Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum


IMG_0779Eins og ég hef sagt frá kom yfir mig ísgerðarlöngun nú í desember og ég bjó til nokkra mismunandi ísa fyrir hátíðarnar. Ég var dálítið ánægð með mig þegar ég var búin að þróa uppskriftina að þessum ís því mér fannst hann svo himneskt góður og smjörsteiktu kanileplin settu algjörlega punktinn yfir i-ið. Mér fannst ofboðslega gott að fá svona stökka núggat áferð á Dumle molana í ísnum og lítið mál að búa það til. Stórfjölskyldunni var boðið upp á þennan ís yfir hátíðarnar og gáfu honum öll toppeinkunn! 😉 Það er varla hægt að vera með hátíðlegri eftirrétt nú um áramótin og reyndar er þetta eftirréttur sem sómir sér vel allt árið um kring! 🙂 IMG_0761

Uppskrift f. 6

  • 2 pokar Dumle Orginal karamellur (samtals 240 g)
  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 2 vanillustangir, klofnar í tvennt og fræin skafin úr

Ofn er hitaður í 180 gráður við blástur. Dumle karamellunum er raðað á ofnplötur  klæddar bökunarpappír. Sett inn í ofn við 180 gráður í um það bil 5-7 mínútur eða þar til karamellurnar hafa bráðnað. Gæta þarf þess að þær brenni ekki. Þegar karamellurnar hafa kólnað eru þær saxaðar niður.IMG_0747IMG_0753IMG_0756

Rjómi þeyttur. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til blandan verður ljós og loftmikil. Þá er þeyttum rjóma, vanillufræjum og Dumle-núggati bætt varlega út í og blandað vel saman með sleikju. Sett í ísform eða 24 cm smelluform og fryst í minnst 5 tíma. Borið fram með heitum smjörsteiktum kanileplum.

Smjörsteikt kanilepli:

  • 4 rauð epli
  • 3/4 dl púðursykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 msk smjör.

Eplin eru afhýdd og skorin í fremur þunna báta. Púðursykri og kanil blandað saman og eplunum velt upp úr blöndunni. Smjör hitað á pönnu og eplin steikt í nokkrar mínútur á meðalhita þar til þau hafa mýkst vel. IMG_0765

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli


Hægeldaður lambahryggur í jólaöliÞegar ég var barn þá skildi ég ekkert í því að lambalæri og lambahryggur væri álitið sunnudagsmatur því mér fannst það alls ekki gott. Núna finnst mér lambakjöt einn sá besti matur sem ég fæ og lambahryggur er orðinn einn af mínum uppáhaldsréttum. Mér finnst best að hægelda hrygginn og hef gaman að prófa mig áfram með mismunandi sósur. Að þessu sinni notaði ég það sem hendi var næst og hægeldaði hrygginn í jólaöli. Það kom frábærlega vel út og gerði sósuna svo góða. Í stað þess að nota jólaöl er líka hægt að nota pilsner.

Með hryggnum steikti ég ferskt grænmeti. Með því að steikja grænmetið upp úr smjöri og nota grænmetiskraft, sem gefur seltu og krydd, þá verður það algjört sælgæti. Ég prófaði líka að steikja gulrætur upp úr brúnuðu smjöri og maukaði þær síðan, dásamlega gott. Að auki var ég með ofnbakaðar kartöflur og sætarkartöflur sem meðlæti. Mér finnst mjög gott að bræða saman smjör og ólífuolíu í potti og hella yfir kartöflurnar ásamt góðu kryddi áður en þær fara inn í ofn, það gefur svo góða áferð og bragð.

IMG_0946 Þessi máltíð var svo góð að þetta verður nýársmaturinn hjá okkur að þessu sinni, ekki slæmt að byrja nýtt og spennandi ár á slíkum herramannsmat! 🙂

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 6:

  • 1 lambahryggur (3 kíló)
  • 400 ml jólaöl – ég notaði tilbúna blöndu af Malti og Appelsíni (eða pilsner)
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • ca. 1 msk hunangs-dijon sinnep
  • kryddið „Bezt á lambið“
  • 2-3 dl rjómi
  • ca. 2 msk hveiti
  • ca. 1/2 -1 msk sojasósa
  • ca. 1/2 msk rifsberjahlaup
  • 1-2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sósujafnari + sósulitur við þörfum

IMG_0936

Ofninn er hitaður í 100 gráður við undir og yfirhita. Lambahryggurinn er snyrtur ef með þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hnífsoddi stungið hér og þar í hrygginn og 10-12 hvítlauksrifum stungið ofan í raufarnar. Þá er hryggurinn smurður með þunnu lagi af dijonsinnepi og því næst kryddaður vel með kryddinu „Bezt á hrygginn“. Nú er hryggurinn settur ofan í ofnpott og jólaölinu hellt ofan í pottinn. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 4 – 5 tíma (fer eftir þykkt hryggsins og hversu mikið steiktan maður kýs að hafa hann). Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 65-70 gráður, við 65 gráður er kjötið enn fremur bleikt. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin. IMG_0942

Sósa: Vökvinn er sigtaður ofan í pott og látinn standa í smástund á kaldri hellu þannig að fitan fljóti upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti með gaffli þar til smjörbollan verður passlega þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og smjörbollunni bætt út í og hrært vel á meðan. Því næst er rjómanum bætt út í og sósan smökkuð til með sojasósu, rifsberjahlaupi, nautakrafti og kryddum. Ef sósan er of þunn er notaður sósujafnari og sósan dekkt við þörfum með sósulit.

