Kanilsnúðar


IMG_7736Það er búið að vera útstáelsi á okkur hjónum undanfarin kvöld. Við fórum meðal annars á frábæra jazztónleika með Stórsveit Reykjavíkur og í bíó á myndina Django Unchained. Hvort tveggja nokkuð sem við mælum eindregið með. Næst á dagskrá hjá mér er leikshúsferð með vinkonunum um helgina á Macbeth. Ég væri alveg til í að fara á tónleika, í leikhús og í bíó í hverri viku! 🙂

Jóhanna Inga er búin að vera skoða snúða og vínarbrauð sem ég hef sett inn hér á síðuna og langaði svo óskaplega mikið til að baka eitthvað af því. Þegar ég renndi í gegnum uppskriftirnar uppgötvaði ég að ég er ekki enn búin að setja inn á síðuna uppskriftina mína af hefðbundum sænskum kanilsnúðum! Það er auðvitað eitthvað sem ég þurfti snarlega að bæta úr – ekki viljum við missa sænska ríkisborgararéttinn! Kanilsnúðar eru greiptir djúpt í þjóðarsál Svía. Þeir eru vinsælasta bakkelsið í bakaríum og á kaffihúsum, alltaf bakaðir fyrir afmæli og ómissandi þegar á að „fika“. Mér finnst best við þessa uppskrift hvað fyllingin er djúsí og góð. Ég nota sænskan perlusykur ofan á snúðana en hann fékk ég í Svíþjóð. Sá sem fæst hér er ekki sá sami, ég skrifaði um það hér.

IMG_7730

Uppskrift:

  • 800 gr hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 1 1/2 dl sykur
  • 1 bréf þurrger
  • 130 g smjör
  • 1/2 líter mjólk

Smjör er hitað í potti þar til það bráðnar og þá er mjólkinni bætt út í. Þurrger sett í skál og þegar vökvinn er ca. 37 gráður er honum hellt út í og pískað létt saman við gerið. Eftir smástund er þurrefnunum blandað út í. Gott er að skilja dálítið eftir af hveitinu og bæta við eftir þörfum. Ég reyni að hafa deigið eins blautt og hægt er en þó þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist of mikið. Deigið er hnoðað í nokkrar mínútur í vél eða aðeins lengur í höndunum. Deigið er svo látið hefast á hlýjum stað undir viskustykki í ca. 40 mínútur. Þegar sá tími er liðinn er deginu skipt í þrjá eða fjóra hluta. Hver hluti er  flattur út í fremur ílangan ferning og fyllingin borin á.

IMG_7714

Fylling:

  • 150 gr smjör við stofuhita
  • 1 1/3 dl sykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 1/2 msk kanill
  • egg og perlusykur

Öllum hráefnunum hrært saman fyrir utan eggið og perlusykurinn. Þegar fyllingunni hefur verið dreift yfir deigið er því rúllað upp og rúllan skorin í sneiðar. Snúðunum er svo raðað á bökunarpappír, þeir penslaðir með eggi og stráð yfir perlusykri (honum má auðvitað sleppa). Gott er að leyfa snúðunum að hefast undir viskustykki í ca. 30 mínútur til viðbótar.

IMG_7717

Bakarofn er hitaður í 220 gráður (undir- og yfirhita) og snúðarnir bakaðir í miðjum ofni í um það bil 8-10 mínútur.

IMG_7733

9 hugrenningar um “Kanilsnúðar

  1. Þessa uppskrift er ég búin að baka ótal sinnum í sumar, fljótleg og þægileg svo ekki sé talað um gómsæta snúðana 🙂

  2. Takk fyrir uppskriftina. 🙂 Ég gerði þessa um daginn og þeir voru dásamlega góðir, bragðmiklir og mjúkir. Besta uppskrift af kanilsnúðum sem ég hef komist yfir.

  3. Bakvísun: Glútenlausar vöfflur á vöffludegi | Eldhússögur

  4. Frábærar uppskriftir sem eru á þessari síðu. Hef prófað marga rétti frá þér og allir himinlifandi heima.
    Ég var að velta því fyrir mér hvar þú færð þennan hvíta perlusykur? Ég hef verið að leita og leita og finn hann hvergi.

    • Takk fyrir hrósið Anna! 🙂

      Því miður þá fæst þessi perlusykur ekki hér á Íslandi, ég kaupi minn í Svíþjóð. Perlusykurinn sem fæst hér á landi er glær og öðruvísi en þessi sænski hvíti.

  5. Þægileg uppskrift og gat auðveldlega aðlagað hana að mjólkurofnæmisbarninu. Hann má reyndar fá smjör en ég nota rísmjólk í staðin en það hefur engin áhrif á bragðið.

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.