Rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum & basilku og ný espresso vél


IMG_5538IMG_5129

*færsla í samstarfi við Heimilistæki*

Þar til fyrir stuttu drakk ég ekki kaffi og hafði satt best að segja óbeit á öllu sem var með mokka- eða kaffibragði. Þetta breyttist allt fyrir tveimur árum. Þá vorum við stödd í Toskana á Ítalíu í dásamlega fallegu umhverfi og umvafin góðum hráefnum úr héraðinu; parmaskinku, melónu, baguette brauði, ljúfu víni og auðvitað … espresso kaffi. Mér fannst ég þá knúin til að prófa mig meira áfram með kaffi, verandi í þessu landi kaffiunnenda. Elfar minn er mikill espresso maður og þegar við ferðumst saman þá er til dæmis alltaf hluti af ferðinni tileinkuð því að finna besta espresso bolla viðkomandi lands. Í Toskana dvöldum við í frábæru húsi (sjá hér) og þar var auðvitað espresso kaffivél að ítölskum sið. Ég bað Elfar á hverjum morgni að útbúa fyrir mig espresso kaffibolla. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist þeir sérstaklega góðir en ég drakk samt einn bolla á hverjum morgni í garði  fallega hússins sem við dvöldumst og naut ótrúlegs útsýnis yfir Toskana héraðið með espresso bolla í hönd. Í lok dvalarinnar fórum við til Rómar þar sem ég pantaði mér cappuccino á kaffihúsi. Þá gerðist eitthvað, allt í einu fannst mér bollinn ákaflega ljúffengur. Upp frá því hef ég drukkið einn bolla af cappuccino á hverjum morgni og nýt þess til hins ýtrasta! Fyrst fannst mér dálítið skrítið að drekka heitan drykk daglega, ég var ekki vön því. Mér leið eins og ég þyrfti alltaf að fá mér ristað brauð með bollanum, því það var svo mikil kakó tilfinning yfir svona heitum drykk. Núna drekk ég kaffibollann minn yfirleitt stakan en stundum fæ ég mér ristaða beyglu með honum en beyglur eru í miklu eftirlæti hjá mér.

Síðastliðin ár höfum við átt fallega, bláa espresso vél sem hefur þjónað okkur rosalega vel því bæði elstu börnin eru kaffifólk eins og pabbi sinn og vélin því mjög mikið notuð. Nú þegar ég bættist í kaffidrykkjuhópinn þá fannst mér hins vegar vera kominn tími til að uppfæra vélina, aðallega vegna þess að gamla vélin flóaði ekki mjólkina nógu vel en það er grundvallaratriði fyrir cappuccino bollann minn! Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá vinn ég heimavinnuna mína vel þegar á að kaupa tæki til heimilisins. Ég er mikill grúskari og kaupi engin tæki nema vera búin að vega og meta kosti og galla allra mögulegra tækja sem koma til greina! Eftir mikið Internet grúsk þá varð þessi vél fyrir valinu, Sage by Heston Blume the barista express sem fæst í Heimilistækjum.

IMG_5565

Ekki er þetta bara frábær vél heldur er hún líka falleg. Þetta er eina vélin sem ég hef uppi við í eldhúsinu, hin tækin eru í tækjaskáp, og það kom því ekki til greina að kaupa einhverja ljóta vél! 😉  Mér finnst eitthvað svo fallegt retró útlit á henni. Jú og svo fékk nú kaffikallinn minn að segja eitthvað til um þetta líka. Hann veit meira en ég um þrýstinginn, mölunina og slíkt sem svona vélar eru með og þessi vél slapp líka í gegnum hans nálarauga.

IMG_5543

Við vorum satt best að segja áköf eins og lítil börn þegar vélin kom í hús!

