Kanilsnúðar með vanillukremi


Jóhanna Inga er búin að tala um sænsku snúðana með vanillu- og rjómaostakremi hér um bil daglega síðan ég bakaði þá síðast. Þeir eru í algjöru uppáhaldi hjá henni og reyndar okkur hinum líka. Ég lofaði Jóhönnu að baka snúða um síðustu helgi en langaði svo að prófa nýja spennandi kanilsnúða uppskrift sem ég sá á sænskum uppskriftavef. Það reyndist vera góð ákvörðun þar sem allir á heimilinu kolféllu fyrir þessum nýju snúðum! Dómurinn frá Alexander var að þetta væru ,,snúðar á öðru leveli en allir aðrir snúðar!“. Vilhjálmi fannst þeir ,,geðveikt góðir“ og ég held að ég taki undir með þeim báðum. Vanillukremið setti sannarlega punktinn yfir i-ið!  Deigið var afar þægilegt að vinna með, ekkert mál að fletja það út. Ég var eiginlega áhyggjufull yfir því að snúðarnir yrðu ekki nógu mjúkir þar sem að deigið var ekkert blautt en snúðarnir urðu lungnamjúkir. Venjulega hef ég brætt smjör og kanilsykur í fyllinguna þegar ég baka kanilsnúða. En í þessari uppskrift er notað smjör við stofuhita sem er hrært við kanilsykur og vanillusykur. Þetta er snilldarfylling sem er mjög auðvelt og fljótlegt að dreifa yfir deigið og afar bragðgóð. Ég mun örugglega nota hana áfram í framtíðinni þegar ég geri kanilsnúða. Vanillukremið gerir svo snúðana sérstaklega ljúffenga. Þetta er stór uppskrift af vanillukremi og það er gott að reyna að nota hana alla. Mikilvægt er að sprauta kreminu þétt inn í snúðana, byrja að sprauta alveg á botni plötunnar og fylla snúðana vel af kremi. Það verða 6 eggjahvítur afgangs af þessari uppskrift og þær er tilvalið að nota í þennan einfalda en ljúffenga eftirrétt. Ég notaði þær reyndar í að útbúa stóra og girnilega eggjaköku (bætti við tveimur heilum eggjum) í hádegismat.

Vanillukrem:

 • 1 vanillustöng
 • 5 dl mjólk
 • 8 msk sykur, 3+5
 • 6 eggjarauður
 • 1 dl maizenamjöl

Vanillustöngin er klofin á lengdina og fræin skafin úr. Mjólk, vanillukornin og þrjár matskeiðar af sykrinum sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Eggjarauður og fimm matskeiðar af sykri þeytt saman ásamt maizenamjölinu þar til blandan verður létt. 1/3 af heitu mjólkurblöndunni sigtað út í og þeytt þar til blandan verður slétt. Þár er restinni af mjólkurblöndunni bætt út í og þeytt áfram þar til blandan verður slétt. Blöndunni hellt aftur í pott og hún hituð við vægan til miðlungs hita og hrært stöðugt í á meðan þar til kremið þykknar. Þá er það tekið af hellunni og kælt.

Fylling:

 • 150 gr smjör við stofuhita
 • 1 1/3 dl sykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 1 1/2 msk kanill

Öllum hráefnunum hrært saman.

Snúðar:

 • 50 gr ferskt ger eða 1 bréf þurrger (bréfið er yfirleitt 12-15 grömm)
 • 5 dl volg mjólk
 • 2 1/3 dl sykur
 • 1 tsk salt
 • 200 gr smjör við stofuhita, skorið í bita
 • ca 17-18 dl hveiti
 • smör til að smyrja formið með

Ofninn stilltur á 200 gráður. Ger leyst upp í mjólkinni í skál og sykri bætt út í. Því næst er smjöri, salti og hveiti bætt út í. Deigið hnoðað þar til það verður slétt og samfellt, ca. 5 mínútur í vél eða ca. 10 mínútur í höndunum. Dálitlu hveiti stráð á borðið og deigið flatt út, ca. 34×60 cm. Fyllingunni smurt á deigið og því rúllað saman (frá lánghliðinni) í lengju eins og rúllutertu. Lengjan skorin í ca. 2 cm breiða sneiðar. Ofnskúffa smurð að innan og snúðunum raðað fremur þétt á plötuna, plastfilma breidd yfir snúðana og þeir látnir hefast í 1-2 klukkutíma. (Það urðu þrír snúðar afgangs sem ég kom ekki í ofnskúffuna og ég setti þá í muffinsform og bakaði þá í ca. 12 mínútur).  Þegar snúðarnir hafa hefast nægilega er vanillukremið sett í rjómasprautu, henni er þrýst í gegnum miðjuna á hverjum snúð og kreminu sprautað í. Best er að byrja að sprauta niðri við plötu og færa sprautuna hægt upp á meðan sprautað er. Svo mikilu kremið skal sprautað í snúðana að það þrýstist upp á yfirborðið. Snúðarnir eru bakaðir neðarlega við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Bestir eru snúðarnir bornir fram heitir en eftir það er gott að hita þá örlítið upp í örbylgjuofni áður en þeir eru bornir fram.