IMG_0965

Smjörsteikt grænmeti: 

  • 1 brokkolíhaus, skorinn í bita
  • 250 g sveppir, skornir í beta
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítill rauðlaukur, skorin í sneiðar
  • 2-3 msk smjör
  • 1-2 tsk grænmetiskraftur (ég notaði frá Oscars)
  • salt og pipar

Smjörið er brætt á pönnu og grænmetið steikt í nokkrar mínútur þar til það er hæfilega eldað. Kryddað með grænmetiskrafti, salti og pipar.

IMG_0939

Gulrótarmauk í brúnuðu smjöri:

  • 300 g gulrætur
  • 80 g smjör
  • salt og pipar

IMG_0941

Gulræturnar eru skornar í bita. Smjörið er brætt í potti og gulræturnar látnar malla í smjörinu í um það bil 15 mínútur við meðalhita og hrært öðru hvoru í pottinum. Þegar smjörið hefur brúnast og gulræturnar orðnar dökkar eru þær maukaðar og kryddaðar með salti og pipar.
IMG_0957

Sævar Már vínþjónn mælir með rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessari máltíð. Lýsingin á víninu er eftirfarandi: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.rioja

 

Pizzabrauð


Pizzabrauð

Nú er jólaundirbúningurinn að ná hámarki. Ég fór í síðustu viku til Boston og átti þar mjög ljúfa daga. Veðrið var ótrúlegt, 15-16 stiga hiti og sól, sumarblómin höfðu enn ekki fölnað! Bostonbúar voru agndofa yfir þessu veðri enda vanir vetrarhörkum. Það var ákaflega gott að fá smá frí frá kulda og klaka enda gengum við borgina enda á milli þessa fimm daga sem við dvöldum þar, heila 60 kílómetra samkvæmt gönguappinu. Það var afar gaman að skoða borgina en einna skemmtilegast var að fara á jólatónleikana hjá synfóníuhljómsveit Boston ásamt kór. Mér tókst hér um bil að kaupa allar jólagjafirnar líka. Ég reyndi að panta sem mest og lét senda á hótelið þannig að ég þyrfti ekki að vera að leita í búðunum. Nú þegar jólagjafirnar eru frá get ég farið að einbeita mér að matarstússi. Ég verð með hefðbundinn mat á aðfangadag, hamborgarhrygg. Á jóladag er ég með hangikjöt en ég er ekki alveg búin að ákveða hvað verður í matinn á annan í jólum. Ég er komin með nokkrar tegundir af ísum inn í frysti, allt nýjar tegundir í ár, meðal annars ný uppáhaldsútgáfa af Toblerone ís og svo dásamlega góður Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum

Í dag langar mig hins vegar að færa hér inn á bloggið afar góða og einfalda uppskrift að ljúffengu pizzabrauði. Á morgun förum við á hefðbundið ættarjólaball þar sem allir koma með eitthvað á hlaðborð. Mér finnst sjálfri alltaf gott að fá mér eitthvað brauðkyns á slíkum hlaðborðum og þetta pizzabrauð myndi sóma sér vel þar.

Uppskrift:

  • 2 bréf þurrger (11.8 g bréfið)
  • 1 tsk hunang eða sykur
  • 3 dl volgt vatn
  • 1 tsk salt
  • 2 msk olía
  • 8-10 dl hveiti

Fylling:

  • 2-3 dl góð pizzasósa
  • 200 g pepperóni
  • ca. 300 g rifinn ostur
  • 2 mozzarellakúlur (120 g stykkið)
  • heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum eða annað gott krydd

IMG_7580

Gerið er leyst upp í volga vatninu ásamt hunangi eða sykri þar til blandan byrjar að freyða, tekur ca. 10 mínútur. Hveiti og salti blandað saman við olíuna. Um það bil helmingnum af þessari blöndu er bætt út í gerblönduna og unnið með hnoðkrók í vél eða í höndum. Smátt og smátt er hveitiblöndunni bætt saman við og hnoðað þar til deigið hefur fengið passlega áferð, hvorki of blautt eða of þurrt. Þá er blautur klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Því næst er deiginu skipt í tvennt og hvor helmingur fyrir sig flattur út í rétthyrning, ca. 25 x 40 cm.