IMG_5515

Elfar var svo spenntur að prófa kaffiið til, stilla mölunina og slíkt að hann drakka fjóra espresso bolla í röð og varð frekar ofvikur fyrir vikið þann daginn! 🙂

IMG_5551IMG_5547IMG_5548IMG_5573

Ég var auðvitað spenntust fyrir capuccino bollanum mínum. Þegar mjólk er flóuð fyrir cappuccino þá er langbest að nota G-mjólk. Munurinn á Cappuccino og Café latte er að í latte er mjólkin flóuð, engar loftbólur eiga að vera í drykknum og hlutfallið milli kaffisins og mjólkur er 1:4. En í Cappuccino er mjólkin freydd og hlutfallið er 1/3 kaffi, 1/3 heit mjólk og 1/3 mjólkurfroða. Þegar mjólkin er flóuð þarf að nota stálkönnu sem er fyllt einum þriðja og mikilvæg er að mjólkin sé köld, sumir kæla líka könnuna sjálfa. Gott er að halla könnunni til að fá sem mest yfirborð. Þegar mjólkin er flóuð fyrir latte þarf að gæta þess að ná góðri hringrás í mjólkina, án þess að hún myndi stórar loftbólur. Ekki má flóa mjólkina of lengi, hún á ekki að vera heitari en 65-75 gráður og hægt er að nota hitamæli til að vera nákvæmur.

IMG_5579IMG_5580IMG_5553IMG_5562IMG_5542

Dásamlega gott og þvílíkur lúxus að fá kaffihúsa-cappucino heima hjá sér .. eða eiginlega bolla sem er betri en á kaffihúsum!  Mér finnst svo gott að fá mér ristaða beyglu með kaffinu og um daginn bjó ég til eiginlega hættulega góða rjómaostahræru sem passar svo ákaflega vel ofan á ristaða beyglu, þið verðið bara að prófa!

IMG_5139

Uppskrift:

  • 200 g rjómaostur
  • ca. 6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt.
  • fersk basiliku blöð (gott að nota ca. helming af 30 g pakka)
  • ferskmalaður svartur pipar
  • salt

Sólþurrkuð tómatarnir saxaðir smátt og basilika er söxuð smátt. Þessu er hrært vel saman við rjómaostinn og smakkað til með salti og pipar. Borið fram t.d. með ristuðum beyglum .. og góðum cappuccino bolla! 😉

IMG_5170

Kladdkaka með kókoskaramellu


 

IMG_5317

Við stórfjölskyldan, sem er reyndar ekkert svo ofsalega stór, höfum þá hefð að hittast í sunnudagskaffi hvern einasta sunnudag. Oftast er kaffiboðið heima hjá foreldrum mínum og þangað mæta amma og afi, bræður mínir og fjölskyldur þeirra ásamt mér og mínum. Þetta er þó engin kvöð, þeir mæta bara sem geta, yfirleitt mæta þó flestir. Þetta finnst mér góð hefð því oft er það þannig að fjölskyldur eru alltaf á leiðinni að hittast en ekkert verður úr því allir eru svo uppteknir og tíminn þýtur síðan áfram án samverustunda. Stundum breytum við til og borðum saman kvöldmat á sunnudögum, þá sé ég um matargerðina. Mamma ber hins vegar hitann og þungann af kaffiboðunum þó svo að við hin komum stundum með eitthvað smávægilegt á kaffiborðið. Um daginn gerði ég þessa ljúffengu köku fyrir sunnudagskaffið sem sló í gegn og mamma meira að segja óskaði eftir því að ég bakaði hana aftur fyrir afmælið sitt skömmu seinna. Þessi kaka er algjört sælgæti, ég mæli með að þið prófið! 🙂

IMG_5320

Uppskrift:

  • 180 g mjúkt smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 ½ dl bökunarkakó
  • ½ dl ljós síróp
  • 3 egg
  • 1 ½ dl hveiti

Ofn hitaður í 175 gráður við undir/yfirhita. Smjör og sykur hrært þar til létt og ljós. Þá er kakói og sírópi bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að lokum er hveitinu hrært saman við. Form (ca. 25cm x 35cm) er klætt bökunarpappír og deiginu hellt í formið og dreift úr því jafnt. Þá er kakan bökuð við 175 gráður í um það bil 30 mínútur, kakan á að vera dálítið klesst. Kakan er látin kólna á meðan kókoskaramellan er útbúin.

kókoskaramella:

  • 75 g smjör
  • 1 ½ dl ljóst síróp
  • ¾ dl rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 dl sykur
  • 200 g gróft kókosmjöl

Smjörið er brætt í potti ásamt sírópi, rjóma og sykri og látið malla í um það bil 5 mínútur. Þá er kókosmjöli bætt út í og blandan látin ná suðu. Þá er blöndunni hellt yfir kökuna (þegar hún hefur kólnað vel) og bakað áfram í 10 mínútur við 175 gráður.

IMG_5322IMG_5305

Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332