvægt er að sprauta kreminu þétt inn í snúðana, byrja að sprauta alveg á botni plötunnar og fylla snúðana vel af kremi. Það verða 6 eggjahvítur afgangs af þessari uppskrift og þær er tilvalið að nota í þennan einfalda en ljúffenga eftirrétt. Ég notaði þær reyndar í að útbúa stóra og girnilega eggjaköku (bætti við tveimur heilum eggjum) í hádegismat.

Vanillukrem:

 • 1 vanillustöng
 • 5 dl mjólk
 • 8 msk sykur, 3+5
 • 6 eggjarauður
 • 1 dl maizenamjöl

Vanillustöngin er klofin á lengdina og fræin skafin úr. Mjólk, vanillukornin og þrjár matskeiðar af sykrinum sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Eggjarauður og fimm matskeiðar af sykri þeytt saman ásamt maizenamjölinu þar til blandan verður létt. 1/3 af heitu mjólkurblöndunni sigtað út í og þeytt þar til blandan verður slétt. Þár er restinni af mjólkurblöndunni bætt út í og þeytt áfram þar til blandan verður slétt. Blöndunni hellt aftur í pott og hún hituð við vægan til miðlungs hita og hrært stöðugt í á meðan þar til kremið þykknar. Þá er það tekið af hellunni og kælt.

Fylling:

 • 150 gr smjör við stofuhita
 • 1 1/3 dl sykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 1 1/2 msk kanill

Öllum hráefnunum hrært saman.

Snúðar:

 • 50 gr ferskt ger eða 1 bréf þurrger (bréfið er yfirleitt 12-15 grömm)
 • 5 dl volg mjólk
 • 2 1/3 dl sykur
 • 1 tsk salt
 • 200 gr smjör við stofuhita, skorið í bita
 • ca 17-18 dl hveiti
 • smör til að smyrja formið með

Ofninn stilltur á 200 gráður. Ger leyst upp í mjólkinni í skál og sykri bætt út í. Því næst er smjöri, salti og hveiti bætt út í. Deigið hnoðað þar til það verður slétt og samfellt, ca. 5 mínútur í vél eða ca. 10 mínútur í höndunum. Dálitlu hveiti stráð á borðið og deigið flatt út, ca. 34×60 cm. Fyllingunni smurt á deigið og því rúllað saman (frá lánghliðinni) í lengju eins og rúllutertu. Lengjan skorin í ca. 2 cm breiða sneiðar. Ofnskúffa smurð að innan og snúðunum raðað fremur þétt á plötuna, plastfilma breidd yfir snúðana og þeir látnir hefast í 1-2 klukkutíma. (Það urðu þrír snúðar afgangs sem ég kom ekki í ofnskúffuna og ég setti þá í muffinsform og bakaði þá í ca. 12 mínútur).  Þegar snúðarnir hafa hefast nægilega er vanillukremið sett í rjómasprautu, henni er þrýst í gegnum miðjuna á hverjum snúð og kreminu sprautað í. Best er að byrja að sprauta niðri við plötu og færa sprautuna hægt upp á meðan sprautað er. Svo mikilu kremið skal sprautað í snúðana að það þrýstist upp á yfirborðið. Snúðarnir eru bakaðir neðarlega við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Bestir eru snúðarnir bornir fram heitir en eftir það er gott að hita þá örlítið upp í örbylgjuofni áður en þeir eru bornir fram.

Sænskir snúðar með vanillu- og rjómaostakremi


Þegar ég sá þessa uppskrift á sænsku bloggi þá fannst mér hún fyrir það fyrsta líta afar girnilega út en að auki leit hún út fyrir að vera voðalega auðveld! Ég hafði rétt fyrir mér, þessi snúðar eru svakalega góðir og þetta er fljótgerð og auðveld uppskrift. Samt tókst mér næstum því að klúðra henni! Ég er ekki alveg viss um hvað ég gerði rangt en snúðarnir hjá mér voru ekkert líkir fyrirmyndinni! Aðallega var það vanillukremið sem var allt öðruvísi í útliti, bragðið var reyndar rosalega gott. En kremið átti samkvæmt upphaflegu uppskriftinni að vera meira gult og ekki að brúnast svona í ofninum. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því að kremið hjá mér var hvítt, ég hef líklega þeytt þeytt það alltof mikið, ég hugsa að það eigi bara að hræra það saman létt með gaffli. Ég hins vegar þeytti það í hrærivélinni það til kremið varð létt og ljóst. Að auki klikkaði næstum því hjá mér bökunartíminn, það var á mörkunum að ég bakaði snúðana nóg, þeir voru orðnir vel dökkir að utan en samt á mörkunum að vera bakaðir í gegn. Ég bakaði þá í rúmar 15 mínútur, 20 mínútur eru líklega nær lagi. En góðir voru þeir! Alveg hrikalega góðir meira að segja! Ég hvet ykkur til að prófa og gera ekki mín mistök og athuga hvort snúðarnir verði ekki fallegri en mínir!

Uppfærsla: það var nú svo skrítið að daginn eftir voru snúðarnir allt öðruvísi í útliti, kremið hafði sest betur og var orðið gulleitt eins og hjá fyrirmyndinni. Þannig að þetta var kannski ekkert svo galið hjá mér eftir allt saman! 🙂 En ég mæli samt með því að píska bara kremið létt með gaffli.

Uppskrift, ca. 20 snúðar:
5 dl mjólk
150 gr smjör, við stofuhita
1 pakki þurrger
1 dl sykur
0,5 tsk salt
10-13 dl hveiti
Fylling (ath. það varð talsverður afgangur af þessari uppskrift, 2/3 nægir alveg):
150 g smjör, við stofuhita
200 g philadelphia rjómaostur
3 dl flórsykur
2 msk vanillusykur
Egg til að pensla með
sænskur perlusykur (pärlsocker – sjá færslu um hann hér).
Hitið mjólkina þannig að hún verði volg og hrærið gerið út í. Bætið við linu smjöri, sykri, salti og hveitinu. Hnoðið deigið þar til það verður slétt. Hellið deginu í ofnskúffu (ég klæddi hana með smörpappír) og þrýstið deginu út í alla kanta þannig að yfirborðið verði slétt. Látið hefast í ca. 30 mínútur. Búið til holur í degið með ca. þremur fingrum með jöfnu millibili (ca. 20 eða 5×5). Blandið saman hráefnunum í kremið (ég sem sagt þeytti kremið en það á að hræra hráefnin létt saman með gaffli) og setjið væna klípu af kremi í hverja holu (ca. 1 msk). Það er líka gott að prófa að setja t.d. jarðaberjasultu með ofan í nokkrar holur. Ég ætla að prófa það næst! Penslið deigið með eggi og ef þið eigið sænskan perlusykur (pärlsocker) má strá honum yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15- 20 mínútur. Leyfið snúðunum að kólna aðeins áður en þeir eru skornir niður í 20 bita, með krem í miðju hvers bita.
Þeir líta kannski bara þokkalega út þar til að þið fáið að sjá fyrirmyndina …..