IMG_7587

Pizzasósunni er dreift á báða helmingana ásamt pepperóni, rifnum osti og niðurskornum mozzarella. Kryddað með góðu kryddi, t.d. heitu pizzakryddi, oregano og/eða basiliku. Þá er pizzunum rúllað upp frá langhliðinni og þær lagðar á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með vatni eða olíu og kryddaðar með saltflögum, pizzakryddi eða oregano. Rúllurnar látnar hefast í 30 mínútur. Ofn hitaður í 200 gráður og rúllurnar bakaðar í 30-35 gráður.

IMG_7589 IMG_7594

Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum


IMG_0787 IMG_0797Eftir að hafa lukkast vel með útfærslu á Toblerone ísnum um daginn fór ég að hallast á þá skoðun að kannski væri ég meira fyrir ís en ég áður hafði haldið. Allavega er ég búin að búa til tvo ísa til viðbótar sem ég ætla að hafa í eftirrétt yfir jól og áramót sem mér fannst vera hnossgæti. Í þessum tilraunum mínum komst ég líka að því hvað það er óskaplega skemmtilegt að prófa sig áfram með hinar ýmsu útfærslur á ísum og sjaldnast hægt að mistakast þegar allskonar gúmmelaði er blandað saman við þeyttan rjóma! 🙂

IMG_0802

Uppskriftin sem ég ætla að færa inn á bloggið í dag er af ofboðslega fallegum ís með frísklegu hindberjabragði sem kemur skemmtilega út á móti bismark og myntusúkkulaðibragðinu. Ég notaði súkkulaðifylltan myntubrjóstsykur sem gefur bæði ljúffengt en jafnframt hátíðlegt bragð af ísnum.

marianne

Uppskrift:

  • 5 eggjarauður
  • 1 msk sykur
  • 5 dl rjómi
  • 1 kassi Fazermint myntufyllt súkkulaði (150 g)
  • 1 poki Marianne súkkulaðifylltur myntubrjóstsykur (120 g)
  • 300 g frosin hindber, afþýdd.

Rjóminn er þeyttur og lagður til hliðar. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Myntubrjóstsykur er mulinn fremur smátt í matvinnsluvél. Fazermint myntusúkkulaði er saxað niður. Hindber eru maukuð með gaffli. Þeytta rjómanum er blandað varlega saman við þeyttu eggjarauðurnar með sleikju og söxuðu súkkulaði, muldum brjóstsykri og maukuðum hindberjum blandað varlega saman við. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og fryst í að minnsta kosti 5 tíma.

IMG_0801

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum


IMG_0595

Mér finnst Pavlovu marengs ægilega góður og það er lítið mál að gera slíka marengstertu að rúllu. Hér prófaði ég mig áfram með að búa til krem úr hnetusmjöri og ég notaði líka hættulega góðu Dumle snacks molana í kremið. Þegar ég geri eitthvað úr hnetusmjöri þá get ég sjaldan staðist þá freistingu að smygla banönum með í uppskriftina og hér pössuðu þeir eins og hönd í hanska við kremið. Hnetusmjör, bananar og Dumle snacks með mjúkum Pavlovumarengs – þetta getur ekki klikkað! 🙂

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum.

 Marengs:

·      5 eggjahvítur

·      2,5 dl sykur

·      1 tsk edik

·      2 tsk kartöflumjöl eða maíssterkja

·      1 tsk vanillusykur

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til allt er stífþeytt. Í lokin er ediki, kartöflumjöli og vanillusykri bætt út í. Ofnplata er klædd með bökunarpappír og marengsinum smurt á bökunarpappírinn þannig að hann myndar ca. 35×30 cm ferning. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til marengsinn er gullinbrúnn. Þegar marengsinn hefur kólnað er honum hvolft á nýjan bökunarpappír og súkkulaði – og hnetusmjörskreminu smurt á.

Súkkulaði- og hnetusmjörskrem

·      50 g smjör við stofuhita

·      200 g flórsykur

·      200 g Nusica heslihnetu- og súkkulaðikrem

·      200 g Philadephia rjómaostur, við stofuhita

·      175 g Dumle snacks karamellur, skornar í litla bita

·      2 stórir bananar, skornir í sneiðar

Smjör og flórsykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaði- og hnetukreminu bætt út í og að lokum rjómaostinum. Þegar allt hefur blandast vel saman er niðursneiddum banönum og Dumle karamellum blandað varlega saman við kremið með sleikju. Kreminu er smurt yfir marengsinn og honum rúllað upp með hjálp bökunarpappírsins. Skreytt með Dumlekremi og Dumle karamellum.

Dumle krem

·      60 g Dumle orginal karamellur , skornar í bita

·      1-2 msk rjómi eða mjólk

·      nokkrar Dumle orginal karamellur til skreytingar

Karamellurnar bræddar í potti við vægan hita og mjólk eða rjóma bætt út í þar til hæfilegri þykkt er náð. Þá er kreminu dreift yfir marengsrúlluna og skreytt með nokkrum Dumle karamellum. IMG_0590